Vladimír Pútín tilkynnti herkvaðningu í Rússlandi rétt í þessu.
Vladimír Pútín tilkynnti herkvaðningu í Rússlandi rétt í þessu.
Vladimír Pútín tilkynnti herkvaðningu í Rússlandi rétt í þessu.
Útsending á ávarpi Pútíns hófst laust eftir klukkan 6 í morgun og stendur enn yfir. Áður hafði verið boðað til útsendingar í gærkvöldi en því slegið á frest.
Ekki er um allsherjarherkvaðningu að ræða heldur stendur til að virkja 300 þúsund manna varalið.
Fram kom í máli Pútíns að herkvaðningin taki gildi frá og með deginum í dag og að varnarmálaráðuneytið hafi þegar samþykkt ráðstöfunina og ritað undir skipunina.
Í ávarpi sínu hefur Pútín þegar sagt að Vesturveldin hafi sýnt fram á að þau stefni á að gjöreyða Rússlandi og að borgarar Úkraínu hafi verið notaðir sem byssufóður. „Markmið okkar er að frelsa Donbass,“ sagði hann.
Hann segir ljóst að Vesturveldin vilji ekki að friður ríki á milli Rússlands og Úkraínu og þar með sé áríðandi að grípa til aðgerða „til að vernda fólk í frelsuðu héruðunum.“
Þá sakaði Pútín Vesturveldin um að kúga Rússland með kjarnorkuvopnum – en Rússland eigi næg vopn í vopnabúrinu gagnvart þeim. „Við verðum að nýta öll okkar úrræði til að verja fólkið okkar,“ sagði hann og bætti við að hann væri ekki að grínast.
„Þeir sem reyna að kúga okkur með kjarnorkuvopnum ættu að átta sig að að vindarnir geta líka blásið í þeirra átt,“ sagði Pútín.
„Ég treysti á ykkar stuðning,“ sagði hann enn frekar.
Líkt og greint var frá í gær var tilkynnt um atkvæðagreiðslu á hernumdum svæðum Úkraínu, í héröðunum Donetsk, Lúhansk, Suður-Kerson og Saporísía, um innlimun í Rússland. Atkvæðagreiðslan er á borði leppstjórnar Kreml í héröðunum og ekki viðurkennd af alþjóðarsamfélaginu.
Pútín segir að þeir sem búa á svæðum í Úkraínu undir Rússneskri stjórn vilji ekki „vera undir hæl nýnasista“ og bætir við: „Við styðjum þetta fólk“.
Uppfært klukkan 6:43: Ávarpinu er nú lokið. Herkvaðningin virðist einungis ná til þeirra sem þegar eru í varaliðum hersins og hafa áður starfað í hernum.
Þá lýsti Pútín yfir auknum fjárframlögum ríkisins til vopnaframleiðslu.
Fréttin hefur verið uppfærð.