Alda sem virkar saklaus er það ekki endilega

Alda sem virkar saklaus er það ekki endilega

Miðað við öldukort var ölduhæðin um fjórir metrar í sjónum við Reynisfjöru á föstudag, sama dag og alda hreif ferðamann með sér með þeim afleiðingum að hann lést. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, hefur nú birt ölduhæðarspá á veðurvefnum Blika.is þar sem leiðsögumenn og almenningur geta fylgst með því sem búast má við í Reynisfjöru á degi hverjum.

Alda sem virkar saklaus er það ekki endilega

Banaslys í Reynisfjöru 10. júní | 15. júní 2022

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar hafa mörg slys …
Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Þar hafa mörg slys átt sér stað og hafa sum þeirra endað með andláti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við öldukort var ölduhæðin um fjórir metrar í sjónum við Reynisfjöru á föstudag, sama dag og alda hreif ferðamann með sér með þeim afleiðingum að hann lést. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, hefur nú birt ölduhæðarspá á veðurvefnum Blika.is þar sem leiðsögumenn og almenningur geta fylgst með því sem búast má við í Reynisfjöru á degi hverjum.

Miðað við öldukort var ölduhæðin um fjórir metrar í sjónum við Reynisfjöru á föstudag, sama dag og alda hreif ferðamann með sér með þeim afleiðingum að hann lést. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, hefur nú birt ölduhæðarspá á veðurvefnum Blika.is þar sem leiðsögumenn og almenningur geta fylgst með því sem búast má við í Reynisfjöru á degi hverjum.

Spáin næstu daga er slæm hvað varðar ölduhæð en miðað við hana verður ölduhæðin merkt rauð út vikuna, þ.e. nokkuð yfir meðalhæð kenniöldu á þeim tíma.

Spurður um það hvort það sé ekki hættulegt fyrir fólk að vera á svæðinu þegar háum öldum er spáð segir Einar:

„Þá þurfa menn bara að vera fjarri. Þær verða hættulegri eftir því sem þær eru stærri.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

Þurfa reynslu til þess að átta sig á fleiri áhrifaþáttum

Gögnin í spá Bliku koma frá opinni gagnamiðlun hjá norsku veðurstofunni og birtist spáin þar eins og mælaborð. Spágildið er borið saman við safn gilda úr endurgreiningu öldufars suður af landinu áratugi aftur í tímann. Þannig er miðað við meðalrófið í júnímánuði núna en í júlí er þá miðað við meðalrófið í júlí síðustu áratugi. Mælaborðið skiptist í þrjá liti: Grænan, gulan og rauðan.

„Sá græni er með 25% lægsta safn öldunnar, sá guli er með 50% miðjuna og rautt er ölduhæð sem kemur fyrir í hæsta fjórðungnum. Í júní liggja þessi efri mörk við um 1,4 m ölduhæð. Hærri alda en það kemur því að jafnaði fyrir í um 25% alls tímans. Venja er að tala um kenniöldu í tengslum við ölduhæð, því öldurófið sem t.d. skellur á ströndinni er nokkuð breytilegt eins og allir vita sem  fylgjast með öldugangi í fjöru um stund,“ segir í tilkynningu á vef Bliku um málið.

Einar segir að almennt sé fólk í betri málum ef það fer í fjöruna þegar spáin er græn en þegar hún er rauð. Hann tekur þó fram að fleira en ölduhæðin sjálf hafi áhrif á aðstæður í Reynisfjöru og við suðurströndina almennt.

„Það er fyrst og fremst ölduhæðin sem stjórnar þessu og það eru fleiri þættir sem koma inn og gerir það að verkum að þetta er heldur varhugaverðara. Menn þurfa reynslu og staðarhyggindi til þess að átta sig á þeim hlutum,“ segir Einar og nefnir öldulengdina, undirölduna, öldustefnuna, sjávarhæðina og sjávarföllin.

„Aðalatriðið er þessi háa alda sem lemur fjörunar og getur verið hættuleg ef menn eru of nálægt.“

Passa sig mögulega betur í vondu veðri

Á veturna er mun meira brim og öldugangur í Reynisfjöru en Einar segir að það sé ekki þar með sagt að hætta á slysum sé meiri.

„Almennt séð er meiri öldugangur og aldan lemur meira [á veturna]. En kannski passa menn sig betur þegar það er svona ruddi í veðrinu frekar en á svona góðviðrisdögum eins og núna þegar það er hlýtt og gott veður og aldan virkar saklausari sem hún er kannski ekki,“ segir Einar.

Hann jánkar því að gott veður geti gefið falskt öryggi í Reynisfjöru.

„Það eru mörg dæmi um það að það sé norðanátt en samt bullandi alda þó hún sé á móti vindinum. Norðanátt og bjartviðri eins og gjarnan er í Mýrdalnum í þessari vindátt.“

„Það var mikil alda þennan dag“ 

Veist þú hversu mikil ölduhæðin var sl. föstudag, þegar þetta hræðilega slys varð? 

„Ef maður les af öldukortum sem t.d. eru birt á Veðurstofuvefnum þá gerði spáin ráð fyrir því að ölduhæðin hafi verið um fjórir metrar. Ég held að það sé ekki fjarri lagi. Það var mikil alda þennan dag,“ segir Einar. 

Aðspurður segist hann ekki vilja leggja mat á það hvort loka eigi fjörunni þegar ölduhæðin er mikil. Hann einbeiti sér að því að gefa út upplýsingar um ölduhæðina.

Nánar má lesa um ölduspána hér en hún er aðgengileg þegar notandi slær inn „Reynisfjara“ í leitargluggann efst á síðu Bliku og smellir svo á þann dag sem rýna á í spá um.

mbl.is