Tilbúin að leggja erfiðleika á sig fyrir drauminn

Sjálfstæðar mæður | 20. mars 2022

Tilbúin að leggja erfiðleika á sig fyrir drauminn

Steinunn S. Þorsteins Ólafardóttir á von á sínu fyrsta barni um miðjan júlí. Það gekk ekki upp að eignast barn í sambandi og ákvað hún því að eignast barn ein enda meira en tilbúin til þess. Ferðalagið reyndi á en erfiðleikarnir voru þessi virði. 

Tilbúin að leggja erfiðleika á sig fyrir drauminn

Sjálfstæðar mæður | 20. mars 2022

Steinunn S. Þorsteins Ólafardóttir á von á barni.
Steinunn S. Þorsteins Ólafardóttir á von á barni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Steinunn S. Þorsteins Ólafardóttir á von á sínu fyrsta barni um miðjan júlí. Það gekk ekki upp að eignast barn í sambandi og ákvað hún því að eignast barn ein enda meira en tilbúin til þess. Ferðalagið reyndi á en erfiðleikarnir voru þessi virði. 

Steinunn S. Þorsteins Ólafardóttir á von á sínu fyrsta barni um miðjan júlí. Það gekk ekki upp að eignast barn í sambandi og ákvað hún því að eignast barn ein enda meira en tilbúin til þess. Ferðalagið reyndi á en erfiðleikarnir voru þessi virði. 

„Ég fann fyrir því í kringum 28 ára aldurinn að ég var tilbúin til að eignast börn og fann hvað mig langaði mikið til þess. Ég var þá að klára menntunina mína sem sjúkraþjálfari og leið vel með að fara að huga að þessu. Það gekk ekki í þáverandi sambandi og um tveimur árum eftir að því lauk var ég farin að hugsa um þann möguleika að fara í þetta ferli ein,“ segir Steinunn.

Hún var að bíða eftir tíma hjá Livio þegar hún byrjaði í öðru sambandi og ákvað þar með að salta aðeins barneignirnar og sjá hvert sambandið myndi leiða hana. „Ég var mjög opin með það frá upphafi hvar ég væri stödd enda skiptir miklu máli að báðir aðilar eru á sama stað hvað varðar barneignir. Þegar það samband gekk síðan ekki upp ákvað ég að hefja ferlið fyrir alvöru og láta það ekki stoppa mig þó svo að ég myndi kynnast annarri manneskju.“

Tekur á andlegu hliðina að eignast barn

Steinunn fór í fyrsta viðtalið hjá Livio í byrjun árs 2020, nú tveimur árum seinna er von á frumburðinum en meðferðirnar reyndu töluvert á. Hún byrjaði á því að fara í tæknisæðingu en bað síðan um að fara í glasafrjóvgun.

„Það var í raun í fyrstu meðferðinni að ég fann hvað þetta var mikill tilfinningalegur rússíbani og tók mikið á andlegu hliðina, allar vonirnar og væntingarnar sem síðan urðu að engu með neikvæðu óléttuprófi á prófdegi. Ég fann strax að ég varð einhverskonar tilfinningahrúga og kvíðinn minn fór upp úr öllu valdi. Það var í raun þess vegna sem ég bað um að fá að fara í glasafrjóvgun, mér leið eins og líkurnar á að þetta myndi takast yrðu meiri og tölfræðilega er það þannig. Hins vegar hafði ég ekki tekið með í reikninginn það sem getur komið upp á í glasafrjóvgunarmeðferðinni og hvaða áhrif það getur haft á andlega heilsu,“ segir Steinunn. 

„Ég fór í gegnum eggheimtu og fékk oförvun, sem þýðir að mörg eggbú stækkuðu hjá mér. Ég gekk í gegnum ofsalega erfiða reynslu af eggheimtunni sjálfri og vegna oförvunar var ákveðið að fara ekki í uppsetningu í kjölfarið, heldur bíða í einn til tvo tíðahringi. Úr þessari fyrstu eggheimtu náðust 20 egg en eftir frjóvgun voru þrír fósturvísar metnir af nægilega góðum gæðum til að fara í frysti. Fyrsta uppsetning tókst ekki en önnur uppsetning tókst. Jákvætt óléttupróf. Ég var ólétt. Þvílík gleði og hamingja, ég var eiginlega bara að springa af gleði,“ segir Steinunn. 

