Jökulárnar verði settar í verndarflokk

Rammaáætlun | 14. júní 2022

Jökulárnar verði settar í verndarflokk

Vinstri græn í Skagafirði sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í dag, þar sem þau kröfðust þess að farið yrði eftir faglegu mati rammaáætlunar hvað varðar Jökulárnar í Skagafirði og þær verði settar í verndarflokk.

Jökulárnar verði settar í verndarflokk

Rammaáætlun | 14. júní 2022

Vinstri Græn í Skagafirði vilja að jökulárnar í firðinum verði …
Vinstri Græn í Skagafirði vilja að jökulárnar í firðinum verði settar í verndarflokk. Ljósmynd/Vinstri Græn í Skagafirði

Vinstri græn í Skagafirði sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í dag, þar sem þau kröfðust þess að farið yrði eftir faglegu mati rammaáætlunar hvað varðar Jökulárnar í Skagafirði og þær verði settar í verndarflokk.

Vinstri græn í Skagafirði sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í dag, þar sem þau kröfðust þess að farið yrði eftir faglegu mati rammaáætlunar hvað varðar Jökulárnar í Skagafirði og þær verði settar í verndarflokk.

Í yfirlýsingunni segir að Héraðsvötnin og Jökulárnar móti ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. „Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi.“

Þar segir einnig að þýðing vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska sé einnig ómetanleg. „Ferðaþjónusta í Skagafirði er í vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu, enda einstakar á heimsvísu,“ segir í yfirlýsingunni.

Vatnasvið Héraðsvatna með hæsta verðmætamatið

Þá er vísað til rökstuðnings faghóps rammaáætlunar 3, en þar segir meðal annars að vatnasvið Héraðsvatna sé „með hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga og þá er virkjunarkosturinn Skatastaðavirkjun C með næsthæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem faghópurinn fjallaði um.“

Faghópurinn bendir einnig á að virkjunarkosturinn sé á svæði sem er „óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu og virkjun á svæðinu mundi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, svo og á sífrerarústum og fleiri fyrirbærum sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Virkjun myndi slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera, hafa mikil neikvæð áhrif á vistgerðir með verulegt verndargildi samkvæmt náttúruverndarlögum og valda mikilli röskun vegna breytinga á rennsli og framburði, sérstaklega á flæðiengjum sem hafa mikið vistfræðilegt gildi og eru þær umfangsmestu á landinu. Þá gætu framkvæmdirnar spillt stórum minjaheildum í Austur- og Vesturdal frá árunum 870-1400, sem jafnvel eru einstakar á heimsvísu. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænni fjölbreytni og á fágætum landslagsgerðum.”

Vinstri græn í Skagafirði ítreka því rökstuðning faghóps rammaáætlunar 3 og krefjast þess að farið verði eftir faglegu mati og um leið þeirri faglegu sátt sem rammaáætlun er ætlað að skapa. „Vinstri græn í Skagafirði leggjast alfarið gegn því að Jökulárnar verði færðar úr verndarflokki yfir í biðflokk í meðferð þingsins á rammaáætlun 3,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.

mbl.is