Elsku Vogin mín,
Elsku Vogin mín,
eins og þú veist best sjálf er lausn á öllu. Þú hefur velt svo mikið fyrir þér hvar lausnin á því sem þú þarft að leysa sé. Þér eru boðaðir fleiri en einn möguleiki, en þú átt það svo mikið til að einblína á aðeins einn veg til réttra hluta. Og þá gerist það að þú frýst í huganum sem er „brain freeze“ á ensku og þá missirðu máttinn til að leysa gátuna. En þegar það opnast fyrir þér að þinn er mátturinn og dýrðin, þú slakar á og setur aðra hluti í hugann á þér, áttarðu þig á því að útkoman sem þig vantar er til staðar. Það er mikið keppnisfólk sem býr í þessu merki og tekur því oft þá ákvörðun að keppa við sjálft sig. Þú skammar og brýtur niður vissan part af sjálfri þér, vegna þess að þér finnst þú ekki eiga þetta eða hitt skilið og þar af leiðandi mokarðu þig á kaf. En núna hendir þú skóflunni og hættir að fikta í stýrikerfinu, og viti menn - allt breytist.
Það eru vissir erfiðleikar í sólkerfinu okkar fram til fimmta apríl. Það er eins og Mars og Venus séu að berjast um yfirráðin og það tengir ást og stríð. Þetta er bæði tengt Alheimnum öllum og líka inn á heimilum og samböndum öllum. Þú þarft að skapa þol og einurð sem þýðir bara þolinmæði, sem ég myndi ekki segja þú hafir fengið mikið af í vöggugjöf. Þó skapar það þér þá sérstöðu að hafa takmarkaða þolinmæði vegna þess að þú kemur alltaf út sem sigurvegari. Þetta er vegna þess að þú vilt ekki bíða eftir útkomunni, þú vilt bara gera hana og framkalla hana sjálf.
Þú ert með hjartað á réttum stað, svo æfðu þig í að setja höndina þéttingsfast á hjarta þitt eða brjóskassa og gefðu þessu svolítinn tíma. Þetta er þín æfing til þess að stilla flæðið í líkamanum og að finna að allt er eins og það á að vera.
Knús og kossar,
Sigga Kling.