„Það var mjög erfitt að kveðja“

Borgin mín | 18. júní 2022

„Það var mjög erfitt að kveðja“

Kaupmannahöfn hefur alltaf heillað Ragnheiði Birgisdóttur blaðamann. Hún lét gamlan draum rætast, þegar hún flutti til Kaupmannahafnar fyrir nokkrum árum til þess að stunda meistaranám í bókmenntafræði. 

„Það var mjög erfitt að kveðja“

Borgin mín | 18. júní 2022

Ragnheiður Birgisdóttir bjó í tvö ár í Kaupmannahöfn þar sem …
Ragnheiður Birgisdóttir bjó í tvö ár í Kaupmannahöfn þar sem hún stundaði meistaranám í bókmenntafræði. Ljósmynd/Aðsend

Kaupmannahöfn hefur alltaf heillað Ragnheiði Birgisdóttur blaðamann. Hún lét gamlan draum rætast, þegar hún flutti til Kaupmannahafnar fyrir nokkrum árum til þess að stunda meistaranám í bókmenntafræði. 

Kaupmannahöfn hefur alltaf heillað Ragnheiði Birgisdóttur blaðamann. Hún lét gamlan draum rætast, þegar hún flutti til Kaupmannahafnar fyrir nokkrum árum til þess að stunda meistaranám í bókmenntafræði. 

„Ég kom þangað á hverju sumri sem barn og á góðar minningar úr borginni. Ég var alltaf sú eina í bekknum sem elskaði dönskutíma svo það kom kannski engum á óvart að ég skyldi vilja fara þangað í nám. Sem var einmitt það sem ég gerði, eins og svo margir aðrir Íslendingar, þegar ég kláraði BA-námið hérna heima. Ég bjó þar í tvö ár meðan ég var í MA-námi í bókmenntafræði, flutti svo aftur heim síðasta sumar þegar ég kláraði námið og bauðst starf hér heima,“ segir Ragnheiður. 

Kaupmannahöfn er þægilega stór borg

Ragnheiður kunni afar vel við sig í Kaupmannahöfn og viðurkennir að hún sakni þess að búa í borginni.

„Ég sakna þess að fara út úr húsi og mæta einhverju nýju á hverju götuhorni. Þræða hliðargötur, kíkja inn um búðarglugga og prófa ný kaffihús. Ég sakna þess líka að hverfa í fjöldann. Hér heima fer maður varla út úr húsi án þess að rekast á einhvern sem maður þekkir, sem getur verið dásamlegt, en það er líka eitthvað frelsandi við að vera einn í heiminum í stórri borg. Köben er af alveg réttri stærð fyrir mig, nógu stór til þess að maður fái að upplifa stórborgarfílínginn en líka nógu lítil til þess að verða fljótt heimilisleg.

Svo á ég góða fjölskyldu og vini í borginni sem ég sakna auðvitað að hitta reglulega. Það var mjög erfitt að kveðja og ég held í vonina að þetta hafi ekki verið mín síðustu ár í Köben. Þangað til verða allir frídagar, sumur og vetur, nýttir í heimsóknir – eða svona næstum.“

Það er sniðugt að hjóla í Kaupmannahöfn.
Það er sniðugt að hjóla í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Nørrebro í uppáhaldi

Áttu þér uppáhaldshverfi í borginni? 

„Ég bjó úti á Amagerbro og þykir mjög vænt um þann stað. En ætli Nørrebro sé samt ekki í uppáhaldi. Þar eru svo margir skemmtilegir veitingastaðir og barir. Þar er líka mjög skemmtilegt og svolítið alþjóðlegt mannlíf. Þar er alls konar fólk frá hinum ýmsu stöðum í heiminum, sem gerir matarmenninguna líka mjög skemmtilega.

Vesterbro er líka ofarlega á listanum. Þar er auðvitað Kødbyen með sinn góða mat og sitt góða næturlíf. Svo er mjög auðvelt að finna vegan valkosti í þessum hverfum sem gerir lífið auðveldara fyrir fólk eins og mig.“

Blågårdsgade á Nørrebro. Á myndinni sést glitta í dumplingastaðinn GAO.
Blågårdsgade á Nørrebro. Á myndinni sést glitta í dumplingastaðinn GAO. Ljósmynd/Aðsend


Áttu þér uppáhaldsveitingastað og kaffihús í borginni?

„Af kaffihúsum verð ég að nefna Kaf sem liggur í mjög fallegri götu úti á Nørrebro og er algjört himnaríki fyrir grænkera. Svo stendur La Glace, sem er að finna í hliðargötu við Strikið, alltaf fyrir sínu. Þótt það sé auðvitað svolítið vinsælt hjá ferðamönnum þá hefur því tekist að halda í andrúmsloftið sem hefur einkennt staðinn í hundrað og fimmtíu ár. Alltaf svolítil upplifun að koma þangað.

