Hélt hún væri að búa til námskeið fyrir leigubílstjóra

Menntun er máttur | 9. janúar 2022

Hélt hún væri að búa til námskeið fyrir leigubílstjóra

Fyrir þá sem ganga með bók í maganum er nú í boði að sækja námskeið á vegum Frama, þar sem Yrsa Sigurðardóttir, verkfræðingur og rithöfundur, fer yfir mál málanna þegar á að skrifa skáldsögu. 

Hélt hún væri að búa til námskeið fyrir leigubílstjóra

Menntun er máttur | 9. janúar 2022

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.
Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.

Fyrir þá sem ganga með bók í maganum er nú í boði að sækja námskeið á vegum Frama, þar sem Yrsa Sigurðardóttir, verkfræðingur og rithöfundur, fer yfir mál málanna þegar á að skrifa skáldsögu. 

Fyrir þá sem ganga með bók í maganum er nú í boði að sækja námskeið á vegum Frama, þar sem Yrsa Sigurðardóttir, verkfræðingur og rithöfundur, fer yfir mál málanna þegar á að skrifa skáldsögu. 

Í upphafi hvers árs veltir Yrsa Sigurðardóttir fyrir sér næstu bók. Hún er nú þegar komin með hugmynd sem hún er að útfæra í huga sér áður en hún sest niður og byrjar að skrifa.

„Þar sem þetta er andleg vinna og krefst þess ekki að ég sitji við tölvu eða geri nokkuð líkamlegt, þá get ég stundað hana meðan ég geng frá jólaskrauti og ryksuga upp barr. Þetta fer ágætlega saman.“

Yrsa er byggingarverkfræðingur að mennt og sérmenntaði sig í framkvæmdafræði, sem hefur á sinn hátt nýst henni við skrifin.

„Verkfræðingar læra að tækla verkefni og þótt skáldsagnaskrif séu alveg ótengd þeim fræðum þá eru þau engu að síður verkefni.“

Töluverð reynsla eftir 23 bækur

Yrsu þótti gaman í skóla og á mjög góðar minningar frá öllum skólastigum.

„Þessar góðu minningar á ég bæði tengdar skólasystkinum og kennurum. Fögin heilluðu mig mismikið eins og gengur þó að ég vilji síður nefna sérstakar námsgreinar í því sambandi,“ segir Yrsa og læðir orðinu „dönsku“ á milli þess að hósta og hlæja.

Hvernig er að starfa sem kennari sjálf?

„Þessi staða kom nú til vegna misskilnings en þegar Frami hafði samband við mig þá taldi ég mig vera að ræða við Frama, félag leigubílstjóra, en pabbi vinar míns í gamla daga var formaður þess félags. Mér leist mjög vel á að búa til námskeið fyrir leigubílstjóra en svo reyndist þetta vera mun víðtækara verkefni sem nær til töluvert stærri hóps, þar á meðal leigubílstjóra. En eftir að misskilningurinn komst upp áttaði ég mig á því að ég var í góðum höndum þar sem fyrirtækið Frami vandar sig mjög við uppsetningu og gerð námskeiða, hvort sem þau tengjast skrifum, hreyfingu, eldamennsku, fjármálum, forritun eða öðru sem boðið er upp á. Hvað námskeiðið mitt varðar þá er því ætlað að hjálpa og hvetja fólk sem gengur með bók í maganum eða er byrjað að skrifa. Eftir að hafa skrifað 23 bækur er ég með töluverða reynslu í farteskinu sem ég miðla af, í von um að hjálpa þessum verðandi höfundum.“

Enginn síðasti söludagur þegar kemur að ritun bóka

Yrsa er sannfærð um að þeir sem hafa gaman af því að lesa sjálfir og hafa áhuga á bókum eigi góðan möguleika á að skapa eitthvað sjálfir í iðnaðnum.

„Það er nú eins með skáldsagnaskrif og annað; það hentar ekki allt öllum. Eitt af því sem er að mínu mati forsenda þess að geta skrifað skáldsögu er að hafa gaman af lestri bóka. Ef því er ekki fyrir að fara þá er til lítils að reyna. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er enginn síðasti söludagur hvað þetta varðar, fólk getur lært að meta bækur hvenær sem er á lífsleiðinni.“

Hvað skiptir mestu máli í sköpunarferli bóka?

„Þegar kemur að því að skapa skáldsögu skiptir margt máli. Frumforsendan er að hafa frá einhverju að segja, það er að vita hvaða sögu maður vill segja. Hún þarf ekki að vera fullmótuð en höfundurinn þarf að lágmarki að hafa komið auga á fræið sem hann getur ræktað í huganum og mótað fullþroskaða frásögn úr. Svo þarf höfundurinn einnig að búa yfir þrautseigju því annars er hætt við að verkið verði aldrei klárað.“

Eru til margar tegundir skáldskapar?

„Já, en það fer eftir því hversu hrifinn maður er af flokkun hversu mikið niðurbrotið er. Höfuðflokkarnir þrír eru oftast taldir vera: ljóð, leikverk og skáldverk/sögur. Þessa höfuðflokka má svo mylja niður í eins litlar einingar og hverjum og einum finnst henta. Sem dæmi má skipta skáldverkum í barna-, ungmenna- og fullorðinsbækur og er þá tekið mið af líklegum lesendahópi. Það má svo einnig flokka eftir efnistökum og sem dæmi um slíka flokkun má nefna ástarsögur, vísindaskáldskap, glæpasögur og fagurbókmenntir. Þessa flokka má svo flokka í undirflokka en ég efast um að það hafi neinn tilgang hér eða yfirhöfuð og almennt.“

Sögupersónurnar geta ekki verið út um allt

Hver er þessi praktíska hlið, sem allir þurfa að skoða þegar þeir skrifa skáldsögu?

„Mörg praktísk mál fylgja skáldsagnaskrifum. Þar á meðal má nefna lengd bókarinnar, sem er takmörkunum háð. Það er enginn að fara að gefa út eða lesa átta þúsund blaðsíðna bók sem dæmi. Ef sagan er „epísk“ og krefst svo langrar frásagnar þarf höfundur að sjá hana fyrir sér í bindum. Svo þarf höfundur einnig að halda sögupersónum innan skynsamlegra marka, því ef of margir þvælast fyrir er líklegt að lesandi tapi áttum. Mýmörg önnur praktísk atriði koma til kasta höfundar í ferlinu en mörg kýs maður að afgreiða á síðari stigum þar sem löngunin til að halda áfram með óskertu listrænu frelsi er ansi sterk.“

Það er áhugavert að ræða við Yrsu um bókmenntir sem listgrein, því þá kemur menntun hennar sem verkfræðingur skýrt fram, sem sýnir, eins og svo margir hafa talið, að listin býr líklegast í okkur öllum, þótt við höfum ekki fundið henni farveg ennþá.

„Allir geta lært að skrifa skáldsögu en það munu ekki allir nýta sér það sem þeir hafa lært eða búa yfir nægilegri þörf til að skrifa svo að eitthvað verði úr. Skrif krefjast svo sjálfsaga, sem mörgum reynist erfitt að beita sig, sérstaklega þegar um fyrstu skáldsögu er að ræða sem enginn ýtir á eftir. Sömuleiðis reynist sumum erfitt að taka þeirri gagnrýni sem fylgir yfirleitt yfirlestri eða ritstýringu fyrstu bókar og þá verður skáldsaga þeirra líklega andvana fædd.“

mbl.is