Lilja Guðmundsdóttir, söngkona og forstöðumaður, byrjaði að reyna eignast barn með manninum sínum, Bjarna Thor Kristinssyni, árið 2016. Lilja greindist með endómetríósu um svipað leyti og þau byrjuðu að reyna eignast fjölskyldu og kom fljótlega í ljós að það ætti eftir að reynast parinu erfitt að eignast barn. Þau hafa nú þegar farið í sex uppsetningar og Lilja farið í nokkrar aðgerðir en þau eru ekki búin að gefa upp vonina.
Lilja Guðmundsdóttir, söngkona og forstöðumaður, byrjaði að reyna eignast barn með manninum sínum, Bjarna Thor Kristinssyni, árið 2016. Lilja greindist með endómetríósu um svipað leyti og þau byrjuðu að reyna eignast fjölskyldu og kom fljótlega í ljós að það ætti eftir að reynast parinu erfitt að eignast barn. Þau hafa nú þegar farið í sex uppsetningar og Lilja farið í nokkrar aðgerðir en þau eru ekki búin að gefa upp vonina.
Lilja Guðmundsdóttir, söngkona og forstöðumaður, byrjaði að reyna eignast barn með manninum sínum, Bjarna Thor Kristinssyni, árið 2016. Lilja greindist með endómetríósu um svipað leyti og þau byrjuðu að reyna eignast fjölskyldu og kom fljótlega í ljós að það ætti eftir að reynast parinu erfitt að eignast barn. Þau hafa nú þegar farið í sex uppsetningar og Lilja farið í nokkrar aðgerðir en þau eru ekki búin að gefa upp vonina.
„Þegar ég var 31 árs ákváðum við að okkur langaði að eignast barn. Þá fer ég og reyni að fá tíma hjá sérfræðingi í endómetríósu en ég hafði aldrei verið greind,“ segir Lilja sem byrjaði að fá slæma verki á blæðingum upp úr tvítugu. Ragnheiður Oddný Árnadóttir kvensjúkdómalæknir staðfesti greininguna í kviðarholsspeglun. Lilja þurfti að bíða í marga mánuði eftir aðgerðinni en í henni kom í ljós slæm endómetríósa og að vinstri eggjaleiðarinn var ónýtur. Ragnheiður mælti með því að Lilja og maðurinn hennar reyndu aðeins í þrjá mánuði og færu svo í glasafrjóvgun. „Hún vildi ekki að við værum að reyna í heilt ár eins og aðrir gera.“
Eftir viðtal hjá Livio ákváðu Lilja og Bjarni að fara til Tékklands þar sem þau fóru í tvær glasameðferðir. Biðin og þjónustan var ástæða þess að þau leituðu erlendis en samkvæmt Lilju rannsaka stofur erlendis vandann oft nákvæmar. Hún heyrði í gegnum Tilveru – Samtök um ófrjósemi að margar konur með endómetríósu væru að leita erlendis.
„Maðurinn minn starfar sem óperusöngvari erlendis þannig að hann er mikið úti. Við gátum alveg eins hist einhversstaðar í Evrópu. Við fórum í tvær heilar meðferðir í Prag og ákváðum svo að skipta um stofu þegar það gekk ekki og fórum til Grikklands. Þá höfðum við heyrt mjög mikið af góðum sögum þaðan, þau taka tillit til endómetríósunnar, bæði með lyfjagjöf og rannsóknum og skoða legið sérstaklega vel. Ég fór í legspeglun en í henni komu í ljós samgróningar í leginu, sepi og sýking. Samkvæmt þeim hefði fóstur aldrei getað vaxið í leginu eins og það var,“ segir Lilja.
Þau eru núna búin að fara í fjórar uppsetningar í Grikklandi eða samtals sex uppsetningar. „Við fáum mjög góða fósturvísa en þeir festast aldrei, ég hef aldrei orðið ófrísk. Ég fór í aðra endómetríósuaðgerð 2019 en læknarnir í Grikklandi ráðlögðu það eftir fjórar misheppnaðar uppsetningar en þá var hinn eggjaleiðarinn tekinn,“ segir Lilja. Báðir eggjaleiðararnir hafa því verið fjarlægðir sem þýðir að það er enginn möguleiki á náttúrulegri þungun. Lilja verður að fara í glasameðferð.
Endómetríósan hefur versnað töluvert síðan Lilja fór í fyrstu aðgerðina 2017 sem gerir henni erfiðara fyrir að eignast barn. Hún er að bíða eftir aðgerð á Landspítalanum með meltingarskurðlækni og endómetríósuskurðlækni. „Endómetríósan er farin að vaxa inn í ristilvegginn hjá mér, mögulega þarf að taka hluta af ristlinum og þegar ég hef jafnað mig stefnum við á uppsetningu á frystum fósturvísum”, segir Lilja um það sem er næst á dagskrá.
