Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og hagfræðingur, segir misbrest hafa orðið á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún telur það hafa verið nauðsynlegan lið í ferlinu að opinbera listann yfir þá sem keyptu hluti í bankanum en þessu máli sé ekki lokið.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og hagfræðingur, segir misbrest hafa orðið á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún telur það hafa verið nauðsynlegan lið í ferlinu að opinbera listann yfir þá sem keyptu hluti í bankanum en þessu máli sé ekki lokið.
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og hagfræðingur, segir misbrest hafa orðið á sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún telur það hafa verið nauðsynlegan lið í ferlinu að opinbera listann yfir þá sem keyptu hluti í bankanum en þessu máli sé ekki lokið.
Það sé klárt að ráðast þurfi í rannsókn á því hvernig salan fór fram og að næsta skref felist í því að fá upplýsingar um hverjir voru upplýstir um hvernig ferlinu var háttað og hvaða samskipti áttu sér stað milli fjármálaráðherra og Bankasýslunnar varðandi þetta mál.
„Við höfum sögu af erfiðleikum þegar kemur að einkavæðingu bankanna. Það er ítrekað búið að halda því fram að salan í þetta skiptið yrði byggð á trausti, trúverðugleika, það yrðu fengnir að aðilar sem að væru hæfir til að sinna bankarekstri.
Og að vera að senda þau skilaboð að það þyki eðlilegt að veita aðilum, fjársterkum aðilum, sem komu að því að jarða hér bankakerfið á sínum tíma, og eru í ofanálag að sæta rannsókn, er bara grafalvarlegt mál,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag var listi yfir ríflega 200 aðila sem keyptu 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn, opinberaður á vef Stjórnarráðsins. Lífeyrissjóðir voru umfangsmestu fjárfestarnir í útboðinu. Þeir fjárfestu fyrir um 19,5 milljarða króna sem er um 37% af þeirri upphæð sem seld var. Einkafjárfestar fjárfestu fyrir um 16 milljarða, eða tæplega 31%, og verðbréfasjóðir fyrir um 5,6 milljarða sem gerir tæplega 11%.
Eins og fjallað hefur verið um voru meðal annars á listanum félög í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, og Benedikts Sveinssonar, sem er faðir fjármálaráðherra.
Á listanum má sjá að þónokkrir aðilar keyptu hluti fyrir minna en tíu milljónir króna, þar á meðal einn sem keypti fyrir ríflega milljón.
Kristrún veltir því upp hvers vegna þeir sem hefðu hæglega geta keypt bréf á eftirmarkaðnum var boðið að taka þátt á þessum tíma og kaupa hlutabréfin með afslættinum.
„Það var náttúrulega lagt upp með það þegar það var ákveðið að fara í lokaðútboð að þetta væri til að mynda til þess að draga úr kostnaði við ferlið. Ég held að það hafi verið skilningur allra að partur af því [að fara í lokað útboð] fælist í því að fá stóra langtímafjárfesta að borðinu til þess að þú þyrftir ekki að vera í samskiptum við marga svona smá aðila.“
Að sögn Kristrúnar gefur það augaleið að tugþúsundir manna hér á landi hafi bolmagn til að kaupa hluti í Íslandsbankanum fyrir eina milljón króna. Hún segir nú þurfa að koma fram hvernig þeir tvö hundruð aðilar sem fengu að taka þátt voru valdir enda hafi yfir fjögur hundruð manns gert tilboð.
„Það þarf að komast að því hvað raunverulega átti sér stað þarna. Hvaða skilaboð komu frá fjármálaráðuneytinu, og fjármálaráðherra fyrst og fremst, til Bankasýslunnar um hvað Bankasýslan krafðist af þeim sem sáu um söluna.“
Þá segir hún lokaniðurstöðuna á sölunni hafa verið allt aðra en sú sem var kynnt þar sem að upphaflega átti að fá fáa aðila með fjárhagslegt bolmagn til að standa með bankanum til lengri tíma. Þess í stað hafi m.a. orðið fyrir valinu aðilar með sögu að því að koma að bankahruninu og einstaklingar með tengsl við fjármálaráðherra.
Hún segir málið grafalvarlegt og að rannsaka verði ferlið.
Ekki hefur náðst í Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eða Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra vegna málsins í kvöld.