Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að velta fyrir sér hvernig best er að komast yfir samband sem hún hefur átt í nokkra mánuði við giftan mann.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að velta fyrir sér hvernig best er að komast yfir samband sem hún hefur átt í nokkra mánuði við giftan mann.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er að velta fyrir sér hvernig best er að komast yfir samband sem hún hefur átt í nokkra mánuði við giftan mann.
Sæl.
Ég var í nokkra mánuði að hitta mann sem er giftur og á börn. Er sjálf skilin og á 3 börn og hef alltaf augun fyrir mögulegu sambandi ef ég er að hitta einhvern, en alltaf bara viljað leyfa því að ráðast. Ekkert að plana neitt, það komi sem koma skal.
Þetta var yndislegt samband og hann kveikti aftur von hjá mér sem var alveg horfin eftir mikil og hræðileg áföll eftir skilnað. Við tengdust mjög vel og ekki bara kynferðislega.
Eftir enn eitt áfallið hjá mér sleit ég sambandinu enda var líka aldrei nein framtíð þarna bara við 2 að hlúa að okkur. Þá mér til mikillar furðu segir hann að hann yrði að hugsa um son sinn fyrst og fremst sem er einhverfur en hefði kringumstæður verið aðra þá væri allt öðruvísi.
Fyrst og fremst þá hvarflaði það aldrei að mér. Ég er mjög brotin og brennimerkt eftir allskonar rugl sem ég þarf bara að lifa með. Það er ekkert hægt að breyta því liðna veit ég vel. Þar af leiðandi er ég nú ekkert svona „wife material“ og skil það sjónarhorn bara alveg.
Eftir að hafa lesið þetta frá honum þá er ég bara alveg í rusli! Ég er ekkert verri kostur en annar þó sonurinn sé með sérstakar þarfir. Það eru líka þrír aðrir í fjölskyldunni eins og hann, konan og dóttir. Á bara að vera allt innantómt út af tillitsemi? Æ þetta hljómar kalt. Mér finnst þetta bara ekki alveg nógu gott að heyra og grunar að hann sé sjálfur bara ragur við að brjóta vítahringinn í hjónabandinu. Hann hafði ekki upplifað alveg slatta til dæmis kynferðislega og ég var svo hissa. Honum leið svo vel og hann var svo yndislegur. Fannst allt í einu bara hundfúlt að við gætum ekki verið saman því við yrðum rosa góð saman. Og bara hef aldrei haft trú á þessu að vera saman fyrir börnin. Þau eru engir hálfvitar og hvers vegna að kenna þeim að fela leika leikrit og ætlast svo til að þau tengist eðlilegum samböndum í framtíðinni?
Ég er alveg pínu bitur viðurkenni það alveg. En samt er þetta ekki óraunhæft af honum að skýla sér á bak við drenginn sinn?
Eða er ég kannski bara svona svakalega fúl?
Kveðja.
Þessi sem þarf alltaf svör við öllu.
Sælar og takk fyrir bréfið þitt.
Það er gott að þú ert forvitin með þessi mál og að þú viljir svör við öllu. Passaðu bara hvar þú leitar eftir niðurstöðunni því hana er sjaldnast að finna í brotnum samböndum.
Ég er ekki alveg viss með ákveðinn hluta bréfsins því það er eins og þú farir úr sambandinu en svo sendir maðurinn þér bréf þess efnis að hann ætli að fókusera á son sinn og fjölskylduna. Það kannski skiptir ekki öllu, hvort þið hafið verið bæði í samböndum þegar þig kynnist og þú hafir farið úr þínu, eða að þú hafir farið úr ykkar sambandi og þá stimpli hann sig út líka.
Kjarni málsins er sá að ástarsambönd er samkomulag tveggja einstaklinga sem geta tekið þátt í sambandinu. Þegar konur fara í samband með giftum mönnum eða öfugt þá er alltaf verið að tengjast einstaklingi sem getur ekki mætt inn í samband á heilbrigðum forsendum.
Mín persónulega skoðun er sú að hjónaband er heilagt fyrir guði og mönnum. Það getur verið gott að fara nánar út í hvaða merkingu hjónaband hefur í huga okkar og svo að setja mörk tengt því.
Komi það sem koma vill og að lifa í flæðinu er heilbrigt upp að vissu marki. Þú ert með mjög mikið virði og ef þú ætlar að taka við öllu sem kemur til þín, þá er ekki víst að þú náir að viðhalda þessu virði til lengdar. Ég myndi staldra við þetta atriði og skoða hvar þú lærðir þessa hugmyndafræði og hvort ekki væri hægt að búa til ákveðið flæði inn í ramma sem er að virka fyrir þig og annað fólk líka.
Þessi rammi verður mörkin þín. Þú getur aldrei sett öðru fólki mörk, þú setur þér mörk. Fólk er allskonar og mennskan oft mjög ófullkomin.
Í hverju þyrftir þú að vinna ef þú myndir setja þér mörk í að fara einvörðungu á stefnumót með mönnum sem ekki eru giftir eða í sambandi við aðrar konur? Með mönnum sem eru með svipuð gildi og þú ert með og með mönnum sem eru á svipuðu róli í lífinu? Hvað myndi koma upp hjá þér ef þú myndir setja þér mörk um að kynnast þeim einstaklingi sem þú ert að spá í að fara í samband með áður en þú myndir deila rúmi með honum svo dæmi sé tekið?