„Ég hugsa oft til baka þegar ég fékk stóra blóðfyllta blöðru á eggjastokk þegar ég var 25 ára. Ég var erlendis og var mjög kvalin og svo kem ég heim og bóka tíma hjá mínum kvensjúkdómalækni. Hann sagði bara: „Vá þetta hefur verið vont. Hún hefur sprungið inn í kviðarholið en það er gott að hún er farin af því þá þurfum við ekki að gera aðgerð.“ Hann sagði alltaf „þín saga hljómar eins og þú sért með endómetríósu” en talaði aldrei um að gera neitt í því. Það var alltaf bara verið að finna betri verkjalyf fyrir mig,“ segir Lilja.
„Ef ég hefði greinst 25 ára og hefði farið í aðgerð þá hefði frjósemi mín ekki verið jafn takmörkuð og hún var orðin þegar ég var 31 árs. Auðvitað hefði ég viljað vita fyrr að þetta væri verulegt vandamál. Þá hefði ég örugglega reynt að eignast börn fyrr,“ segir Lilja þegar hún er spurð hvort hún hugsi um hvort hún hefði viljað vita fyrr af vandamálinu.
„Ég get ekki sagt að ég sé reið út í heilbrigðiskerfið. Maður er svolítið svekktur að það sé ekki hlustað á konur sem eru verkjaðar. Af því það er svo mikilvægt að greina endómetríósu fyrr, ekki bara út frá frjósemi heldur líka út af allri líðan og að vita að maður sé með sjúkdóm. Ég hefði alveg viljað fá að vita fyrr að staðan væri svona erfið hjá mér.“
Lilja segir sérfræðingana í Grikklandi hafi verið mjög bjartsýna lengi vel vegna þess hversu góða fósturvísa þau fá. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir eru þeir ekki alveg eins bjartsýnir en Lilja og Bjarni hafa ekki misst vonina. Þau eiga fósturvísa í frysti í Grikklandi en ef ekki gengur að eignast barn með þeim er næsta skref að reyna gjafaegg. „Ég er að verða 37 á þessu ári og egggæðin mín eru orðin léleg sem er afleiðing af endómetríósunni.“
Erlendis heyrast sögur af staðgöngumæðrum en Lilja segist ekki láta sig dreyma um það þrátt fyrir erfiðleikana síðustu ár. „Ég gæti ekki hugsað mér að láta aðra manneskju ganga með barn fyrir mig. Þetta er svo rosalega erfitt og margt sem getur komið upp á. Vinkona mín bauðst til þess að vera staðgöngumóðir fyrir mig, sem er ótrúlegt. Ég þakkaði henni kærlega fyrir en fyrir mig kemur það ekki til greina.“
Hugsi þið um hvenær er komið nóg?
„Algjörlega. Núna erum við búin að vera í glasameðferðum í fimm ár. Þetta er rosalega erfitt ferli, andlega, líkamlega og fjárhagslega. Ekki síst vegna sjúkdómsins og aðgerðanna sem ég hef farið í. Einhverntímann verður maður að fara að snúa sér að einhverju öðru í lífinu. Maðurinn minn hefur trú á að þetta muni takast. Ég er svartsýnni en reyni að halda í vonina. Á meðan við erum að fá góða fósturvísa þá viljum við halda áfram að reyna. Ef einhver hefði sagt mér fyrir fimm árum að ég væri ennþá hérna að reyna veit ég ekki hvort ég hefði lagt í þetta ferðalag,“ segir Lilja.
„Í fjölmiðlum sjáum við kraftaverkasögur af fólki sem hefur gengið í gegnum ótrúleg ferli og tekist á endanum að eignast barn. Það er mjög jákvætt en við heyrum ekki sögur allra hinna sem lögðu allt undir án þess að það hafi borið árangur, glasafrjóvgun virkar alls ekki fyrir alla.“
Það er ekki ókeypis að glíma við ófrjósemi og á meðan peningarnir fara í meðferðir hefur annað þurft að liggja á hakanum. Lilja leggur áherslu á að ófrjósemi er skilgreindur sjúkdómur hjá Alþjóða heilbrigðistofnuninni.
„Við erum búin að eyða hátt í sex milljónum í þetta ferli. Við kaupum ekki íbúð á meðan, það er bara þannig. Það fer allur peningurinn í þetta. Mér finnst mjög skrítið að íslenska ríkið styðji ekki betur við fólk í glasameðferðum og niðurgreiðir ekki meðferðir erlendis,“ segir Lilja.
