Ari Edwald, framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings, hefur óskað eftir því að fara í leyfi vegna ásakana sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu í garð ungrar konu.
Ari Edwald, framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings, hefur óskað eftir því að fara í leyfi vegna ásakana sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu í garð ungrar konu.
Ari Edwald, framkvæmdastjóri Íseyjar útflutnings, hefur óskað eftir því að fara í leyfi vegna ásakana sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi af hans hálfu í garð ungrar konu.
Þetta staðfestir Elín Margrét Stefánsdóttir, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, í samtali við mbl.is.
Innt eftir því segir Elín það ekki liggja fyrir hve lengi Ari hyggst vera í leyfi frá störfum.
„Það er ekki vitað. Það er bara ótímabundið.“
Ari er einn þeirra manna sem hin 24 ára gamla Vítalía Lazareva nafngreindi á samfélagsmiðlinum Instagram síðla árs 2021 þar sem hún tjáði sig um kynferðisofbeldi sem hún kvaðst hafa verið beitt í sumarbústaðarferð í desember 2020.
Nýlega kom Vítalía fram í viðtali í hlaðvarpsþættinum Eigin konur þar sem hún lýsti atburðinum án þess þó að nafngreina mennina sem hún sakar um að hafa brotið á sér. Ekki er ljóst hvað Ari er sakaður um en í færslu sem Vítalía birti á Instagram í október síðastliðnum er Ari nefndur ásamt þremur öðrum mönnum.
Í þættinum lýsir hún því hvernig hópur manna hafi brotið kynferðislega á henni í heitum potti í sumarbústaðarferðinni umræddu. Á þeim tíma hafi hún verið í ástarsambandi með 48 ára gömlum kvæntum manni og voru allir þeir sem hún sakar um að hafa brotið á sér í pottinum vinir hans.
Áður en hún vissi af hafi þeir allir byrjað að snerta hana og þukla á henni. Hún segir þá hafa farið yfir öll sín mörk og mörk allra þeirra sem voru í pottinum, m.a. ástmanns hennar, sem var einnig á staðnum þegar þetta átti sér stað. Í stað þess að segja eitthvað hafi hann yfirgefið pottinn og skilið Vítalíu eina eftir með mönnunum.
Hún segist hafa rætt við alla mennina í síma um hvað gerðist. Þá hafi hún einnig sagt þeim að hún hygðist leita réttar síns.
„Ég sagði þeim það og þeir leituðu aldrei aftur til mín,“ segir Vítalía í viðtalinu.