„Ég er rosalegur vinnualki“

Páskar | 17. apríl 2022

„Ég er rosalegur vinnualki“

Sól er farin að hækka á lofti og löngunin til að hreyfa sig vaknar á ný hjá flestum eftir langan vetur. Páskarnir eru kjörinn tími til þess að gefa sér svigrúm til að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu. Andrean Sigurgeirsson er einn af okkar fremstu dönsurum en margir þekkja hann einna helst fyrir að vera dansari í eftirminnilegu Eurovision-atriði Hatara á sínum tíma. Dagar hans eru annasamir þar sem hann er dansari í fullu starfi auk þess sem hann sinnir félagsstörfum af miklum móð. Hann leggur því mikið upp úr heilbrigðum lífsstíl sem er bæði góður fyrir líkama og sál. 

„Ég er rosalegur vinnualki“

Páskar | 17. apríl 2022

Sól er farin að hækka á lofti og löngunin til að hreyfa sig vaknar á ný hjá flestum eftir langan vetur. Páskarnir eru kjörinn tími til þess að gefa sér svigrúm til að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu. Andrean Sigurgeirsson er einn af okkar fremstu dönsurum en margir þekkja hann einna helst fyrir að vera dansari í eftirminnilegu Eurovision-atriði Hatara á sínum tíma. Dagar hans eru annasamir þar sem hann er dansari í fullu starfi auk þess sem hann sinnir félagsstörfum af miklum móð. Hann leggur því mikið upp úr heilbrigðum lífsstíl sem er bæði góður fyrir líkama og sál. 

Sól er farin að hækka á lofti og löngunin til að hreyfa sig vaknar á ný hjá flestum eftir langan vetur. Páskarnir eru kjörinn tími til þess að gefa sér svigrúm til að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu. Andrean Sigurgeirsson er einn af okkar fremstu dönsurum en margir þekkja hann einna helst fyrir að vera dansari í eftirminnilegu Eurovision-atriði Hatara á sínum tíma. Dagar hans eru annasamir þar sem hann er dansari í fullu starfi auk þess sem hann sinnir félagsstörfum af miklum móð. Hann leggur því mikið upp úr heilbrigðum lífsstíl sem er bæði góður fyrir líkama og sál. 

Andrean hefur verið fastráðinn dansari hjá Íslenska dansflokknum síðustu fjögur ár auk þess sem hann hefur tekið að sér ýmis önnur listræn verkefni. Þá var hann að stíga til hliðar úr stjórn Amnesty International sem og stjórn Samtakanna '78 þar sem hann var varaformaður. Þar sem dagar hans eru annasamir finnst honum gott að viðhalda ákveðinni rútínu.

„Ég finn að ég hef mjög gott af því að hafa ákveðið skipulag á deginum mínum. Ég vakna alla morgna klukkan sjö þar sem ég stend upp, bursta tennur, fer í gegnum létta húðrútínu þar sem ég ber á mig C-vítamín-serum, rakakrem og sólarvörn. Loks hugleiði ég. Svo hjóla ég í vinnuna og byrja þar í morguntímum í ballett, pílates eða samtímadansi. Eftir það erum við í einhvers konar sköpunarferli eða að æfa fyrir sýningar. Að vinnudegi loknum kem ég heim og slaka örlítið á þar til ég fer aftur af stað að sinna mínum félagstörfum eða öðrum listrænum verkefnum. Dagarnir eru því þéttskipaðir.“

Andrean Sigurgeirsson hugsar vel um heilsuna.
Andrean Sigurgeirsson hugsar vel um heilsuna. mbl.is/Árni Sæberg

Leggur áherslu á slökun

Starf Andreans krefst þess að hann hreyfi sig mikið og þarf hann því að sjá til þess að líkaminn fái einnig næga hvíld.

„Þar sem ég dansa frá klukkan níu til fjögur alla virka daga og líka um helgar þegar það eru sýningar þá þarf ég að leggja aukna áherslu á slökun. Ég sæki í passívari hreyfingu eins og til dæmis sund, jóga nidra eða göngutúra og finn að það gerir mér gott. Þá er það einnig mikilvægt fyrir dansara að hugsa vel um mataræðið til þess að viðhalda orku. Þá fasta ég á hverjum degi en ég borða ekki fyrr en um hádegi og ekkert eftir klukkan átta á kvöldin því ég finn að það gerir mér gott hvað orkuna varðar. Einnig kýs ég helst næringarríkt grænkerafæði fyrir heilsuna og minnka þar með kolefnisfótsporið til muna,“ segir Andrean.

Andrean lifir fyrir dansinn en segist hafa þurft að læra að setja sér mörk hvað vinnuna varðar.