Hingað til hefur reynst erfiðlega að sækja um endurgreiðslu vegna frjósemismeðferða erlendis. Lilja segir hins vegar eitthvað vera að breytast. Hún sótti nýlega um niðurgreiðslu og vonar hið besta. „Af hverju má maður ekki velja hvar maður fer í meðferð?“ Spyr Lilja og segir ekki sanngjarnt að fólk geti ekki valið um hvaða meðferð fólk fari í ef það ætlar að fá niðurgreiðslu. Meðferðin sem er í boði á Íslandi hentar ekki öllum.
Lilja og Bjarni hafa alltaf talað opinskátt um erfiðleika sína síðan þau byrjuðu að reyna að eignast börn. „Ég sé ekki að það sé neitt betra að halda þessu sem leyndarmáli. Við þurfum á stuðningnum að halda hjá fólkinu í kringum okkur. Mér finnst ekki vera skömm að vera með ófrjósemi frekar en aðra sjúkdóma. Þessi umræða er svolítið tabú, ég skil það alveg en mig langar til þess að stuðla að því að þessi umræða verði opnari.”
Lilja stofnaði nýlega Instagram-síðuna Tilurð með Karen Ösp Friðriksdóttur vinkonu sinni sem glímir einnig við ófrjósemi. Á síðunni deila þær efni um ófrjósemi. „Aðstandendur og vinir geta lært mjög mikið af síðunni. Hvað er fallegt og hvað er tillitssamt að segja,“ segir Lilja. Hugmyndina fékk hún frá svipuðum erlendum síðum og segir hún síðurnar hafa hjálpað henni mikið.
Lilja segir algengt að fólk finni fyrir flóknum tilfinningum þegar til dæmis vinir og fjölskylda tilkynna óléttu. Hún segir gott að minna sig á að þessar tilfinningar séu eðlilegar og ekki þurfi að skammast sín fyrir þær eða líða illa yfir þeim. „Auðvitað samgleðst maður fólkinu í kringum sig en þetta minnir mann líka á að þetta er eitthvað sem maður getur ekki fengið sjálfur,“ segir Lilja.
Lilja hefur sjálf upplifað blendnar tilfinningar en hefur verið dugleg að tala um það. Hún hefur til dæmis beðið vinkonur og fjölskyldu að tilkynna sér þungun með því að skrifa skilaboð í stað þess að gera það í eigin persónu. Ráðið sá hún í fræðsluefni og kunni hún vel að meta það þegar yngri bróðir hennar notaði aðferðina þegar hann átti von á barni.
„Sumum finnst það vera ósanngjörn krafa en mér finnst það sýna tillitssemi. Við erum að reyna að vanda okkur í allskonar málefnum í samfélaginu í dag. Mér finnst að þetta sé eitthvað sem fólk eigi að vita af. Mér og mörgum í þessari stöðu finnst gott að geta tekið á móti svona skilaboðum án þess að þurfa að setja upp grímu, brosa og óska einhverjum til hamingju á sama tíma og manni líður mjög illa. Það getur verið mjög erfitt fyrir suma að fara í babyshower, skírn eða í fjölskylduboð sem breytist í kynjaveislu. Það getur verið mjög gott að vita af því fyrir fram,“ segir Lilja.
Annað gott dæmi segir Lilja vera hvernig fólk kvartar yfir börnunum sínum við barnlaust fólk. Hún fær stundum að heyra hvað hún sé heppin að geta sofið út og hafi tíma fyrir sjálfa sig. „Barnið mitt er svo erfitt, viltu ekki bara eiga hann,“ er til dæmis setning sem sumir fá að heyra.
„Þetta hittir mann svolítið óþægilega. Ég myndi vilja hugsa um einhvern annan. Ég myndi vilja vakna á laugardegi og hugsa um hvað ætla ég að gera með barninu mínu í dag í stað þess að hugsa hvernig ætla ég að fylla upp í daginn minn. Ég hef sjálf ekki fengið mikið af spurningum um hvort að ekki eigi að koma með eitt. Líklega af því að við höfum verið svo opin með sjúkdóminn minn og ófrjósemina.“
Lilja hvetur alla til þess að fylgja Tilurð á Instagram. „Markmiðið er að skapa vettvang til þess að ræða ófrjósemi, fræða fólk um hvað þetta er, hvaða þýðingu þetta hefur fyrir einstaklinga og vera stuðningur fyrir alla þá sem eru að reyna eða ekki að reyna, sama á hvaða stað fólk er,“ segir Lilja. Hún segir þörfina fyrir miðilinn mikinn enda ófrjósemi algeng. „Eitt af hverjum sex pörum glíma við ófrjósemi en líka einstaklingar og hinsegin pör og allskonar pör á öllum aldri.“