Engar fjölskyldur til Grikklands

Flóttafólk á Íslandi | 27. maí 2022

Engar fjölskyldur til Grikklands

Á þessu stigi málsins verða engar fjölskyldur sendar til Grikklands, að sögn Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Þá bætir hann við að slíkt hafi aldrei staðið til. 

Engar fjölskyldur til Grikklands

Flóttafólk á Íslandi | 27. maí 2022

Jón kveðst algjörlega ósammála því að íslensk stjórnvöld séu með …
Jón kveðst algjörlega ósammála því að íslensk stjórnvöld séu með sérstaklega harða stefnu í útlendingamálum. mbl.is/Hákon

Á þessu stigi málsins verða engar fjölskyldur sendar til Grikklands, að sögn Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Þá bætir hann við að slíkt hafi aldrei staðið til. 

Á þessu stigi málsins verða engar fjölskyldur sendar til Grikklands, að sögn Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Þá bætir hann við að slíkt hafi aldrei staðið til. 

Ísland er að hans sögn með sérstaklega rúma löggjöf í tilviki fjölskyldufólks á flótta. Samkvæmt henni fái fjölskyldur mál sín endurupptekin eftir að hafa verið hér í tíu mánuði. 

Þá bendir hann á að tvær fjölskyldur, í hópi þeirra sem hafa hlotið boð um brottvísun, verði búnar að vera á Íslandi í tíu mánuði í júní og því sé augljóst að þær muni fá mál sín endurskoðuð.

Tæplega tvö hundruð

Fjöldi þeirra sem til stendur að vísa úr landi er rétt undir tvö hundruð manns. „Þessar tölur eru í sjálfu sér alltaf að breytast, það hefur eitthvað grisjast úr þessu á ýmsum forsendum en hámarkið var um 260 manns.“

Útlendingamálin voru rædd á ríkisstjórnarfundi í dag en Jón segir engar breytingar hafa orðið á stefnunni í þeim efnum. 

Jón kveðst algjörlega ósammála því að íslensk stjórnvöld séu með sérstaklega harða stefnu í útlendingamálum.

„Við erum sennilega með einhverja mildustu stefnu meðal allra þeirra þjóða sem við berum okkur saman við.“

Hún hefði aldrei verið send úr landi

Jón tekur undir að það sé vandi, hve lengi umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa þurft að bíða, til þess að fá leyst úr málum sínum. Hann hafi sjálfur beitt sér fyrir því að gera málsmeðferðina skilvirkari og tryggja hraðari afgreiðslu. „Út af ástandinu hafa einhverjir dvalið hér lengur, þeir sem hafa rétt á að fá sín mál endurupptekin, þeir fá þau endurupptekin.“

Með aðstæðum vísar Jón til sóttvarnarreglna, sem gerðu það að verkum að ekki var unnt að senda fólk úr landi sem neitaði að undirgangast sýnatöku vegna Covid-19. 

Niðurstaðan geti breyst ef forsendur fyrir synjuninni á sínum tíma hafa breyst. „Eins og konan sem var gengin átta mánuði á leið, aðstæður hennar voru breyttar, þannig að hún hefði aldrei verið send úr landi.“

Aðrar þjóðir sendi fólk til Grikklands

Hann segir að þau gífuryrði, sem höfð hafi verið uppi um mannvonsku og ómannúðlega stefnu, eigi ekki við nein rök að styðjast.

„Okkur er ekki kunnugt um að neinar þjóðir í Evrópu hafi horfið frá því að senda fólk til Grikklands.“

Spurður hvort aðstæður á Grikklandi séu boðlegar, segir Jón það ekki sitt hlutverk að setjast í dómarasætið í þeim málum. „Ef þær eru ekki boðlegar, þá væri ekki löglegt að senda fólk þangað.“

Fá vernd ef lífi og limum er ógnað

Jón telur ekki að flóttafólki sé mismunað á grundvelli uppruna, þótt flýtimeðferð hafi verið sett á fót fyrir Úkraínumenn, en tæplega tvö hundruð umsækjendur séu nú sendir úr landi. 

„Mikilvægt að fólk átti sig á því að verndarkerfið snýr að fólki í neyð, þar sem lífi þeirra er ógnað og aðstæður eru hættulegar. Við getum öll verið sammála um að lífi fólks í Úkraínu er ógnað og því bjuggum við til þessa sérstöku hraðferð.“

Aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd komi á mismunandi forsendum og mál þeirra séu skoðuð í hverju tilfelli af þar til bærum stjórnvöldum, Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. 

„Fólkið sem á að vísa úr landi nú, er því fólk sem hefur fengið fulla málsmeðferð og niðurstaðan verið sú að lífi þeirra sé hvorki ógnað, né aðstæður hættulegar.“

„Við höfum engu breytt“

Jón lét þau orð falla á Alþingi að samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um útlendingamálin. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kvaðst hafa gert alvarlegar athugasemdir á ríkisstjórnarfundi. 

„Þegar ég segi að ríkisstjórnin sé samstíga, þá á ég við að hún sé sammála um að uppfylla skilyrði laga og alþjóðaskuldbindinga með tilliti til hagsmuna þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.“

Þá bendir hann á að á því tímabili sem ráðherrar þessarar stjórnar hafi setið við ríkisstjórnarborðið, sé búið að vísa mörg hundruð, hátt í þúsund, einstaklingum frá.

„Það hefur aldrei komið upp ágreiningur um það vinnuferli, þau lög eða þá ferla sem eru í gildi. Við höfum engu breytt.“

mbl.is