Kristborg Bóel Steindórsdóttir fjölmiðlakona er 46 ára fjögurra barna móðir. Hún er ein af þessum Íslensku konum sem hafa hingað til tekið allt á kassann þegar eitthvað bjátar á. Eftir að hafa fengið ADHD greiningu, fengið aðstoð frá Virk til þess að komast aftur í jafnvægi eftir að hafa farið í gegnum kulnun áttaði hún sig á því að hún væri komin á breytingaskeiðið. Hún skrifaði pistil inn á bloggsíðu sína sem Smartland fékk leyfi til að birta:
Kristborg Bóel Steindórsdóttir fjölmiðlakona er 46 ára fjögurra barna móðir. Hún er ein af þessum Íslensku konum sem hafa hingað til tekið allt á kassann þegar eitthvað bjátar á. Eftir að hafa fengið ADHD greiningu, fengið aðstoð frá Virk til þess að komast aftur í jafnvægi eftir að hafa farið í gegnum kulnun áttaði hún sig á því að hún væri komin á breytingaskeiðið. Hún skrifaði pistil inn á bloggsíðu sína sem Smartland fékk leyfi til að birta:
Kristborg Bóel Steindórsdóttir fjölmiðlakona er 46 ára fjögurra barna móðir. Hún er ein af þessum Íslensku konum sem hafa hingað til tekið allt á kassann þegar eitthvað bjátar á. Eftir að hafa fengið ADHD greiningu, fengið aðstoð frá Virk til þess að komast aftur í jafnvægi eftir að hafa farið í gegnum kulnun áttaði hún sig á því að hún væri komin á breytingaskeiðið. Hún skrifaði pistil inn á bloggsíðu sína sem Smartland fékk leyfi til að birta:
Síðustu ár hafa reynst mér þung eins og svo mörgum, burtséð frá heimsfaraldri. Haustið 2017 hrundi mitt líkamlega musteri, lét undan andlegum byrðum sem ég hafði borið alla tíð. Fjögur börn, sambandsslit, fjárhagslegt ströggl og allt álagið sem því fylgir að reka heimili á eigin spýtur. Búmm! Og einn daginn lá ég í valnum. Hlustaði ekki fyrr en líkaminn gaf frá sér hættumerki. Magabólgur, kílóamissir, hárlos, frunsur, munnangur, hraður hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, svefnleysi, doði í andliti og ofsa-kvíðaköst.
Hið almenna viðkvæði er að við eigum að vera dugleg. Svona, svona, þú sem hefur nú alltaf staðið þig svo vel. Þú ert svo sterk, þú rúllar þessu upp! Já, ég sem alltaf hafði sett undir mig hausinn og haldið áfram. Verið svo rosalega dugleg. Það felst svo mikil dyggð í dugnaði, er það ekki? Djöflast í þessu, brotin á báðum, komist ég í gegnum ótrúlegustu hluti. Þarna var þó komið að skuldadögum, ég magalenti. Leitaði á náðir VIRK, bæði haustið 2017 og svo aftur 2019. Fékk ADHD greiningu haustið 2020, skyldi nú engan undra! Ræddi síðar áhyggjur mínar við geðlækninn sem greindi mig. Sagðist bara ekki skilja hvað væri málið með mig. Hvað ég væri tæp. Það mætti bara svo lítið út af bregða til þess að líkamlegu streituviðbrögðin blossuðu upp. Allir aðrir virtust vera að standa sig. Mér þætti ég hins vegar byrði á samfélaginu og einskyns nýtur þegn. Vonlaus móðir, vinkona og starfskraftur. Á meðan ég hélt ræðuna runnu tárin niður kinnarnar.
Hún sat á móti mér og sagði orðrétt; „Bóel mín. Nú langar mig að stoppa þig. Kona með þína fortíð, sem hefur þurft að vera í fight or flight-mode frá fæðingu, með taugakerfið þanið í botni frá fyrsta degi, er bara mun verr í stakk búin að takast á við það þegar líkaminn loks gefur sig vegna langvarandi álags. Við getum ekki líkt því saman og þegar einstaklingur sem hefur hlotið þokkalegt veganesti út í lífið lendir í sömu stöðu. Í sannleika sagt þykir mér bara mesta furða að þú sért yfir höfuð uppistandandi, já liggir ekki bara í ræsinu. Mig langar að biðja þig að sýna þér skilning og mildi. Þetta mun taka tíma, langan tíma.“
Vel launuð vinna óskast!
Við útskrift frá VIRK í vor vissi ég að ástand mitt væri langt frá því að vera í lagi, heldur virkilega brothætt. Upplifun mín er sú að grunn-orkustöðin mín sé löskuð og efast ég um að hún verði söm. Eða, ég veit að hún verður það ekki. Ég vissi að þegar ég myndi stíga út, án þess að hafa fasta vinnu, aðeins lamandi peningaáhyggjur, myndi ég fljótlega fara í sama farið aftur. En, hvað átti ég að gera? Það er engin önnur leið en að halda áfram, hvort sem það reynist gerlegt eða ekki. Show must go on!
