Elsku Vogin mín,
Elsku Vogin mín,
það er eðli þitt að verða alltaf sterkari og sterkari eftir því sem þú eldist og ert búin að móta karakterinn þinn. Það sem þér fannst mjög erfitt fyrir stuttu, finnst þér ekkert mál í dag, svona þróast þú. Það kemur stundum yfir þig að þú sért að berjast ein og getir ekki leitað til annarra fyrir stuðning eða styrk. Sérstaklega þegar þú finnur það hjá þér eða færð þá tilfinningu að allt sé á móti þér, þá virðist það vera þín hreina ranghugmynd. Þú ert nefnilega þvílíkur listamaður í því að búa til heilu ævintýrin um það hvernig aðrir sjá þig.
Það góða í þessu öllu er hvað þú hefur góða aðlögunarhæfni alveg sama í hvaða aðstæður þú ert sett í eða hvaða hlutverk lífið mun færa þér. Þá kemur það alltaf út þannig að þú reddar málunum. Þú elskar spennu og getur verið ansi góð í að framkalla hana sjálf og það er í raun aldrei nein lognmolla í kringum þig.
Þetta tímabil sem þú ert að fara inn í núna snýr að innri uppbyggingu. Þú byggir þig upp og hreinsar þig af öllum stíflum sem eru eða hafa stoppað þig. Þú finnur út að fara aðrar leiðir en þú ert vön að fara til þess að tengja þig við þá vellíðan sem þú ert að leita eftir. Þegar líða tekur á þennan mánuð finnst þér eins og þú sért búin að fara í gegnum hreinsunareld og hafir endurfæðst.
Þú tengir þig við afl Jarðarinnar og gerir einfalda hluti, þar býr hamingjan. Þú gefur þér líka tíma fyrir þig og leyfir þér að vera ein með sjálfri þér í friði og ró. Þú finnur að þú verður miklu ferskari og vaknar hressari og verður kátari en þú hefur verið í langan tíma.
Knús og kossar,
Sigga Kling