Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir íslensk stjórnvöld ætla að virkja fleiri ár. Auk þess verði jarðhiti og vindorka nýtt í meiri mæli.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir íslensk stjórnvöld ætla að virkja fleiri ár. Auk þess verði jarðhiti og vindorka nýtt í meiri mæli.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir íslensk stjórnvöld ætla að virkja fleiri ár. Auk þess verði jarðhiti og vindorka nýtt í meiri mæli.
Í þætti breska ríkisútvarpsins BBC, The Compass, í dag er fjallað um umhverfisvæna orku á Íslandi og heimsótti einn þáttastjórnenda, Allan Little, landið og ræddi möguleikana á umhverfisvænni orkuvinnslu en þátturinn er sá þriðji í þáttaröðinni Græn orka: Nokkrar óþægilegar staðreyndir, eða Green Energy: Some inconvenient Truths.
Á meðal viðmælenda Little er Guðlaugur Þór og innir Little hann eftir því hvort til standi að virkja enn frekar á Íslandi.
„Við erum með svokallaða rammaáætlun sem við uppfærum á fjögurra ára fresti,“ segir ráðherra.
„Til að setja hlutina í samhengi samanstendur hún af þremur þáttum: því sem við ætlum að nota, því sem við ætlum að athuga betur og því sem við ætlum að vernda og ekki snerta,“ heldur hann áfram.
Fyrir Alþingi liggi nú frumvarp sem, verði það að lögum, heimili aukna orkunotkun sem nemi 1.004 megavöttum og inni í þeirri aukningu sé vatnsorka, jarðhiti og vindorka.
„Svo þetta táknar að þið hyggist virkja fleiri ár?“ spyr Little.
„Já, en við reynum líka að nýta þær virkjanir, sem við höfum nú þegar, betur og reyna að ná fleiri megavöttum út úr þeim,“ segir ráðherra.
Ræðir Little einnig við ýmsa viðmælendur, svo sem Maríu Þorgerði sem hann segir tilheyra nýrri kynslóð umhverfisathafnasinna á landinu.
María, sem kveðst hafa alist upp á Austurlandi, segir frá byggingu virkjunar við Kárahnjúka, þar sem stórt erlent fyrirtæki hafi komið og haft uppi fögur fyrirheit. Hún hafi þá séð sæng sína upp reidda og tekið ákvörðun um að hún vildi aldrei sjá nokkuð í líkingu við þessa framkvæmd aftur.
Andri Snær Magnason er næsti viðmælandi Little. Hann segir að vistvæn orka sé blessun og greinir frá hitaveituframkvæmdum í Reykjavík fyrir tæplega eitt hundrað árum og sundlaugum í Reykjavík sem þá urðu til.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir Little, þar sem þeir ræða saman við Dalslaug í Úlfarsárdal, að sundlaugar séu það sem torgin voru Forn-Grikkjum, samkomustaðir þar sem fólk kom saman og ræddi um daginn og veginn. Reykjavík standi beinlínis byggða ofan á „gullinu okkar“, jarðhitanum.
Árni Magnússon, forstjóri Íslenskra orkurannsókna, útskýrir starfsemi fyrirtækisins í stuttu máli og hve auðvelt sé að nýta jarðhita á Íslandi.