Steinunn fann fyrir miklum óléttueinkennum en fannst þau alveg þess virði, hún var ólétt. Stuttu seinna breyttist gleðin í sorg. „Í snemmsónar á sjöundu viku kom í ljós að það var ekki hjartsláttur og það sem meira var þá voru fóstrin tvö. Það var ofsalega mikið áfall. Allar væntingarnar og vonirnar sem höfðu fyllt mig þessar fyrstu vikur og hjálpað mér að komast í gegnum þessa svakalegu ógleði, voru í þúsund molum. Framtíðarsýnin og sumarplönin urðu að engu, ég var ekki að fara að eignast barn út frá þessari þungun. Ég vissi af tölfræðinni, það væru 20-25% líkur á fósturmissi á fyrstu þremur mánuðum, en ég hafði aldrei leitt hugann að því að ég myndi lenda í því. Það var svo fjarlægt og fjarstæðukennt að ég hafði ekki hugsað út það. Ég átti mjög erfiða mánuði þar á eftir, með uppsetningu á þriðja og síðasta fósturvísinum sem tókst ekki og ljóst var að ég væri á leiðinni í aðra hormónameðferð og eggheimtu í kjölfarið,“ segir Steinunn. 

„Á meðan ég þurfti að bíða eftir að komast að í aðra glasafrjóvgunarmeðferð ákvað ég að láta annan draum rætast, að fá mér hvolp. Ég var búin að hugsa um það lengi, ætlaði alltaf fyrst að eignast barn og svo hund, en fann að ég hefði gott af því að dreifa huganum. Það var líka besta ákvörðunin sem ég tók á þessum tímapunkti, hún Esja mín hefur svo sannarlega hjálpað til við að dreifa huganum og fært mér svo ofsalega mikla gleði. Hún er svolítið eins og ég, með lítið hjarta en stútfullt af tilfinningum. Hún kom til mín síðasta sumar og er núna níu mánaða orkubolti, rúmlega 30 kílóa hvolpur.“

Gat andað léttar í 12 vikna sónarnum

Steinunn fór í aðra hormónameðferð og eggheimtu síðasta haust. Vegna fyrri reynslu var meðferðinni breytt og fékk hún betri verkjastillingu í aðgerðinni. „Það var eiginlega bara ótrúlegt hvað það var mikill munur, þetta var algjörlega sitthvor upplifunin. Ég fékk að fara í uppsetningu strax í kjölfarið en fékk einnig þær fréttir að engir fósturvísar hefðu náð í frystinn. Þegar ég fékk jákvætt óléttupróf ætlaði ég bara ekki að trúa því. Ég var svo glöð en þorði ekki að fagna mjög mikið þar sem það valt mjög mikið á þessum eina fósturvísi. Fljótlega fór kvíðinn að magnast upp og verða verri eftir því sem ég nálgaðist snemmsónarinn. Þrátt fyrir öll mín bjargráð tókst mér ekki að halda jafnvægi og ég var á tímabili gjörsamlega lömuð af kvíða. Þegar ég fékk góðar fréttir í snemmsónarnum leið mér strax mikið betur og sérstaklega eftir að ég fór í 12 vikna sónarinn. Þá fyrst gat ég einhvern veginn andað léttar, einbeitt mér að því að ná tökum á kvíðanum og leyft mér að fara að hlakka til.“

Steinunn er spennt fyrir komandi tímum
Steinunn er spennt fyrir komandi tímum mbl.is/Arnþór Birkisson

Steinunni hefur liðið vel líkamlega á þessari meðgöngu og ekki fundið fyrir þeirri hryllilegu dómsdagsógleði eins og þegar hún varð þunguð í fyrsta skipti. Hún hefur hins vegar þurft að hafa meira fyrir andlegu hliðinni. „Eins og áður sagði þá var ég ofsalega kvíðin á fyrstu þremur mánuðunum og það var meira vandamál en öll líkamlegu einkenni sem ég hef fundið fyrir. Ég tók ákvörðun fljótlega í janúar að nú þyrfti ég að einbeita mér að því að líða vel og leyfa mér að njóta meðgöngunnar. Það hefur ekki komið að sjálfu sér en sem betur fer á ég mörg bjargráð í pokahorninu sem hafa hjálpað mér. Ég ætla að halda því áfram eins og ég get, setja mig í fyrsta sæti og huga að minni heilsu til að geta hugsað um aðra manneskju.“

Steinunn segist vera umkringd ofsalega góðu fólki sem hefur staðið þétt við bakið á henni. Hún hefur verið opin með áætlanir sínar frá upphafi og spurði systur sína fyrir löngu hvort að hún væri til í að vera með henni í fæðingunni. „Ég hef helst verið að hugsa um hvernig Esja muni taka í það að vera ekki lengur ofdekraður einkahundur en vona að það muni ganga vel. Ég veit að það verður ekki vandamál að koma henni fyrir í pössun í kringum fæðinguna, þar er ég svo lánsöm að eiga vini og fjölskyldu sem bókstaflega slást um að fá að passa hana. Eins er ég fullviss um að þetta barn muni eiga mjög mikið af frænkum og frændum sem munu hjálpa mér að elska þetta barn út af lífinu.“

Að vera foreldri er félagslegt hlutverk

„Það er mjög skrítið að velja sæðisgjafa, eða það fannst mér í fyrsta skiptið,“ segir Steinunn spurð út í ferlið. Hún lagðist yfir skýrslur og upplýsingar, las heilsufars- og fjölskyldusögu og fór yfir persónuleikapróf svo eitthvað sé nefnt. „Ég fékk síðan tvær vinkonur í heimsókn í hvítvínsglas og gekk frá pöntuninni. „Add to cart – proceed to checkout“. Skrítnasta netverslun sem ég hef verslað á. Ég þurfti að skipta einu sinni um gjafa á þessum tíma þar sem fyrsti gjafinn var uppseldur. Það var miklu minna mál fyrir mig en í fyrra skiptið, ég bara skannaði nokkra sem mér leist vel á, valdi og gekk frá pöntuninni.“

„Þetta er í rauninni bara kynfrumur sem ég er að kaupa þar sem ég framleiði bara helminginn af nauðsynlegu erfðaefni til að búa til manneskju. Að vera foreldri er félagslegt hlutverk, það fást engin réttindi með erfðaefninu. Það getur vel verið að þetta barn muni eignast annað foreldri í framtíðinni en það er bara tíminn sem mun leiða það í ljós,“ segir Steinunn. 

Fullkominn tími

„Ég er alveg opin fyrir því að finna ástina, hef farið á nokkur stefnumót síðustu tvö árin en ekkert sem hefur gengið. Það hefur líka spilað inn í eitt stykki heimsfaraldur og það verður að segjast eins og er að hann hefur ekki haft mjög jákvæð áhrif á makaleit. Síðasta árið hefur það reyndar ekki breytt miklu því ég hef notað alla mína orku og athygli í þetta ferli með lítið afgangs fyrir annað.“

Spennandi tímar eru framundan hjá Steinunni. „Ég hlakka til að deila lífinu mínu með annarri manneskju og fá að sjá þá manneskju vaxa úr grasi og verða sín eigin. Ég veit að það munu koma fullt af áskorunum og ég veit ekki hvernig barn ég fæ í hendurnar þegar að því kemur. En ég er tilbúin að takast á við það og gera mitt besta miðað við aðstæður. Síðan er ég líka mjög spennt að fá að klæða þetta litla kríli í barnafötin sem ég hef verið að prjóna og vefja það í barnateppið sem ég var að klára.“

Það hefði verið kostur að byrja fyrr að reyna eignast barn en Steinunn vill ekki hugsa of mikið um ef og hefði og segir aðra kosti felast í því að eignast barn núna. „Ég kýs að líta á þetta sem fullkominn tíma fyrir mig,“ segir Steinunn. 

Hún segir ferlið að eignast barn vera allskonar. „Hjá sumum gengur þetta hratt og vel og hjá öðrum tekur þetta tíma og erfiðleika. Það er alltaf hollt að staldra við og endurmeta ákvarðanir, það má alltaf taka aðrar ákvarðanir seinna. Þetta ferli hefur tekið mikið á hjá mér og verið með því erfiðara sem ég hef gengið í gegnum. Það hefur hjálpað mér að finna fyrir þessari tilfinningu að ég væri tilbúin að leggja erfiðleikana á mig til að láta þennan draum rætast. Auðvitað hvet ég þau sem eru tilbúin að leggja af stað í þetta ferðalag en á sama tíma hef ég fullan skilning á því að það eru ekki öll tilbúin að leggja þetta á sig,“ segir hún. 

mbl.is