Svo var ég fastagestur, bæði á GAO Dumpling Bar eða La Neta. Báðir staðirnir eru með fleiri en eitt útibú, þá er báða að finna bæði á Nørrebro og á Vesterbro, tveimur skemmtilegustu hverfunum. Þeir eru frekar hversdagslegir; Gao með strangheiðarlega dumplinga, bæði soðna og steikta og svo gott tofu og La Neta með frábæran mexíkóskan mat, sterka salsa, mezcal og Mikkeller-bjór á krana.

Í góðu veðri er mjög gaman að borða úti á Reffen eða Broens Gadekøkken. Það eru skemmtilegt staðir með ótal matarvögnum og ef maður hefur gaman af götumatarstemningu þá verður fólk að kíkja þangað.“

Á sólardögum nýtur Ragnheiður þess að sitja í Kongens have.
Á sólardögum nýtur Ragnheiður þess að sitja í Kongens have. Ljósmynd/Aðsend


Hvar er best að versla?

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekkert rosalega dugleg að versla. Strikið og ekki síður göturnar í kring standa alveg fyrir sínu. En ef mann langar að upplifa eitthvað annað eru skemmtilegar verslunargötur í flestum hverfum borgarinnar, þar sem maður getur fundið litlar búðir með karakter. Jægersborggade við Assistens-kirkjugarðinn er gott dæmi eða Vesterbrogade á Vesterbro og göturnar þar í kring.“

Ljósmynd/Aðsend

Huggulegheit og aftur huggulegheit

Hvernig er fullkominn dagur í Kaupmannahöfn? 

„Ég myndi byrja daginn á góðum morgunmat eða bröns, til dæmis á Kaf. Síðan myndi ég ganga í gegnum bæinn á Statens museum for kunst, ríkislistasafnið. Þar á ég nokkur uppáhaldsverk sem ég verð að heilsa upp á reglulega. Byggingin er líka svo falleg, bæði gömlu hlutar hennar og þeir nýju, og það fylgir því einhver góð blanda af ró og innblæstri að koma þangað inn.

Það er auðvitað klassískt að fá sér gott smørrebrød í hádegismat, það er í boði á öðru hverju kaffihúsi og danskt rúgbrauð er bara það besta sem ég veit.

Ljósmynd/Aðsend


Ef það er gott veður myndi ég eyða síðdeginu í sólinni í Kongens Have eða á Íslandsbryggju, lesa góða bók og fylgjast með mannlífinu. Ef veðrið er ekki með okkur í liði færi ég kannski í bíó í Grand Teatret, gömlu bíóhúsi í hjarta borgarinnar, þar sem úrvalið er virkilega gott, smá svona Bíó Paradís Kaupmannahafnar. Þar er líka gott kaffi og veitingar að fá og gaman að fylgjast með heimamönnum koma og fara.

Svo myndi ég enda daginn úti á Nørrebro. Matur og drykkur á Blågårdsgade eða Ravnsborggade, mjög huggulegum götum þar sem hægt er að sitja úti ef vel viðrar. Þar myndast alltaf góð stemning, mikið um ungt fólk sem kann að hafa það huggulegt eins og Dönum einum er lagið.“

Værnedamsvej, hliðargata við Vesterbrogade, hefur að geyma skemmtilegar búðir og …
Værnedamsvej, hliðargata við Vesterbrogade, hefur að geyma skemmtilegar búðir og kaffihús. Ljósmynd/Aðsend


Eru einhverjar ferðamannagildrur í Kaupamannahöfn?

„Það er ekkert að því að eyða deginum á Strikinu, siglingu um síkin, í bjór í Nyhavn og enda svo í Tívolí. En ef mann langar að komast út fyrir túristapakkann mæli ég með að fara aðeins út fyrir miðbæinn. Hverfin sem eru í 10-15 mínútna göngufjarlægð frá miðbænum eru svo skemmtileg. Það er eiginlega alveg sama í hvaða átt maður fer. Allan hringinn er eitthvað nýtt að sjá, Vesterbro, Frederiksberg, Nørrebro, Østerbro og svo auðvitað Christianshavn, hinum megin við höfnina. Bara ganga eða hjóla af stað og sjá hvert daginn leiðir.“

Vegan ísbúðina Nicecream er meðal annars að finna á Nørrebro, …
Vegan ísbúðina Nicecream er meðal annars að finna á Nørrebro, þar sem vegan valkostirnir eru margir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is