„Gæði íslensks sjávarfangs eru rómuð um allan heim“

„Gæði íslensks sjávarfangs eru rómuð um allan heim“

Vöxtur í laxeldi kallar á að finna fleiri leiðir til að skapa verðmæti úr hliðarafurðum. Greinin ætti að skoða leiðir til að nýta t.d. jarðhitann til að rækta fjölbreyttar fisktegundir

„Gæði íslensks sjávarfangs eru rómuð um allan heim“

Nýsköpun og tækni í sjávarútvegi | 28. apríl 2022

„Það gæti styrkt eldisiðnaðinn að gæta að fjölbreytni í tegundaúrvali …
„Það gæti styrkt eldisiðnaðinn að gæta að fjölbreytni í tegundaúrvali og eiga ekki allt undir einni megin- fisktegund,“ segir Alexandra Leeper mbl.is/Arnþór Birkisson

Vöxtur í laxeldi kallar á að finna fleiri leiðir til að skapa verðmæti úr hliðarafurðum. Greinin ætti að skoða leiðir til að nýta t.d. jarðhitann til að rækta fjölbreyttar fisktegundir

Vöxtur í laxeldi kallar á að finna fleiri leiðir til að skapa verðmæti úr hliðarafurðum. Greinin ætti að skoða leiðir til að nýta t.d. jarðhitann til að rækta fjölbreyttar fisktegundir

Í janúar var dr. Alexandra Leeper ráðin til starfa hjá Íslenska sjávarklasanum en þar verður hún yfirmaður ransókna og nýsköpunar. Alexandra hefur búið á Íslandi um nokkurra ára skeið en hún smitaðist ung af miklum áhuga á lífríki sjávar.

„Ég hóf að stunda köfun tólf ára gömul og það var í gegnum köfunina að ég varð hugfangin af öllu sem hefur með hafið að gera. Þegar kom að háskólanámi skráði ég mig svo í sjávarlíffræði og haffræði við Háskólann í Plymouth,“ segir Alexandra sem sem á löngum og fjölbreyttum ferli hefur m.a. starfað sem köfunarkennari lengst austur í Singapúr.

Með fyrsta háskólaprófið í höfn færði Alexandra sig yfir til Southhamptonháskóla þar sem hún lauk M.Sc.-gráðu í umhverfis- og auðlindafræðum sjávar, en um var að ræða Erasmus Mundus-meistaranám sem skiptist á milli háskólans í Southhampton, Háskólans í Bilbao og Háskólans í Liège.

Í meistaranáminu komst Alexandra í kynni við Matís og fékk hún þar inni sem starfsnemi á sviði fiskeldismála árið 2017. Í framhaldinu bauðst Alexöndru að hefja þar doktorsrannsókn sem fjallaði um laxeldi.

Verður Alexandra rannsóknar- og nýsköpunarstjóri Sjávarklasans í hálfu starfi, en hinn helming vinnuvikunar er hún hjá Fisktækniskólanum þar sem hún starfar sem verkefnastjóri.

Alexandra segir mikil tækifæri felast í fiskeldinu.
Alexandra segir mikil tækifæri felast í fiskeldinu. Ljósmynd/Aðsend

Möguleikar jarðhitans

Að sögn Alexöndru eru skyldur rannsóknar- og nýsköpunarstjóra margþættar: „Sprotafyrirtækin sem starfa innan veggja Sjávarklasans þurfa mörg á öflugum vísindalegum stuðningi að halda, og það er hluti af starfsemi þeirra og sjávarklasans að t.d. sækja styrki í hina ýmsu rannsóknar- og þróunarsjóði. Þá lít ég ekki síður á það sem hlutverk mitt að hvetja sem flesta innan bláa hagkerfisins til að leggja sitt af mörkum við að ná því markmiðið að nýta 100% alls sjávarfangs, og láta ekkert fara til spillis.“

