„Stundum þurfum við að vera grimm til að vera góð og þá er sama hvort við erum að tala um að vera grimm við okkur sjálf eða aðra þegar þannig ber undir,“ segir Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli:
„Stundum þurfum við að vera grimm til að vera góð og þá er sama hvort við erum að tala um að vera grimm við okkur sjálf eða aðra þegar þannig ber undir,“ segir Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli:
„Stundum þurfum við að vera grimm til að vera góð og þá er sama hvort við erum að tala um að vera grimm við okkur sjálf eða aðra þegar þannig ber undir,“ segir Linda Sigríður Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli:
Margir ruglast á samkennd og meðvirkni og kannski ekkert skrýtið þar sem þetta tvennt er nánast það sama í grunninn eða kærleikur og samúð. Það verður erfitt að setja mörk og vera á bremsunni þegar þær tilfinningar eru við völd.
Munurinn á þessu tvennu er þó sá að sá sem hefur samkenndina veit að stundum þarf að sýna sjálfum sér og öðrum hörku og aga til að hleypa að því sem betra er fyrir okkur inn í lífið. Sá meðvirki vill á hinn bóginn taka á sig allt sem gera þarf og verður í leiðinni yfirkeyrði miskunnsami Samverjinn. Samverjarnir eiga það nefnilega til að gera of mikið fyrir þá sem eru í erfiðleikum eða leyfa þeim að komast upp með allt of mikið af rugli og vitleysu, einungis í nafni kærleikans og eða samkenndar en oft og iðulega án árangursins sem þeir vilja svo gjarnan ná og sjá.
Við mennirnir erum sérkennilega samansettir. Það er eins og við þurfum að fá nokkra skammta af mótlæti til að læra og þroskast. Því er samkenndin, eða réttara sagt meðvirknin, alls ekki það sem við þurfum þegar þroskaskeiðin okkar birtast í formi erfiðleika og umbreytinga sem krefja okkur þess að við endurfæðumst til nýrrar þekkingar, uppljómunar og til nýrra leiða í lífinu.
Okkur var aldrei lofað að gangan hér á jörðu yrði átakalaus og án hindrana. Við látum stundum eins og að það sé þannig og neitum að taka við lærdómnum sem í ögun lífsins felst. Það er draumastaða miskunnsama Samverjans sem tekur það þá bara að sér.
Ekkert er þó mikilvægara fyrir okkur til að efla raunverulega samkennd okkar og til að við lærum að greina á milli meðvirkni og samkenndar en það að horfast í augu við ótta okkar og vanmátt og sigrast á hvoru tveggja. Taka þannig við lærdómi og þekkingu þess sem hefur farið í gegnum eldinn og getur í raun þá fyrst stutt þann sem stendur frammi fyrir svipuðu verkefni.
Ég hugsa að við höfum flest heyrt orðið „þroskaþjófur“ en það er einmitt manneskjan sem tekur frá þér ábyrgðina og þroskann sem felst í því að horfast í augu við lífið og sjálfan þig í öllum birtingamyndum. Við þekkjum einnig flest dæmi um manneskjur sem streða við að halda öðrum á floti með því að taka ábyrðina af þeim. Í flestum tilfellum veldur það einungis þjáningu þess sem ábyrgðina missir. Því fyrr eða seinna kemur næsta verkefni og þá hafa þessir einstaklingar ekki kjarkinn eða þekkinguna sem fæst með æfingunni til að takast á við verkefnið og þar með missa þeir einnig af sjálfsvirðingunni sem fæst með því að sigrast á þeim verkefnum sem við fáum í fangið.
Með ábyrgðarleysinu fer líka ákvörðunarvaldið. Við feykjumst um eins og lauf í vindi og látum aðra um að stjórna lífi okkar. Og líður best ef við getum bara látið lítið fara fyrir okkur og höfum fá orð um að taka ábyrgðina eða nýta ákvarðanafrelsið sem okkur var gefið í vöggugjöf. Þannig verðum við að leikbrúðum í dúkkuleikhúsi þeirra sem um stjórnartaumana halda en missum því miður af okkar eigin draumum, vonum og væntingum til lífsins í leiðinni.
Náttúran og sagnamenn/konur aldanna hafa verið dugleg við að sýna okkur ágóðann sem fæst af erfiði og ábyrgð þegar tekist er á af einurð við erfiðleikana/verkefnin og fjöldinn er til af táknrænum sögnum um upprisu og endurnýjun sem hefur haft betri tíð og aukinn þroska í för með sér.
Líklega er sagan um Jesú á krossinum frægust, ásamt sögunum um fuglinn Fönix.