Vinnumarkaðurinn er virkilega erfiður og hef ég enga tölu á þeim störfum sem ég hef sótt um síðustu mánuði. Ég hef verið í sjálfstæðum verkefnum og íhlaupavinnu á hjúkrunarheimili sem ekki kemst nálægt því að framfleyta mér og mínum. Ég er hins vegar of tekjuhá til þess að fá fjárhagslega aðstoð. Kaupmátturinn hefur einnig rýrnað svo um munar síðustu mánuði, allt hefur hækkað en launin virðast standa í stað. Fyrir jól var mér boðin vinna á sömu launum og ég var með haustið 2019 fyrir sambærilegt starf. Eftir útreikninga taldist mér til ég myndi skulda um 70 þúsund krónur þegar ég væri búin að greiða mína föstu reikninga og kaupa í matinn fyrir mánuðinn, burt séð frá öllum öðrum tilfallandi kostnaði sem væri þá ekki fjármagn fyrir. Þetta var jafna sem ekki gekk upp.
Það sorglegasta er að ég veit að stór hópur er í sambærilegri stöðu hérlendis, að eiga ekki í sig og á, sem lifir við og undir fátækramörkum. Ég veit svo sem ekki hvernig þau eru skilgreind, en það er svo langur vegur frá því að ég nái endum saman, bara í matarinnkaupum fyrir mánuðinn. Það er ekkert mál að búa við slíkar aðstæður tímabundið, en í langan tíma er það eitthvað sem getur lagt sterkustu naut. Mín heitasta ósk er að fá vinnu sem veitir mér gleði og fjölskyldu minni fjárhagslegt öryggi.
Ég held ég sé komin á breytingaskeiðið!
Síðustu vikur hef ég þó horfst í augu við nýja heimsmynd. Í rólegheitum og alveg hissa hef ég áttað mig á því að það sé ekki aðeins langvarndi streita og lamandi afkomukvíði sem er að leggja mig, heldur hefur breytingaskeiðið, alveg óboðið, hafið innreið sína! Á dauða mínum átti ég von!
Í sumar trúði ég góðri vinkonu fyrir mikilli andlegri vanlíðan, depurð, tilgangsleysishugsunum og miklum kvíða. Þegar hún spurði mig í þriðja skipti hvort ég væri búin að lesa greinina sem hún sendi mér, gerði ég það. Um var að ræða grein, ritaða af Halldóru Skúladóttur, sem heldur úti Instagram-síðunni Kvennaráð. Er hún um breytingaskeiðið á mannamáli, eins og boðberinn vinkona mín sagði, en hana má lesa hér.
Mér, eins og líklega mörgum konum á mínum aldri, datt bara ekki í hug að ég væri að nálgast þetta skeið. Í fyrsta lagi hafði ég bara ekki hugmyndaflug í að átta mig á því að ég væri orðin svona gömul og í öðru lagi var ég þess handviss um að ég myndi skauta fram hjá því, þá líklega eina konan í heiminum hingað til og hér eftir.
Ég var og er heldur ekki farin að upplifa hin dæmigerðu líkamlegu einkenni á borð við svitakóf og liðverki og líklega þess vegna hvarflaði þetta ekki að mér. Við lesturinn áttaði ég mig hins vegar á því að ég tikkaði í flest boxin um andlega líðan, á borð við depurð, tilgangsleysi, grátköst, vonleysi, skilningsleysi, hræðslu og mikinn kvíða. Ég hafði verið kvíðin lengi, en þessi líðan var ný til komin, þessi lamandi depurð og systur-setningarnar; ég nenni ekki og get ekki. Svo ólíkt mér, svo rosalega ólíkt mér, en nú skildi ég hvað klukkan sló.
Við lesturinn áttaði ég mig á tvennu. Ég var fullkomlega ó-fróð um breytingaskeiðið og uppfull fordóma í þokkabót! Titilinn segir allt sem segja þarf; Þarf að breyta að talað sé um „þreyttar, sveittar og pirraðar kellingar” á breytingaskeiðinu. Hvað er það fyrsta sem ykkur annars dettur í hug þegar þið hugsið um orðið breytingaskeið? Ekki reyna að ljúga, það er þetta og akkúrat þetta. Sveittar, geðvondar konur með vesen! Eins og Halldóra segir; „það liggur einhver skömm yfir þessu tímabili, konur eru bara að þjást í hljóði af ótta við að það sé gert grín að þeim og að þær séu dæmdar ónýtar og úr leik.“
Þegar konur eru að nálgast fimmtugsaldurinn fara eggjastokkarnir að framleiða minna og minna estrogen og progesteron, hormónunum sem stýra tíðahringnum. Þegar sú framleiðsla fer að verða óregluleg hefur það mikil áhrif á líðan, bæði andlega og líkamlega.