Alexandra hefur víða farið og þekkir vel til sjávarútvegs og sjávarransnókna um allan heim. Segir hún að þegar litið er yfir sviðið blasi við að Ísland er einstaklega vel í stakk sett til að vera í forystuhlutverki í haftengdri nýsköpun. „Það eru engar ýkjur að gæði íslensks sjávarfangs eru rómuð um allan heim, og Íslensk fyrirtæki löngu búin að skipa sér í fremstu röð á sviði fiskvinnslubúnaðar. Þá hafa verið að taka á sig mynd ótal fyrirtæki sem vinna dýrmæta vöru úr hliðarafurðum sjávarútvegs, og í grasrótinni má heyra fjöldan allan af virkilega góðum hugmyndum sem þarf endilega að fylgja eftir,“ útskýrir Alexandra og bætir við að landið búi jafnframt að kröftugum mannauði og rannsóknarsamfélagi sem í áratugi hefur sérhæft sig í lífríki sjávar. „Þá eru aðstæður frá náttúrunnar hendi mjög áhugaverðar og það að íslensk fyrirtæki hafi t.d. aðgang að jarðhita er eitthvað sem þarf að skoða nánar og reyna að nýta í auknum mæli í starfsemi eldisstöðva.“

Alexandra er líka ánægð með hvernig hlúð er að grunnstoðunum í greininni. Huga þurfi að því að vekja áhuga unga fólksins á sjávarútvegi og haftengdri nýsköpun, og byggja upp rétta þekkingu hjá nemendum sem vilja halda inn á þetta svið. Nefnir hún Fisktækniskólann í þessu sambandi en þar er boðið upp á fjölbreytt sjávarútvegstengt nám á framhaldsskólastigi.

Árið 2020 kynntu Fisktækniskólinn og Sjávarklasinn til sögunnar nýja námsleið, Sjávarakademíuna, þar sem nemendum gefst kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi tengdri afurðum hafsins. Þar læra nemendur vöruþróun, fá frumkvöðlaþjálfun og er kennt hvernig á að stofna og reka fyrirtæki en um er að ræða einnar annar nám sem gefur 30 einingar upp í stúdentspróf.

Alls konar tækifæri tengd fiskeldi

Vill Alexandra hvetja sérstaklega til að frumkvöðlar leiti tækifæra tengd þeim öra vexti sem orðið hefur í fiskeldi á Íslandi. Ef marka má áætlanir fiskeldisfyrirtækja mun verða sprenging í bæði land- og sjóeldi á komandi árum. „Allri þessari framleiðslu munu fylgja hliðarafurðir sem við þurfum endilega að nýta með sem skynsömustum hætti. Frumkvöðlar ættu líka endilega að rækta fleiri fisktegundir og sjá hvort að ekki megi einmit nýta jarðhitann í því sambandi,“ segir hún og er skemmt – en er um leið forvitin – þegar blaðamaður segir henni frá að á sínum tíma var sú hugmynd til skoðunar af fullri alvöru norður á Húsavík að nota heita vatnið til að skapa heppilegar aðstæður fyrir krókódílaræktun.

„Það gæti styrkt eldisiðnaðinn að gæta að fjölbreytni í tegundaúrvali og eiga ekki allt undir einni meginfisktegund,“ segir Alexandra og vísar m.a. til tilrauna norskra fiskeldisstöðva til að rækta aðrar tegundir en lax. „Af öllu stöðum í heiminum held ég að Ísland bjóði í dag upp á hvað mest spennandi möguleika í fiskeldi á landi, en landeldið hefur vitaskuld þá kosti að engin hætta er t.d. á að fiskur sleppi úr kvíum og út í lífríkið, auðveldra að halda sníkjudýrum, bakteríum og veirum í skefjum, og hægt að fanga, hreinsa og nýta allan þann lífræna úrgang sem starfsemin skapar.“

Að blanda saman ólíkri ræktun er líka eitthvað sem Alexandra myndi vilja sjá meira af. „Erlendis hefur það komið vel út að flétta t.d. saman fiskeldi í sjókvíum og þararæktun og hjálpar þarinn þá til við að endurheimta þau næringarefni sem berast frá fiskeldiskvíunum.“

Mætti bæta aðgengi útlendinga

Alexandra segir hafa tekist að skapa nokkuð vandaða umgjörð utan um nýsköpunarstarf, rannsóknir og styrki á Íslandi, en þó sé eins og gleymst hafi að taka tillit til fólks sem ekki talar íslensku að móðurmáli. „Stjórnvöld og stofnanir mættu endilega muna að útlendingar leika æ stærra hlutverk í bláa hagkerfinu og það getur verið mjög hár þröskuldur að yfirstíga ef t.d. kynningarefni eða umsóknareyðublöð fást ekki á öðru máli en íslensku.

mbl.is