Ráðningarsamningur Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, var samþykktur á fundi bæjarráðs í gær.
Ráðningarsamningur Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, var samþykktur á fundi bæjarráðs í gær.
Ráðningarsamningur Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, var samþykktur á fundi bæjarráðs í gær.
Samkvæmt samningnum sem birtur var í fundargerð bæjarráðs nema laun nýs bæjarstjóra 2.194.168 krónum á mánuði. Skal fjárhæðin taka breytingum 1. júní ár hvert í samræmi við breytingar á launavísitölu.
Þá greiðir bærinn bæjarstjóra bifreiðastyrk vegna afnota af eigin bifreið í þágu starfsins sem nemur 105.832 krónum á mánuði og miðast við 10.000 km á ári eða 833,33 km á mánuði.
Fulltrúar minnihlutans voru ósáttir með kjör og ákvæði samningsins en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem skipa hreinan meirihluta í bæjarstjórn, töldu hann aftur á móti sanngjarnan. Var ráðningarsamningurinn samþykktur með þremur atkvæðum gegn einu í bæjarráði. Einn bæjarfulltrúi sat hjá. Samningurinn verður lagður fram í bæjarstjórn til staðfestingar.
Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans, lagði fram bókun þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni yfir því að samningurinn hafi ekki verið unninn í samráði við minnihlutann.
„Hérna höfum við samning sem er gerður af Sjálfstæðisflokknum við oddvita þeirra og það án allrar aðkomu minnihlutans. Við í Garðabæjarlistanum viljum hafa laun bæjarstjóra lægri en þau sem eru í þessum samningi. Við teljum þetta of há laun fyrir þau störf sem bæjarstjóri í 18.000 manna sveitarfélagi á að fá,“ segir í bókun hans.
Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar, tók í sama streng og lagði einnig fram bókun á fundinum. Sagði hún launin í engu samræmi við almenna launaþróun í landinu og taldi hún að með engu móti væri hægt að styðja við þau launakjör sem hér væri um að ræða, sé tekið mið af umfangi sveitarfélags Garðabæjar.
„Þá er ráðningarsamningur við bæjarstjórann efnislega ófullnægjandi þegar horft er til þeirra réttinda og skyldna sem tilgreind eru í ráðningarsamningum í dag. Þannig er hvergi tilgreint hvernig greiðslum skuli háttað í séreignarsjóð, orlofssjóð, sjúkrasjóð, aðild í stéttarfélag o.þ.h.
Ennfremur ávinnslu orlofs, veikindadaga, réttinda úr sjúkrasjóði o.fl. Gildir þar einu hvort um almenn eða sérákvæði sé að ræða, ákvæðin þurfa að vera skýr gagnvart bæði launagreiðanda og launþega. Þá er hvergi minnst á hvernig greiðslum skuli háttað varðandi síma, net og annan aðbúnað eins og kveðið er á um í öllum ráðningarsamningum í dag,“ segir í bókun hennar.
Sagði hún þetta varða réttindi og skyldur bæði launþega og launagreiðanda og þyrfti samningurinn að vera skýr hvað þetta varðar.
Viðaukatillaga hennar var felld með atkvæðum Bjargar Fenger, Gunnars Vals Gíslasonar og Hrannars Braga Eyjólfssonar. Ingvar og Sara Dögg greiddu atkvæði með tillögunni.
Björg Fenger, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var þó ekki sammála gagnrýninni og vakti athygli á því að starfskjör bæjarstjórahafi bæði verið einfölduð og lækkuð frá því sem áður var. Horft hafi verið til starfskjara bæjarstjóra í sveitarfélögum í kring við gerð ráðningarsamningsins.
„Þess má geta að í ráðningarsamningnum er nú kveðið á um bifreiðastyrk vegna afnota bæjarstjóra á eigin bíl í stað þess að bæjarstjóra sé látið í té bifreið vegna starfsins. Fullyrðingu um að Garðabær sé á einhvern hátt að taka sér stöðu gegn almennri launaþróun í landinu er hafnað,“ segir í bókuninni sem hún lagði fram.