Elsku Bogmaðurinn minn,
Elsku Bogmaðurinn minn,
þú þarft að hafa mikið að gera og marga möguleika til að stefna langt. Þú þolir ekki vinnustaði eða skóla þar sem lognmolla er allt í kringum þig. Þá finnst þér eins og þú sért að brotna niður, en samt akkúrat á þeirri sekúndu ertu að byggja þig upp. Því þú gerir þér ljóst hvað þú vilt og hvað er vonlaust fyrir þig.
Þú hefur töluverða hræðslu um afkomu og það hindrar kannski hástökkið sem þú þarft að taka. En ef þú skoðar vel síðustu ár þá hefur allt bjargast hjá þér sérstaklega þegar þú veðjar á sjálfan þig. Því ef þú stólar of mikið á aðra og að aðrir vinni fyrir þig lífið, þá ertu bara viðhengi á einhverju stóru skjali sem enginn opnar.
Það eru sömu erfiðu tilfinningarnar sem skreyta þig þó þú sért á toppnm eða í óreiðu að gera ekki neitt. Þú getur ekki ráðið því þó aðrir reyni að setja fótinn fyrir þig og fella, þú skalt bara muna að þú átt að standa strax upp. Og það skiptir engu máli hver staða þín er, því þú ert fæddur sigurvegari svo vorkenndu þér ekki. Það er versta tilfinning sem þú getur leitað eftir.
Það er sterkum kafla í lífi þínu að ljúka og næsti kafli nær yfir í miðjan desembermánuð. Og hvort sem það tegist því að þú þurfir að berjast fyrir þínu eða að þú þeysist áfram í gleðinni, þá verður útkoman töluvert öðruvísi og betri en þú hefur hugmynd um.
Þú ert stríðsmaður og átt ekki að láta aðra setja þig í eitthvað hólf, því hólf hentar þér alls ekki. Þú tapar peningum með einhversskonar gáleysi, en færð þá aftur þótt ótrúlegt megi virðast. Þú notar þrjóskuna þína og stríðshæfileika til að vinna þessa orrustu sem annaðhvort þú hefur sett þig í, hvort sem þér finnst hún óréttlát eða ekki. Með þessu hrífurðu svo marga og tekur til þín það vald sem vantar. Það er sannarlega mín von að það séu margir Bogmenn á alþingi eða meistarastjórnendur eins og Winston Churchill, eða snillingur eins og Frank Sinatra sem söng „I did it my way“.
Knús og kossar,
Sigga Kling