Heidi breytti um lífsstíl á Kanarí

Lífsstílsbreyting | 11. september 2022

Heidi breytti um lífsstíl á Kanarí

Listakonan Heidi Strand hefur undanfarin ár dvalið um þrjá mánuði á Kanaríeyjum yfir háveturinn ásamt eiginmanni sínum Matthíasi Kristiansen. Þegar þau dvelja ytra breytist lífstakturinn; þau ganga meira og borða hollari mat. Í síðustu dvöl tóku hjónin mataræðið og lífsstílinn enn fastari tökum en áður og Heidi hefur ekki verið í jafn góðu formi í nær 15 ár. 

Heidi breytti um lífsstíl á Kanarí

Lífsstílsbreyting | 11. september 2022

Heidi Strand breytti um lífsstíl á sólríku eyjunni sem Íslendingar …
Heidi Strand breytti um lífsstíl á sólríku eyjunni sem Íslendingar elska. Ljósmynd/Samsett

Listakonan Heidi Strand hefur undanfarin ár dvalið um þrjá mánuði á Kanaríeyjum yfir háveturinn ásamt eiginmanni sínum Matthíasi Kristiansen. Þegar þau dvelja ytra breytist lífstakturinn; þau ganga meira og borða hollari mat. Í síðustu dvöl tóku hjónin mataræðið og lífsstílinn enn fastari tökum en áður og Heidi hefur ekki verið í jafn góðu formi í nær 15 ár. 

Listakonan Heidi Strand hefur undanfarin ár dvalið um þrjá mánuði á Kanaríeyjum yfir háveturinn ásamt eiginmanni sínum Matthíasi Kristiansen. Þegar þau dvelja ytra breytist lífstakturinn; þau ganga meira og borða hollari mat. Í síðustu dvöl tóku hjónin mataræðið og lífsstílinn enn fastari tökum en áður og Heidi hefur ekki verið í jafn góðu formi í nær 15 ár. 

„Ég hef verið slæm í hnjánum síðastliðin tæp 30 ár en hélt mér lengi verkjalausri með því að æfa og vera í kjörþyngd. Í kjölfar veikinda og hormónabreytinga fór ég að bæta á mig og Covid-tíminn gerði svo alveg útslagið. Það var mikil kyrrseta í Covid, við vorum meira heima og fórum ekki í ræktina. Ég var orðin nokkuð þung síðasta vetur og með slæma verki í hnjánum og víðar í líkamanum. Ég var sett á biðlista fyrir liðskipti í báðum hnjám fyrir nær ári en nú er ég hins vegar orðin svo hress að ég held ég fresti bara aðgerðinni sem ég hefði annars átt að fara í í haust,“ segir Heidi sem þakkar betri heilsu breyttum lífsstíl.
„Ég hef ekki verið í svona góðu formi í nær 15 ár, þetta er bara allt annað líf.“
Hjónin eru saman í heilsuræktinni.
Hjónin eru saman í heilsuræktinni.

Orkumeiri og verkjalaus

Heidi segist lengi hafa verið í hálfgerðri afneitum varðandi þyngdina. Hún fann fyrir auknu mittismáli en hafði sig ekki í að gera neitt í því. Verkirnir í hnjánum urðu meiri í takt við aukna þyngd og vegna þeirra veigraði hún sér við því að fara út að ganga og þannig vatt vandamálið upp á sig. Lífsstílsbreytingar sem þau hjónin hófu í febrúar hafa hins vegar fært bæði henni og eiginmanninum betri heilsu og unglegra útlit en samanlagt hafa þau losnað við 25 kíló.

„Eftir að ég breytti um lífsstíl er ég orðin orkumeiri og verkirnir eru horfnir. Ég á auðveldara með að hreyfa mig og er ekki eins stíf. Þá sef ég líka betur,“ segir Heidi og fer nánar út í hvaða breytingar þau hjónin gerðu á lífsstíl sínum.

„Við borðum núna meira prótín, grænmeti, ávexti, rúg og hafra en sleppum nær alveg öllum sykri, hvítu hveiti, rauðu kjöti, kartöflum, pasta og hrísgrjónum. Svo drekkum við mikið vatn og föstum alltaf í 14 tíma á sólarhring. Þetta var smá átak í fyrstu en núna langar mig ekki í hvítt brauð, feitar sósur eða kartöflur eftir að ég sá ávinninginn af þessu fæði því fljótlega eftir að ég byrjaði á þessu mataræði hurfu verkirnir og ég hef lést um 12 kíló. Og svo hef ég ekki neytt áfengis í nær fimm ár. Það á þó ekki við um eiginmanninn.“

Þessi mynd var tekin áður en Heidi fór á fullt …
Þessi mynd var tekin áður en Heidi fór á fullt í að bæta heilsuna.

