Flugfreyjur meti hver aðra með snjallforriti

Sviptivindar í flugrekstri | 12. maí 2022

Flugfreyjur meti hver aðra með snjallforriti

Icelandair hefur tekið í notkun nýtt snjallforrit sem flugfreyjur og þjónar eiga að nota til að gera jafningjamat á vinnufélögum sínum í starfi.

Flugfreyjur meti hver aðra með snjallforriti

Sviptivindar í flugrekstri | 12. maí 2022

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir viðtökur við forritinu hafa verið góðar.
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir viðtökur við forritinu hafa verið góðar. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair hefur tekið í notkun nýtt snjallforrit sem flugfreyjur og þjónar eiga að nota til að gera jafningjamat á vinnufélögum sínum í starfi.

Icelandair hefur tekið í notkun nýtt snjallforrit sem flugfreyjur og þjónar eiga að nota til að gera jafningjamat á vinnufélögum sínum í starfi.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í skriflegu svari til mbl.is að verið sé að innleiða nýja aðferðarfræði til að stuðla að bættri endurgjöf í starfi og með nýju „My Motivation“ snjallforriti geti starfsfólk gefið hvert öðru endurgjöf.

Hún segir viðtökur starfsfólks hafa verið mjög góðar og nú sé unnið að því að þróa fyrirkomulagið áfram í samvinnu við starfsfólkið.

„Þetta er jafningjamat (peer evaluation) sem þekkist víða hjá fyrirtækjum og við höfum sérstaklega horft til sambærilegra lausna hjá öðrum flugfélögum. Þá höfum við jafnframt verið að innleiða jafningjamat á meðal stjórnenda sem gæti mögulega verið víkkað út frekar,“ segir í svarinu.

Treysta starfsfólki til að veita heiðarlega endurgjöf 

Samkvæmt frétt RÚV um málið segir að matið sé í átta liðum og feli meðal annars í sér mat á leiðtogahæfileikum, vinnusemi og samskiptahæfni, en einnig er spurt um viðhorf til vinnuveitanda.

Ásdís segir að innleiðing forritsins sé aðeins einn liður í frammistöðumati hjá flugfreyjum og þjónum en Icelandair treysti starfsfólkinu til að veita heiðarlega og uppbyggilega endurgjöf.

„Við erum stöðugt að gera lagfæringar og skoða ábendingar svo upplifunin verði sem jákvæðust. Markmiðið er að auka starfsánægju og stuðla að starfsþróun meðal ört stækkandi hóps flugfreyja og flugþjóna.“

mbl.is