Ég heyrði eitt sinn af konu sem hafði verið í samböndum nánast allt sitt líf. Hún ákvað að staldra við því hún var aldrei hamingjusöm í ástarsamböndunum sínum. Hún ákvað að skoða grunninn sinn eins og tengsl og samband sitt við foreldrana í æsku. Hún prófaði að búa ein um tíma sem var ekki mikið mál fyrir hana þannig séð því margt var að ganga upp í lífinu hennar. Hún var fjárhagslega sjálfstæð, sérfræðingur á sínu sviði, rak stórt heimili og sá um mörg börn. Þessi kona varð alltaf ástfangin að giftum mönnum eða mönnum sem áttu við mikinn vanda að stríða.
Þegar hún skoðaði grunninn sinn þá fann hún upplýsingarnar sem hún leitaði að í æsku sinni. Hún hafði lært af sinni eigin móður að vera fjárhagslega sjálfstæð. Að sjá um sig og aðra en það sem hún hafði einnig lært var að karlmenn eru hættulegir og þeir svíkja konur. Þetta fór djúpt í undirmeðvitund hennar og það sem gerðist út af þessu var að hún gaf einungis þessari tegund karlmanna séns.
Þegar hún vann í æskunni sinni og skrifaði niður hvernig líf hún vildi lifa, þá gat hún notað þessar upplýsingar til að segja skilið við gömlu samböndin sín. Og einnig hætt að áfalla sig með því að finna þessa tegund karla sem hún hafði áður leitað í.
Það er nóg til af flottum mönnum á lausu bæði hér á Íslandi en einnig á fleiri stöðum í heiminum. Ég get lofað þér því að þegar þú verður tilbúin í gott samband þá mun veröldin sjá um restina fyrir þig.
Ég get mælt með nokkrum góðum bókum fyrir þig að lesa núna. Allar bækur eftir Patrick Carnes eru góðar til að skilja stjórnleysi í ástarsamböndum. Louise Hay, Marianne Williamsson og fleiri eru góðir höfundar að stóla á í uppbyggingu þess að læra að vera ein og flott. Ekki hika við að finna þér góðan meðferðaraðila sem getur aðstoðað þig með að þróa örugg geðtengsl. Aðila sem getur unnið með þér í gömlum áföllum og fleira í þeim dúrnum. Það gæti verið gott að hitta nokkra einstaklinga til að finna þann rétta að vinna með. Þessi tegund vinnu tekur tíma og byggir ekki á skyndilausnum, en árangurinn af vinnunni verður þér og öðrum sýnilegur þegar til lengri tíma er litið.
Þegar þig langar að hafa samband við einhvern sem ekki er á lausu fyrir þig, þá get ég mælt með bókum á borð við Women Who Love Too Much, allt efni frá Kelly McDaniel sem fjallar um stjórnleysi í samböndum á mjög ljúfan hátt og svo dr Alex Katehakis og örfyrirlestrar hennar á YouTube.
Að lokum langar mig að tala um sanna ást. Mín skoðun er sú að sönn ást byrjar og endar á þér. Þú þarft að læra að vera ein og flott, sama hvort þú ert í sambandi eða ekki. Þú sýnir þér ást á hverjum degi með því að hugsa um þig eins vel og þú getur. Hugsa um börnin þín, vinnuna, fjölskylduna og vinina. Næsta skref er alltaf gagnkvæmi. Að þú getir verið í kringum fólk sem getur gefið þér til baka. Þegar þú byrjar að gefa öðru fólki af þeirri ást sem þú sýnir þér. Það er fullorðinslegt, heilbrigt og gott að kunna að gefa og þiggja.
Að lokum langar mig að benda þér á tvö hugtök sem eru þekkt í meðferðargeiranum og mikið fjallað um nú. Annað þeirra er áfallatengsl (e trauma bonding) og hitt er fíkn í sársauka (e pain addiction). Til eru nóg af bókum um þessi hugtök en satt best að segja finnst mér kvikmyndin Secretary frá árinu 2002 útskýra fíkn í sársauka ágætlega.
Í stuttu máli er það að sækja í sársauka byggt á þeirri forsendu, að einhvern tímann í æsku lærði barnið að lifa af í erfiðum aðstæðum. Það fann leið til að róa sig í óreiðunni. Þeir sem bera kennsl á þá upplifun að stundum er stjórnleysi og sársauki þægilegri en hamingja og heilbrigði, geta unnið með góðum sérfræðingi eða í hópi með öðru fólki sem er að fást við það sama í að venjast hinu jákvæða í lífinu. Al-Anon eru dæmi um samtök þar sem markvisst starf að þessu tagi fer fram. Sumir þurfa að byggja upp frá grunni, á meðan að aðrir þurfa að binda undir vissan hluta lífsins að þessu leiti. Svona framkvæmdaprógrömm virka ef fólk vinnur vinnuna. Hver fer á sínum hraða og mikilvægt er að fólk sýni sér mildi og vinni með öðru fólki sem hefur verið lengur í svona vinnu.
Gangi þér alltaf sem best á þinni vegferð.
Kveðja Elínrós Líndal.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR