Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar segir flokkinn hafa kallað eftir því allan faraldurinn að þingið ætti meiri aðkomu að mótun sóttvarnaaðgerða. Frumvarp flokksins um breytingu á sóttvarnalögum geti tryggt aukna sátt um aðgerðir.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar segir flokkinn hafa kallað eftir því allan faraldurinn að þingið ætti meiri aðkomu að mótun sóttvarnaaðgerða. Frumvarp flokksins um breytingu á sóttvarnalögum geti tryggt aukna sátt um aðgerðir.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar segir flokkinn hafa kallað eftir því allan faraldurinn að þingið ætti meiri aðkomu að mótun sóttvarnaaðgerða. Frumvarp flokksins um breytingu á sóttvarnalögum geti tryggt aukna sátt um aðgerðir.
Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, eins og mbl.is greindi frá í gær. Breytingin snýr að því að vald ráðherra til að grípa til sóttvarnaaðgerða verði temprað þannig að eftirfarandi samþykki Alþingis sé áskilið.
Um er að ræða viðbótarmálsgrein við 18. grein laganna. Með henni yrði gerð krafa um að þegar farsótt hefur varað lengur en í þrjá mánuði og ráðherra hefur sett reglugerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir, sé sú reglugerð sem og frekari ákvarðanir bornar undir þingið innan tveggja vikna í formi þingsályktunartillögu.
„Þegar faraldurinn er búinn að ganga svona lengi, og mannréttindi fólks eru undir, þá gengur ekki upp, að okkar mati, að lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafi enga aðkomu að ákvarðanatökunni,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is.
Fleiri þingmenn og þingflokkar hafa talað fyrir þessum breytingum, að sögn Sigmars.
Umræður um efnahagsráðstafanir vegna Covid-19 voru í gangi á þinginu á þeim tíma sem frumvarp Viðreisnar var unnið.
„Það kom okkur svolítið skemmtilega á óvart að þá talaði Bjarni Benediktsson einmitt um að svona fyrirkomulag þætti honum gott, að þingið kæmi að þessu með því að málið yrði lagt fram í formi þingsályktunartillögu.“
Sigmar segir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að sóttvarnaraðgerðir færu fyrir velferðarnefnd en það teldi Viðreisn ekki fullnægjandi.
„Núna eru þetta bara ráðherrar sem ræða þetta og með því að leggja málið fyrir velferðanefnd yrði það einungis til upplýsingar og umræðu.“
Kosturinn við þingsályktunartillöguna sé að þá hafi þingið raunverulega aðkomu að málinu.
„Þinginu er alveg jafn treystandi til þess að leggja mat á þetta og ráðherra, það eru náttúrulega pólitíkusar í ríkisstjórninni alveg eins og það eru bara pólitíkusar á þingi.“