Verum vakandi, forvarnarstarf lögreglunnar, mun koma í stað Bleika fílsins á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Þetta staðfestir Hörður Orri Grettisson formaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við mbl.is.
Verum vakandi, forvarnarstarf lögreglunnar, mun koma í stað Bleika fílsins á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Þetta staðfestir Hörður Orri Grettisson formaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við mbl.is.
Verum vakandi, forvarnarstarf lögreglunnar, mun koma í stað Bleika fílsins á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Þetta staðfestir Hörður Orri Grettisson formaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við mbl.is.
Eins og greint hefur verið frá tilkynnti forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn í gær að hann hafi ákveðið að hætta eftir tíu ára starf í Herjólfsdal. Hópurinn var stofnaður 2012 og hefur síðan þá verið í samstarfi við þjóðhátíðarnefnd og verið mjög áberandi í baráttunni gegn kynferðisofbeldi.
Hörður segist harma það að Bleiki fíllinn hafi ákveðið að hætta starfsemi en þakkar hópnum innilega fyrir óeigingjarnt og vel unnið starf.
Aðspurður segir hann að það hafi ekki komið þeim á óvart þegar að hópurinn tilkynnti að hann ætlaði að hætta í gær.
„Þau létu okkur vita fyrir nokkrum vikum síðan að þau ætluðu að hætta. Þetta var bara einhliða ákvörðun hjá þeim sem er leiðinlegt því þetta var gott samstarf og ótrúleg og óeigingjörn vinna sem þau eiga að baki,“ segir Hörður og þakkar Bleika fílnum kærlega fyrir ómetanlegt starf.
Hörður bætir við að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur þar sem enn verði virkt forvarnarstarf og eftirlit á Þjóðhátíð. Hann bendir á að hafið sé samstarf við verkefnið Verum vakandi sem er átak hjá ríkislögreglustjóra sem mun koma í stað Bleika fílsins á hátíðinni.
„Við erum í samstarfi við þau með forvarnir, það verður enn þá forvarnarmyndband á stóra skjánum og seldur forvarnar varningur og fleira sem Bleiki fíllinn hefur staðið fyrir.“
Hann segist búast við því að merki Bleika fílsins muni enn sjást í Herjólfsdal yfir hátíðina og hvetur fólk til að taka fram varning frá hópnum og klæðast bleiku á meðan á Þjóðhátíð stendur.
Hörður ítrekar þá að enn muni fara fram mikið eftirlitsstarf á Þjóðhátíð eins og undanfarin ár. „Það verður mikið eftirlit í dalnum. Við erum með fjölmenna gæslu og mikið af eftirlitsmyndavélum.“ Hann segir að um 30 til 40 myndavélar verði á hátíðarsvæðinu.
Hörður segir að allt gangi vel hvað varðar undirbúning fyrir verslunarmannahelgina og að mikil tilhlökkun sé til staðar hjá honum og öðrum sem koma að hátíðinni.