Nemendum í Menntaskólanum í Hamrahlíð er nóg boðið vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda í nokkrum málum sem tengjast kynferðisofbeldi á milli nemenda.
Nemendum í Menntaskólanum í Hamrahlíð er nóg boðið vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda í nokkrum málum sem tengjast kynferðisofbeldi á milli nemenda.
Nemendum í Menntaskólanum í Hamrahlíð er nóg boðið vegna aðgerðaleysis skólastjórnenda í nokkrum málum sem tengjast kynferðisofbeldi á milli nemenda.
Viðmælandi mbl.is segir óánægju hafa ríkt í lengri tíma um viðbrögð og svaraleysi stjórnenda en að í gær hafi orðið ákveðinn vendipunktur.
„Ég veit til þess að það eru um átta mál þar sem þolendur þurfa að mæta gerendum sínum innan veggja skólans,“ segir Urður Bartels, nemandi við MH. Hún segir enn frekar að í a.m.k. fjórum tilfellum hafi þolendur reynt að leita til stjórnenda skólans með sín mál. Nefnir hún að leitað hafi verið til rektors og námsráðgjafa.
„Þau hafa engin svör fengið og það hefur ekkert verið gert í þessum málum,“ segir hún.
Í gær tóku sig einhverjir til og hengdu upp blað víða um skólann með harðorðri gagnrýni á skólann. Blaðið má sjá hér að neðan.
Urður segir að starfsfólk skólans hafi tekið blaðið niður. Við það hafi nemendurnir fengið nóg, safnast saman á salernum skólans og skrifað á það skilaboð í mótmælaskyni, meðal annars nöfn gerenda í skólanum.
„Við vorum komin með upp í kok af því að það sé reynt að þagga niður í okkur,“ segir hún og bætir við að skilaboðin á speglunum hafi ekki verið skipulögð, heldur sjálfsprottin útrás fyrir reiði nemenda.
Varðandi tilfellið, sem fjallað er um á blaðinu sem hengt var upp, segir Urður að margir í skólanum séu uggandi yfir viðveru gerandans. „Það vita margir hvað gerðist og það eru margir ósáttir við það að þurfa að vera með þessum einstaklingi í tíma og verkefnum. Enn og aftur gerði skólinn ekki neitt í þessu máli.“
„Við erum að reyna að krefjast þess að eitthvað verði gert til að vernda þolendur. Að það verði hlustað á okkur og okkur trúað. Við viljum geta mætt í skólann og upplifað okkur örugg og ekki þurfa að vera hrædd við að þurfa að mæta gerendum okkar á göngum skólans.“
Í dag voru allir nemendur skólans kallaðir út úr tíma og á fund með rektor. „Allir nemendurnir eru mjög ósáttir við þetta,“ segir Urður og útskýrir að rektor hafi ávarpað fundargesti en ekki viljað viðurkenna að um kynferðisafbrot væri að ræða.
Þá hafi komið fyrirlesari frá Sjúkri ást; „það var þá, fyrst, sem við fengum fyrst að heyra viðurkenningu á að um kynferðisofbeldi væri að ræða“.
Þá hafi nemendur viljað grípa inn í og spyrja spurninga en rektor hafi tekið fyrir að spurningar og tjáning nemenda yrði leyfð á fundinum.