Líka hlegið í Konukoti – ekki eymdin út í gegn

Heimilislaust fólk í Reykjavík | 20. desember 2021

Líka hlegið í Konukoti – ekki eymdin út í gegn

Mikið er lagt upp úr því að hafa huggulegt í Konukoti um jólin, þar sem jólin geta verið erfiður tími fyrir heimilislausar konur. 

Líka hlegið í Konukoti – ekki eymdin út í gegn

Heimilislaust fólk í Reykjavík | 20. desember 2021

Mikið er lagt upp úr því að hafa huggulegt í Konukoti um jólin, þar sem jólin geta verið erfiður tími fyrir heimilislausar konur. 

Mikið er lagt upp úr því að hafa huggulegt í Konukoti um jólin, þar sem jólin geta verið erfiður tími fyrir heimilislausar konur. 

Halldóra Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur, er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum. Þar fer hún yfir starfsemi Konukots og aðstæður kvenna sem þangað leita, jólin fyrir skjólstæðingum skýlisins, skaðaminnkandi hugmyndafræði og fleira.

Halldóra segir að jólin geti reynst þjónustuþegum sínum erfið fyrir margra hluta sakir. Bæði vegna þess að þær eru fjarri vinum og fjölskyldu um jólin en sömuleiðis getur áfallasaga þeirra haft áhrif og sárir tímar rifjast upp þar sem jólin hafa ekki endilega alltaf verið gleðistundir fyrir alla. Þá sé það sár veruleiki að jólin séu erfið konum sem misst hafa frá sér börnin sín.

Koma ekki í stað vina og vandamanna

„Við reynum að halda allri ró, það er enginn jólatryllingur í gangi þarna. Þetta á að vera öruggt umhverfi þar sem þær koma til að fá stuðning og öryggi. Við erum með skreytingar og góðan mat og kærleika frið,“ segir Halldóra þegar hún útskýrir hvernig jólin eru skipulögð í Konukoti.

Þá segir hún að jólatré sé sett upp og konurnar fái gjafir en ekki sé endilega haldin sérstök pakkastund. Konurnar ákveði fyrir sig hvort að þær haldi sig til hlés eða vilji eyða kvöldinu saman. „Þetta eru bara fullorðnar konur sem eru ekki endilega að velja að vera þarna. Starfsfólk og sjálfboðaliðar koma ekki í stað vina og vandamanna.“

Myndast falleg vinasambönd

„Það er líka alveg hlegið í Konukoti, þetta er ekki bara eymdin út í gegn. Fólk heldur það oft en það er líka mikill kærleikur og myndast falleg vinasambönd,“ segir Halldóra um aðstæður þeirra sem vinna og sækja í Konukot, spurð hvort að algengt sé að upp komi ofbeldismál í starfseminni. 

Viðtalið við Halldóru má sjá í heild sinni hér

mbl.is