Fordæming uppsagna gæti stofnað samstarfi í hættu

Væringar innan Eflingar | 28. apríl 2022

Fordæming uppsagna gæti stofnað samstarfi í hættu

Tillaga var lögð fram á trúnaðarráðsfundi VR í gær um að fordæma hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar en hún fékk aldrei efnislega umfjöllun þar sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bar upp frávísunartillögu sem var samþykkt. Talað var um að fordæming gæti stofnað samstarfi við Eflingu í hættu.

Fordæming uppsagna gæti stofnað samstarfi í hættu

Væringar innan Eflingar | 28. apríl 2022

Tillögu um að fordæma uppsagnir Eflingar var vísað frá í …
Tillögu um að fordæma uppsagnir Eflingar var vísað frá í trúnaðarráði VR í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillaga var lögð fram á trúnaðarráðsfundi VR í gær um að fordæma hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar en hún fékk aldrei efnislega umfjöllun þar sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bar upp frávísunartillögu sem var samþykkt. Talað var um að fordæming gæti stofnað samstarfi við Eflingu í hættu.

Tillaga var lögð fram á trúnaðarráðsfundi VR í gær um að fordæma hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar en hún fékk aldrei efnislega umfjöllun þar sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bar upp frávísunartillögu sem var samþykkt. Talað var um að fordæming gæti stofnað samstarfi við Eflingu í hættu.

Kristinn Örn Jóhannesson, sem situr í trúnaðarráði og fyrrverandi formaður VR, var flutningsmaður tillögunnar.

„Þetta var ályktun um að fordæma þessa hópuppsögn og brýna fyrir stjórninni að stíga aðeins fastar til jarðar en gert hefur verið í yfirlýsingum,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.

Leit á tillöguna sem vantraustsyfirlýsingu

Í umræddri tillögu að ályktun sagði meðal annars að hópuppsögn, þar sem ekki stæði til að leggja niður starfsemi alfarið, væri nýlunda og fordæmalaus aðgerð og í „þessu tilfelli einstök aðgerð í vestrænu lýðræðisríki þar sem öllu starfsfólki stéttarfélags er sagt upp störfum samtímis. Slíkar aðgerðir eiga að vera algjört neyðarúrræði ef hagræða þarf í rekstri en ekki til að lækka laun.“

Jafnframt kom fram að stéttarfélögum bæri skylda til að ganga fram með góðu fordæmi og tryggja að réttindi vinnandi fólks sé ofar öðrum hagsmunum.

Virtist formaðurinn líta svo á að tillagan væri vantraustsyfirlýsing á sig og stjórn félagsins, en Kristinn segist hafa leiðrétt það.

„Tillagan var ekki vantraust á einn eða neinn, heldur brýning á að kveða fastar að orði í að formdæma, ekki bara harma. Mér fannst yfirlýsingin bara ekki ganga nógu langt og það voru fleiri sammála mér í því, en þau töldu það nægja.“

Ragnar hefur sagt að lögvarðir hagsmunir standi í vegi fyrir yfirlýsingum stjórnar VR í málinu.

Afskipti greinilega stundum í lagi

Kristinn segir fólk hafa fengið tækifæri til að gera orðalagsbreytingar og annað slíkt en fundurinn hafi metið það svo að stjórn VR hafi sagt það sem þyrfti í þessu máli.

Talað hafi verið um að staðan væri viðkvæm og að samstarf við Eflingu væri í húfi. „Þau töldu að samstarfi og samvinnu við formann Eflingar væri hugsanlega hætt með því að kveða fastar að orði. Eða þannig túlkaði ég það að minnsta kosti.“

Kristinn segir það almennu regluna að stéttarfélög skipti sér ekki af innri málum annarra stéttarfélaga og þau rök hafi verið notuð í þessu samhengi. Hins vegar hafi bæði formenn VR og Verkalýðsfélags Akraness stutt Sólveigu opinberlega í formannskosningum Eflingar. Það sé nokkuð óþekkt í verkalýðshreyfingunni og hljóti að teljast til afskipta af innri málum annarra félaga.

„Þá er það svolítið skrýtið að nota þau rök á trúnaðarráðsfundinum í gær að menn geti ekki verið að skipta sér af innri málum annarra stéttarfélaga. Það á bara við stundum, ekki annan daginn.“

Hættuleg og ljót umræða

Kristinn segir að sér hafi fundist vegið að starfsmönnum allra stéttarfélaga í þessu í máli.

„Eins og orðræðan er, og formaður Eflingar stendur hjá, að starfsmönnum sé lýst sem einhverjum afætum og ég veit ekki hvað. Að helstu andstæðingar láglaunakvenna á Íslandi sé skrifstofufólk. Mér misbauð þessi orðræða. Hún er ljót, hún er hættuleg og engum gagns, allra síst láglaunakonum á Íslandi, að mínu mati.“

Kristinn sendi einnig Ragnari, formanni VR, nokkrar spurningar í tengslum við hópuppsagnir Eflingar á vef trúnaðarráðs VR þann 16. apríl og óskaði eftir svörum. Að sögn Kristins lofaði Ragnar því á fundi trúnaðarráðsins í gær að svara þeim, en svör hafa enn ekki borist.

Spurði Kristinn meðal annars að því hverjir væru lögvarðir hagsmunir VR í málinu og með hvaða hætti starfsfólk stéttarfélags gæti unnið gegn kjörinni stjórn þannig það hefði áhrif á kröfu og samningagerð. Þá spurði hann að því hvort hætta væri á því að slíkt gæti gerst á skrifstofu VR og hvort yrði þá brugðist við með „nauðsynlegri hópuppsögn“.

mbl.is