Langar ekki í ruslmat

Heidi segist hafa spáð töluvert í mat og næringarfræði í gegnum lífið. Hún fór í hússtjórnarskóla á sínum tíma og er menntaður sjúkraliði en í náminu var farið mikið í næringarfræði. „Það er auðvelt að vita hvað maður á að gera, en svo leyfir maður sér aðeins meira en það sem er gott fyrir mann og þá blæs maður út. Og með aldrinum verður erfiðara að losa sig við aukakílóin, það er bara staðreynd,“ segir Heidi sem verður sjötug á næsta ári.

Fyrir 10 árum gerði Heidi róttæka breytingu á mataræði með það að markmiði að létta álagið á hnjánum. Þá valdi hún þá leið að telja kaloríur og neyta ekki fleiri en 1.500 hitaeininga á dag. „Það virkaði alveg, ég léttist um 10 kíló, en ég var ekki endilega að borða næringarríkan mat eins og ég geri núna. Mér líður miklu betur núna. Og það er svo skrítið að þegar þú færð góðan og næringarríkan mat þá hverfur löngunin í ruslmat. Núna finn ég bara svo mikinn mun á mér. Ég er búin að vera í svo góðum gír, er glaðari og með meiri orku. Það er frábært að vakna hress á morgnana.“

Appelsínusafi hrinti breytingum af stað

Heidi segir að það hafi hentað mjög vel að fara í þessar lífsstílsbreytingar á Kanarí þar sem er mjög gott úrval af fersku grænmeti og girnilegum ávöxtum. Veðráttan þar er líka þannig að hún hvetur þau hjónin til gönguferða. „Ég, sem gat áður varla gert húsverkin án þess að þurfa að setjast niður, fór að ganga 6-10 km á dag,“ segir Heidi ánægð. Hjónin eiga sér uppáhaldsbæ á norðurhluta Gran Canaria sem heitir Agaete. Þar geta þau valið um mismunandi gönguleiðir, bæði meðfram sjónum eða upp og niður tröppur og brattar götur inni í bænum, sem sé mjög styrkjandi að ganga.

Heidi segir að í þessi ár sem þau hjónin hafi heimsótt eyjarnar að vetrarlagi hafi þau alltaf fundið fyrir jákvæðum áhrifum af hitanum og sólinni en ekki hugsað um að gera álíka lífsstílssbreytingu fyrr en núna. Heidi útskýrir að mikil drykkja á appelsínusafa hafi eiginlega ýtt breytingunum úr vör.

„Mér finnst nýpressaður appelsínusafi mjög góður og drakk mikið af honum þegar við vorum úti. Sýran fór hins vegar illa í liðina og ég varð fljótlega svo slæm að ég gat varla gengið hjálparlaust. Þá fór ég að skoða mataræðið og fann strax breytingu þegar ég sleppti safanum og ákvað þá að gera fleiri breytingar í kjölfarið.“ Spurð nánar út í mataræði segir hún að þau hjónin borði alltaf prótínþeyting á morgnana með höfrum og ávöxtum, mikið af fiski og kjúklingi, og þá er töfrasprotinn óspart notaður í grænmetissúpugerð.

„Það þarf ekkert að vera dýrara að borða hollt því með því að borða góða fitu og næringarríkan mat er maður minna svangur og langar ekkert til þess að vera síétandi. Það er að minnsta kosti mín reynsla.“

Heidi finnur mjög mikinn mun.
Heidi finnur mjög mikinn mun.

Ekki gefast upp

Aðspurð hvort mataræði án einfaldra kolvetna og 14 tíma föstur séu komnar til að vera hjá þeim hjónum segir Heidi að hún sjái enga ástæðu til þess að breyta því á meðan þeim líði vel. Hún tekur þó fram að þau bregði alveg út af vananum ef þeim er t.d. boðið í mat eða við önnur hátíðleg tækifæri.

„Ég fékk mér til dæmis pítsusneið á uppáhalds ítalska staðnum mínum við Canteras-ströndina og naut hennar í botn. En það er engin pítsa á borðum hér dagsdaglega,“ segir Heidi. Alls hefur mittismál hennar minnkað um 12 cm á þremur mánuðum og hún hefur þurft að bæta nýjum götum á beltið sitt.

„Mitt ráð er að gefast ekki upp. Ellin verður erfiðari ef maður er að burðast með aukakíló og slæma heilsu. Það er aldrei of seint að byrja. Það er nauðsynlegt að beita sig þrjósku og vera ákveðinn við sjálfan sig. Allir búa yfir þrjósku, þeir þurfa bara að virkja hana,“ segir Heidi hvetjandi.

mbl.is