Undanfarin ár hefur umfjöllun um hormónainntöku kvenna á breytingaskeiði verið á þann veg að hún auki líkur á krabbameini, en nú þykir sannað að svo sé ekki og með hormónameðferð sé aðeins verið að bæta fyrir þann hormónaskort sem verður, bara svipað og þeir sem þurfa skjaldkirtilshormónameðferð við vanvirkum skjaldkirtli, eða insúlín vegna skorts á insúlínframleiðslu í brisinu. Hormónameðferð á breytingaskeiðinu er ekkert annað en uppbót fyrir lífsnauðsynlega hormóna sem eru ekki framleiddir lengur í líkamanum.
Það er alveg magnað hve lítið hefur verið talað um breytingaskeiðið til þessa. Konur eru helmingur mannkyns og allar förum við í gegnum þetta tímabil og því alveg merkilegt að umræðan hafi aldrei verið nein. Af hverju fáum við ekki tölvupóst eða bækling frá heilsugæslunni, nú eða jafnvel boð í viðtal, til fræðslu. Væri það ekki eðlilegt, svona í stað þess að vakna bara einn daginn og skilja ekkert af hverju okkur líður svona ömurlega?
Sem betur fer er þetta að breytast, konur eru farnar að tala opinskátt um sína líðan á þessu hulduskeiði. Það þarf þó að gera betur, fræða meira, ekki bara konurnar sjálfar, líka læknastéttina, en eins og Halldóra bendir á í grein sinni sýnir nýleg könnun í Bretlandi að í 60% tilfella þegar konur leituðu læknis vegna depurðar var þeim boðið upp á þunglyndislyf í stað hormónameðferðar, þrátt fyrir að leiðbeiningar heilbrigðiskerfisins segi annað. Fleira kemur þó til bjargar en hormónameðferð, heilbrigður lífstíll og fleira, en ég hvet ykkur til að kynna ykkur allt það efni sem Halldóra hefur tekið saman á síðu sinni.
Erfitt að greina hvað er hvað
Í kjölfar lestursins fór ég til kvensjúkdómalæknisins sem sendi mig í legnámið hér forðum daga og lýsti líðan minni fyrir henni, sem þótti ráð að setja mig á hormónagelið Estró-gel til reynslu.
Ég hef því borið á mig hormónagel daglega í tvo mánuði. Ég fann mun á mér en þótti hann þó geta verið meiri. Ég fékk leyfi til að auka skammtinn en á sama tíma kláraðist brúsinn og hefur gelið verið uppselt á landinu frá því í lok desember og verður ekki aftur fáanlegt fyrr undir lok janúar mánaðar!
Ég veit því ekki hvort gelskorturinn er að valda þessari biluðu vanlíðan, eða hvort að kokkteillinn skammdegi, heimsfaraldur og fátækt, spili einnig stóra rullu. Það eina sem ég veit er að ég sé enga leið færa, ráfa bara um í svarta þoku. Ég orka ekki neitt, langar ekki neitt og skil ekki neitt. Ég get ekki komið henni betur í orð en vinkona mín í sambærilegri stöðu sagði við mig um daginn; mig langar ekki að deyja en mig langar heldur ekkert sérstaklega til að lifa. Nákvæmlega á þann veg gæt ég helst skilgreint mína líðan best.
Við aðra vinkona mína, sem hefur miklar áhyggjur af mér þessa dagana, sagði ég í dag; Iss, ekki hafa áhyggjur af mér, ég myndi aldrei hafa orku eða framtakssemi í að gera mér nokkuð skaðlegt. Frekar kómískt, en nákvæmlega staðan. Ég veit að þetta er tímabundið ástand og það er lífæð mín. Ég þrái að verða ég aftur, Duracell-kanínan sem ég nú er, ekki draugurinn af sjálfri mér.
Hvað sem það er finnst mér rétt að deila líðan minni með öðrum konum þarna úti, en eins og Halldóra sagði í sinni grein; „Fordómar og skilningsleysi verður ekki upprætt nema með fræðslu og umfjöllun og þar komum við konurnar sjálfar inn. Við þurfum að vera óhræddar við að krefjast svara og viðeigandi meðferðar, vera óhræddar að tala um þetta við fólkið okkar, láta vita að okkur líður illa og biðja um skilning og umburðarlyndi.“
Þetta og nákvæmlega þetta. Sameinaðar stöndum vér, sundraðar föllum vér – en fátt á betur við á Íslandi í dag. Með því að segja mína sögu verður það kannski til þess að fleiri gera slíkt hið sama, eða í það minnsta skoða sín mál og leita lausna við hæfi.
Þess utan á ég dóttur og vil leggja mitt af mörkum til að ryðja brautina fyrir hana í átt að opnari og jákvæðari umræðu og almennari þekkingu á breytingarskeiði kvenna.