Bandaríkin beita Írani refsiaðgerðum

Mótmæli í Íran | 6. október 2022

Bandaríkin beita Írani refsiaðgerðum

Bandarísk yfirvöld hafa beitt sjö íranska embættismenn refsiaðgerðum vegna þátttöku þeirra í ofbeldisfullum aðgerðum gegn mótmælendum eftir dauðsfall Mahsa Amini.

Bandaríkin beita Írani refsiaðgerðum

Mótmæli í Íran | 6. október 2022

Mótmæli vegna andláts Mahsa Amini hafa verið í Íran en …
Mótmæli vegna andláts Mahsa Amini hafa verið í Íran en líka víðsvegar um allan heim. Hér er verið að sýna samstöðu í Rómarborg. AFP/Filippo Monteforte

Bandarísk yfirvöld hafa beitt sjö íranska embættismenn refsiaðgerðum vegna þátttöku þeirra í ofbeldisfullum aðgerðum gegn mótmælendum eftir dauðsfall Mahsa Amini.

Bandarísk yfirvöld hafa beitt sjö íranska embættismenn refsiaðgerðum vegna þátttöku þeirra í ofbeldisfullum aðgerðum gegn mótmælendum eftir dauðsfall Mahsa Amini.

Meðal embættismannanna sem bandarísk yfirvöld beita sér gegn eru innanríkisráðherrann Eisa Zarepour og fimm háttsettir löggæslumenn sem báru ábyrgð á því „að loka netaðgangi í Íran vegna uppreisnanna og að beita miklu ofbeldi í friðsamlegum mótmælum,“ að því er segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Tugir mótmælenda látist í aðgerðum lögreglu

Aðgerðir stjórnvalda í Íran hafa valdið tugum dauðsfalla samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum. Mótmælaalda gekk yfir landið og víðar um heiminn eftir andlát hinnar 22 ára gömlu kúrdísku Amini sem var handtekin af siðferðislögreglunni fyrir að hylja ekki hár sitt nægilega með höfuðslæðunni. Lögregla beitti hana harðræði og lést hún í kjölfarið.

Fordæma írönsk stjórnvöld

„Rétturinn til að segja hug sinn og að mótmæla friðsamlega eru grundvöllur sjálfstæðis og reisnar einstaklinga,“ skrifar aðstoðarráðherrann Brian Nelson í tilkynningunni.

„Bandaríkin fordæma írönsk stjórnvöld fyrir að hafa lokað fyrir netaðgang, bælt niður friðsamleg mótmæli og ekki síst að fara fram með offorsi gegn þeim sem virðast stjórna mótmælunum.“

Þeir fimm löggæslumenn sem eru á refsilista Bandaríkjamanna eru Hossein Sajedina, yfirmaður löggæslunnar í Íran, Yadollah Javani, yfirmaður íslamska byltingarvarðliðsins, Vahid Mohammad NaserMajid, yfirmaður veflögreglu Íran, Hossein Nejat, yfirmaður í íslamska byltingarvarðliðinu og Hossein Rahimi sem sér um að ganga eftir því að höfuðslæður séu notaðar í Tehran.

Hamla viðskiptamöguleikum sökudólganna

Áður höfðu Bandaríkjamenn beitt refsiaðgerðum gegn siðferðislögreglunni í Íran eftir andlát Amini. Refsiaðgerðirnar felast í því að frysta allar eignir sem viðkomandi kann að eiga í bandarískri lögsögu, þar með talið í alþjóðabönkum sem hafa viðskipti í Bandaríkjunum. Þannig draga refsiaðgerðir Bandaríkjanna verulega úr möguleikum þessara einstaklinga til að eiga viðskipti í gegnum alþjóðlegar stofnanir.

mbl.is