Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er ósátt við manninn sinn.
Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er ósátt við manninn sinn.
Theodór Francis Birgisson, klínískur félagsfræðingur hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er ósátt við manninn sinn.
Hæ!
Við maðurinn minn höfum aldrei verið neitt sérlega tekjuhá og ég hef reynt að leggja mikið á mig til þess að við eigum meiri peninga á milli handanna. Ég hef til dæmis skúrað í aukavinnu og kaupi sjaldnast eitthvað fyrir sjálfa mig. Hann hins vegar getur ekki sleppt neinu. Hann er til dæmis á kafi í golfi og öll sumur eru undirlögð í því hjá honum. Þetta gerir það að verkum að hann er ekkert með okkur fjölskyldunni yfir sumarið. Þetta kostar fullt af peningum en auk þess þarf hann að vera með áskriftir af öllum sjónvarpsstöðvum sem selja íþróttaefni. Þegar ég bið hann um að segja upp eitthvað af þessum áskriftum fer hann í fýlu og það endar alltaf með því að ég bakka með allt og fer svo að sleikja úr honum. Ertu með eitthvað ráð hvernig ég geti náð til hans, annað en að skilja við hann?
Kær kveðja,
G
Sæl G.
Ef þú elskar manninn þinn og ef þig langar til að verða gömul með honum þá þarftu að finna út hvort hann elskar þig og hvort hann vill verða gamall með þér. Það er mjög mikilvægt fyrir hann að eiga sér tómstundargaman og gera eitthvað fyrir sjálfan sig eins og það er líka mjög mikilvægt fyrir þig að gera slíkt hið sama. En það VERÐUR líka að vera tími fyrir ykkur tvö saman. Hann ætti því ekki að þurfa að velja á milli þín og golfsins, það ætti ekki að vera annað hvort eða, en án nokkurs vafa þá þarf sambandið ykkar að skipta meira máli en golfið. Það snýr einnig að fjármunum. Streita og álag í fjármálum setur fleiri parsambönd í strand en framhjáhöld. Hann verður eins og þú og við öll að ráðstafa eftir getu, ekki eftir áhugamálum. Mér sýnist þinn maður því þurfa að ákveða hvort hann vilji „fjárfesta“ í tíma með þér og þið þurfið síðan sameiginlega að koma að stýringu og öflun á tekjum. En umfram allt þurfið þið að geta rætt um þessi mál og ef ykkur tekst það ekki án utanaðkomandi hjálpar þá ættuð þið að leita ykkur aðstoðar. Ég vona að þetta hjálpi, gangi þér vel með allt.
Kær kveðja,
Theodór.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent honum spurningu HÉR.