Biðflokkur ekki ávísun á að vernd verði raskað

Rammaáætlun | 12. júní 2022

Biðflokkur ekki ávísun á að vernd verði raskað

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, reiknar með því að rammaáætlunin verði samþykkt, þrátt fyrir að tillögur um að flytja svæði úr verndarflokki í biðflokk hafi verið gagnrýndar.

Biðflokkur ekki ávísun á að vernd verði raskað

Rammaáætlun | 12. júní 2022

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna.
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna. mbl.is/Hákon

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, reiknar með því að rammaáætlunin verði samþykkt, þrátt fyrir að tillögur um að flytja svæði úr verndarflokki í biðflokk hafi verið gagnrýndar.

Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, reiknar með því að rammaáætlunin verði samþykkt, þrátt fyrir að tillögur um að flytja svæði úr verndarflokki í biðflokk hafi verið gagnrýndar.

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt fram nefndarálit um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Héraðsvötn, sem eru í verndarflokki, verða færð í biðflokk, nái áætlunin fram að ganga.

„Ég held að þetta séu ákveðin tímamót í afgreiðslu á rammaáætlun, þriðji áfangi áætlunarinnar sem er til umfjöllunar hefur auðvitað verið lagður fyrir þingið þrisvar sinnum áður og ekki hlotið afgreiðslu, þannig að ef hann verður afgreiddur nú, og ég hef svo sem enga ástæðu til þess að halda annað, eru það í sjálfu sér ákveðin tímamót,“ segir Orri í samtali við mbl.is.

Ekki markmið að setja Héraðsvötn í nýtingarflokk

Spurður um tillögu um að færa Héraðsvötn úr verndarflokki, segir Orri Páll það alls ekki markmiðið með tilfærslunni að koma svæðinu í nýtingarflokk.

„Vinna þingsins tekur í raun ekkert á því, eitt er að fara í nýtingarflokk og annað er að það verði nýtt. Þegar niðurstaða mats verkefnisstjórnar liggur fyrir og Alþingi hefur afgreitt virkjunarhugmynd í nýtingarflokk þá fyrst getur virkjunaraðili sótt um virkjunarleyfi. Það er Orkustofnun sem sér um útgáfu virkjunarleyfis og svo liggur ákvörðun hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi um að veita framkvæmdaleyfi fyrir virkjun.“

„Í tilfelli Héraðsvatna eru uppi einhver áhöld um að þarna hafi náttúruverðmæti hugsanlega verið ofmetin. Það eru skoðanir einhverra og því leggur meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar til að þetta verði endurmetið og það verði skorið úr um þetta, enda sex ár liðin frá því verkefnisstjórn skilaði sínum tillögum.“

Bendir Orri Páll á að það hafi verið gagnrýnt að verið sé að flytja kosti yfir í biðflokk þegar fyrir liggur vísindalegt mat.

„Þó svo að eitthvað sé flutt úr verndarflokki yfir í biðflokk þýðir það ekki að það fari beint yfir í nýtingarflokk og þaðan í nýtingu. Þannig að tilfærslan nú er ekki ávísun á að verndinni verði raskað en sannarlega eru mjög rík náttúruverðmæti til staðar á þessum svæðum sem gerir það að verkum að það er tillaga vísindamanna að setja eitthvað í verndarflokk. Þau náttúruverðmæti eru ekki farin en ég hef alveg skilning á því að það eru skiptar skoðanir á þessari tilfærslu nú.“

Ákveðnir kostir þarfnist endurmats

„Þetta hefur verið mjög umdeilt eins og við vitum, það er náttúrulega ein af ástæðunum fyrir því að afgreiðsla á rammaáætlun hefur ekki verið kláruð, en þetta hefur líka verið mjög umfangsmikið,“ segir Orri.

„Biðflokkurinn þýðir í rauninni bara að þessar ákveðnu virkjunarhugmyndir þurfi að fara í endurmat, það er að segja verkefnisstjórn sem er faglega skipuð og byggir sína vinnu á faglega skipuðum vísindamönnum í faghópum, hún þarf að endurmeta þessar hugmyndir.“

mbl.is