Fönixinn var stór, fallegur sagnafugl sem var sagður getað lifað í 500 ár. Þegar fuglinn fann að tími var kominn á það að hann dæi, þá flaug hann til Egyptalands, bjó þar til hreiður og lagði eld að því. Úr öskunni átti svo að rísa nýr Fönix. Fönixinn er nefndur bæði í grískri og rómverskri goðafræði og í báðum þessum trúarbrögðum var guð sólarinnar táknaður með eldfuglinum Fönix.
Þessi saga minnir mig á þau tímabil þar sem við breytumst og sjáum lífið frá öðru sjónarhorni og þurfum að ganga í gegnum eld og brennistein til að skapa okkur nýtt og fallegt líf úr leifunum af því gamla.
Svo má ekki gleyma því hvernig náttúran gefur okkur einnig sömu fyrirmyndina eins og til dæmis með tilvist og lífi ameríska arnarins en saga hans er góð táknræn mynd fyrir okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum og oft sársaukafullum ákvörðunum fyrir líf okkar.
Sagan um örninn sem getur getur lifað í allt að 70 ár er mjög merkileg fyrir margra hluta sakir. Til að ná þessum 70 árum þarf örninn að taka mjög svo erfiða ákvörðun á 40. aldursári. Þá getur langur og sveigjanlegur goggur arnarins ekki lengur gripið bráðina sem hann veiðir sér til matar, því að goggurinn verður bitlaus. Hann nær ekki að hreinsa fjaðrir sínar með honum sem veldur því að hann á erfitt með flug. Því hefur hann á þessum tímapunkti hann aðeins um tvennt að velja - að deyja, eða fara í gegnum sársaukafullt breytingaferli sem felst í því að slá goggnum við stein þar til hann hefur náð að rífa hann af sér. Eftir það sársaukafulla ferli þarf hann að bíða eftir því að nýr goggur vaxi. Þá fyrst getur hann hreinsað fjaðrir sínar og hafið sig til flugs á ný.
Þetta ferli tekur 150 daga eða 5 mánuði en hann fær í staðinn að lifa í um það bil 30 ár til viðbótar.
Þetta lífshlaup arnarins finnst mér góð líking við líf okkar mannanna. Því það er erfitt að standa upp eftir áföll og erfiðleika og fara á fætur hvern morgun staðráðinn í því að gera daginn góðan þrátt fyrir erfiðar aðstæður í lífinu og það getur verið langt, einmanalegt og sársaukafullt ferli.
Þeir sem farið hafa í gegnum heilsubrest, skilnað, missi og fleira vita vel hvað ég er að tala um. Að hefja lífið að nýju er eins og reyna að smíða eitthvað gott úr sársaukanum og taka ákvörðun um að gera það sem þarf til þess að gera lífið gott á ný, einn dag í einu.
Í því ferli þurfum við ekki á „þroskaþjófum“ að halda heldur samkennd sem segir „þú getur þetta“ og „ég stend með þér í þeim ákvörðunum sem þú tekur“, „eltu draumana þína“ og „ég er til staðar“ því að okkur þykir öllum gott að hafa hönd til að grípa í stöku sinnum þegar á móti blæs.
Örninn er einnig góður kennari í ómeðvirkri samkennd sem þekkir erfiðleika lífsins og á nægjanlega ást til unga sinna til að treysta þeim fyrir því að takast á við lífið á eigin vegum. Þegar kominn er tími á að ungarnir fari úr hreiðrinu, stingur örninn oddhvössum greinum, sem áður stóðu út úr hreiðrinu, inn á við svo að það fari nú afar illa um ungana. Svo illa að þeir vilji helst yfirgefa hreiðrið og fljúga sjálfir út í hinn stóra ógnvænlega en þó dásamlega heim.
Til að kenna þeim að fljúga og bjarga sér fleygir örninn þeim fram af bjargbrúninni (arnarhreiðrin eru á hæstu tindunum)og grípur þá ekki fyrr en þeir eru um það bil að snerta jörðina. Þetta gerir hann aftur og aftur þar til þeir hafa lært að fljúga sjálfir.
Dásamlegur tær kærleikur þarna á ferð. Kærleikur sem veit að stundum þarf samkenndin að hafa birtingamynd hörkunnar og jafnvel grimmdar til að hún skili því besta fyrir þann sem við elskum og viljum aðeins það besta fyrir.
En til að enda þennan pistil, þá segi ég bara að lokum:
Gangi þér vel lesandi góður, að takast á við lífsverkefni þín og að njóta ávaxtanna sem fæðast af erfiði þínu. Ávaxta sem verða líklega í formi styrks, hugrekkis, aukins sjálfstrausts og gleði þess sem veit að þetta erfiði var allt þess virði að lokum.
Ef ég get verið þér innan handar í þínum lífsins verkefnum þá er ég, eins og alltaf, aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.