Bollurnar sem munu brjóta internetið

Daglegt líf | 25. febrúar 2022

Bollurnar sem munu brjóta internetið

Bolludagurinn er handan við hornið og þá er kátt á hjalla í bakaríum landsins. GK Bakarí á Selfossi er þar engin undantekning og þegar blaðamann bar að garði voru þeir Guðmundur Helgi og Kjartan að leggja lokahönd á bollulistann.

Bollurnar sem munu brjóta internetið

Daglegt líf | 25. febrúar 2022

Það verður seint tekið af þeim félögum í GK bakaríi …
Það verður seint tekið af þeim félögum í GK bakaríi á Selfossi að þeir eru hressir.

Bolludagurinn er handan við hornið og þá er kátt á hjalla í bakaríum landsins. GK Bakarí á Selfossi er þar engin undantekning og þegar blaðamann bar að garði voru þeir Guðmundur Helgi og Kjartan að leggja lokahönd á bollulistann.

Bolludagurinn er handan við hornið og þá er kátt á hjalla í bakaríum landsins. GK Bakarí á Selfossi er þar engin undantekning og þegar blaðamann bar að garði voru þeir Guðmundur Helgi og Kjartan að leggja lokahönd á bollulistann.

„Við erum allt annað en fastir í forminu,” segir Kjartan Ásbjörnsson, annar eigandi GK, og glottir við tönn.  „Við tókum listann frá því í fyrra, krumpuðum hann í bolta og tróðum í tunnuna. Einu bollurnar sem halda velli eru sú klassíska og Feitabollan.” 

„Það er nauðsynlegt að hrista upp í úrvalinu,” skýtur Guðmundur Helgi, hinn helmingur samsteypunnar, að.  „Við nýtum öll tækifæri til að prufa okkur áfram, hvort sem um er að ræða framandi hráefni eða að reyna að setja gömul minni í nýja búninga.”

„Einnig leggjum við mikinn metnað í að nota hráefni úr okkar nærumhverfi. Við erum búnir að sulta einhver 50 kíló af rabarbara sem fólk af stór-800 svæðinu færði okkur síðasta sumar, og notum íslenskt smjör, íslensk egg og íslenskan rjóma,” segir Kjartan, en í búðinni hjá þeim má finna fjölbreytt úrval af kjötáleggi, pestó, sterkum sósum, konfekti og árstíðarbundnum vörum af stór-800 svæðinu, eins og þeir segja sjálfir.

„Flaggskipið er án efa Feitabollan: þeyttur vanillu ganache, vanillu custard og væn sneið af núggati vafið inn í nýbakað croissant úr sérvöldu, ítölsku, hveiti og íslensku smjöri. Hún sló rækilega í gegn í fyrra og fólk var að herja á okkur langt fram á haust að setja hana í sölu. En jólin eru bara einu sinni á ári - maður er ekkert að opna pakkana langt fram í apríl, svo við ætlum að trylla lýðinn árlega og komum með hana í borðið í fyrramálið.” segir Guðmundur og á þar við laugardaginn 26. febrúar.

En var ekki hægt að finna betra nafn en „Feitabollan”?

„Þetta er bolla, sem er drekkhlaðin af smjöri og rjóma. Svo það lá beinast við..” segir Kjartan ábúðarfullur á svipinn.

Strákarnir í GK eru duglegir að stilla saman strengjum með öðrum veitingamönnum á svæðinu. Fyrir síðasta bolludag gerðu þeir bjórbollu í samstarfi við Smiðjuna Brugghús á Vík, en þeir hafa einnig bruggað kanilsnúðabjór með Ölverk í Hveragerði og selja blómvendi frá Hverablómum á konudaginn.

„Við sækjum mikinn innblástur í fólkið í kringum okkur. Það opnar augu okkar fyrir öðrum hliðum matvælaiðnaðarins og þar sem við kjósum að feta ekki troðnar slóðir í okkar vöruþróun þá finnst okkur gaman að skora á sjálfa okkur að sækja hráefni sem alla jafna finnast ekki í bakaríum og gera eitthvað skemmtilegt með þau,” segir Guðmundur. „Hann elskar bara að drekka kaffi og kjafta,” skýtur Kjartan inn í og hlær.

„Mika í Reykholti gera frábært konfekt, svo okkur datt í hug að heyra í Mikka (Michal Jozefik, eiganda Mika) og sjá hvort hann væri ekki til í að gera eitthvað skemmtilegt.  Hans eftirlætis moli er fylltur með mangó og ástaraldin fyllingu og okkur datt í hug að reyna að endurgera hann í bolluformi,” heldur Guðmundur áfram.

„Búbblubollan er til heiðurs allra búbblu unenda landsins!” segir Kjartan kíminn.

„Síðustu ár höfum við verið með bjór-bollu og Irish coffee-bollu (í samstarfi við Eimverk) sem voru í þyngri kantinum, svo í ár fórum við í ferskari strauma. Piccini búbblurnar hafa léttan rósatón sem fer einstaklega vel með jarðaberjum og rjóma.”

Mjólkur- og eggjalausir þurfa ekki að örvænta því strákarnir eiga alltaf ás í erminni. 

„Við erum reglulega sáttir við vegan úrvalið hjá okkur í ár og við vonum að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Okkur finnast gerbollur vondar, svo við bjóðum upp á croissant-bollur með Oatly whip fyrir vegan gesti og gangandi. Við prufuðum klassíska rjóma&sultu-, karamellu- og Oreobollur síðustu helgar og þær mældust mjög vel fyrir.  Svo spilum við út trompinu á föstudaginn: Mögru Feitabollunni; croissant bollu með vanillu og heslihnetusmjöri,” segir Kjartan og bætir við að hún sé „sannkölluð tveggja klúta bolla.”

Strákarnir tóku forskot á sæluna helgarnar fyrir Bolludaginn, en lofa að tjalda öllu til dagana fyrir stórhátíðina. 

„Það er mikið hlegið og lítið sofið vikuna fyrir, en við skellum í lás á sprengidag og sofum það úr okkur. Svo verðum við mættir að taka við grímuklæddum söngfuglum eldsnemma á öskudag!”

Opið er í GK á laugardögum frá 08-16, sunnudögum frá 10-14 og virka daga (þ.m.t Bolludaginn 07-17)

mbl.is