„Ég er rosalegur vinnualki og hef oft verið á barmi kulnunar síðustu árin. Heimsfaraldurinn var því ákveðið lán í óláni þar sem hann hefur kennt mér að slaka meira á. Þá þarf maður að læra að meta sig ekki aðeins út frá vinnunni og því sem maður áorkar þar. Þess utan hef ég verið að sinna ýmsum félagsstörfum og tek að mér önnur listræn verkefni sem gefa mér mjög mikið andlega,“ segir Andrean sem vill að tilveruréttur alls fólks sé virtur. „Ég fór að sinna þessum félagsstörfum út frá þeim pólitíska líkama sem ég er í en ég tilheyri ýmsum minnihlutahópum. Ég er blandaður Íslendingur, alinn upp í íslamstrú en móðir mín er frá Indónesíu. Þá er ég samkynhneigður og strákur í dansi í þokkabót. Við mannfólkið erum marglaga verur og því ber að fagna. Það má segja að ég lifi eftir mottóinu heima í Indónesíu – Unity in Diversity eða sameining í fjölbreytileikanum en það er einmitt fjölbreytileikinn sem er það fallegasta við okkur.“

Vill nýta tímann sem best

Andrean segist mjög meðvitaður um hversu stuttur ferill dansarans geti verið og það geti verið mikið álag að finnast maður þurfa að nýta tímann sem allra best.

„Sem dansari er maður alltaf með það á bak við eyrað hvað dansferillinn getur verið stuttur og maður er því mjög gráðugur í öll verkefni tengd dansinum. Maður þarf því að beita sig ákveðnum aga og læra að segja nei þegar svo ber við. En þegar maður hefur svona gaman af því sem maður er að gera þá er mikilvægt að finna fleiri leiðir til þess að núllstilla sig. Ég hef því verið að hugleiða alla morgna, gef mér tíma til þess að kæfa köttinn minn í ást og það er fátt annað sem núllstillir mig meira en að njóta góðs víns og vinarþels,“ segir Andrean.

Hristir upp í kynjaðri tísku

Andrean er þekktur fyrir að vera mjög smekklegur til fara. Hann segist hafa gaman af tísku og finnst tískan góð leið til þess að tjá sig.

„Það skemmtilega við tísku er að þú þarft ekki að binda þig við eitthvað eitt. Það er svo gaman að prófa sig áfram. Fatastíllinn minn fer oft eftir tilfinningu hvers dags, hvernig mér líður og hvernig ég vil vera. Stundum klæðist ég einhverju sem mætti lýsa sem grungy, flamboyant eða androgynous en svo get ég farið alveg í hina áttina í eitthvað mjög stílhreint og naumhyggjulegt. Mér finnst gaman að hrista upp í þessari kynjuðu tísku og vona að framtíð tískunnar losni algjörlega úr fjötrum úreltra staðalímynda kyntvíhyggjunnar. Það fallegasta við tískuna er hvað hún er fjölbreytt og gefur manni margvíslegar leiðir til þess að tjá sig. Svo elska ég hringrásarhagkerfið sem er að myndast hér á landi með tilkomu fleiri fatamarkaða þar sem fólk selur flíkur sínar og hljóta þær þannig nýtt líf.“

Til Brussel um páskana

Síðustu ár hefur Andrean verið í fjarbúð með kærastanum sínum, Viktori Stefánssyni.

„Ég vildi að ég gæti sagt að ég hefði kynnst honum undir Eiffel-turninum í París en við kynntumst bara á þennan rammheiðarlega íslenska hátt – á djamminu. Mér fannst hann sjúklega sætur en það er ekkert jafn kynþokkafullt og menn sem eru samstilltir tilfinningum sínum, eru víðsýnir og umburðarlyndir og líður vel í eigin skinni. Við höfum verið í fjarbúð í sirka fimm ár en þurftum að samstilla okkur vel. Í byrjun sambandsins lofuðum við hvor öðrum að láta sambandið ekki koma í veg fyrir drauma hvor annars og láta hlutina bara ganga. Við erum frekar ólíkir að upplagi og þurftum að finna ákveðið jafnvægi í samskiptum. Við byrjum því alla daga á að spjalla saman og pössum upp á að vera í einhvers konar samskiptum yfir daginn. Þá heyrumst við alltaf á kvöldin og svo er regla hjá okkur að láta aldrei líða meira en mánuð á milli þess sem við hittumst,“ segir Andrean. Andrean er um þessar mundir að ljúka tíu daga sýningaferð um Noreg en að því loknu ætlar hann að verja páskafríinu með Viktori í Brussel þar sem þeir ætla að borða góðan mat og njóta vorsins og menningarinnar sem Brussel hefur upp á að bjóða.

Andrean horfir björtum augum fram á við og mun halda áfram að leggja líf og sál í danslistina. „Ég vil halda áfram að dansa eins mikið og ég mögulega get því maður veit aldrei hvenær líkaminn gefur sig. Þá vil ég halda áfram að leggja mitt af mörkum að gera heiminn að betri stað og vona að samfélagsleg ábyrgð og kærleikur vaxi með tímanum. Höfum mennskuna að leiðarljósi,“ segir Andrean.

mbl.is