Þetta byrjaði allt með bleiku skyrtunni

Snyrtivörur | 15. október 2022

Þetta byrjaði allt með bleiku skyrtunni

Hólmsteinn Eiður Guðrúnarson er fimmtugur gagnkynhneigður maður með tvær BA-gráður; aðra í íslensku og hina í sálfræði, en áður en hann fetaði menntaveginn hafði hann unnið ýmis verkamannastörf. Eftir útskrift starfaði hann lengi á Barna- og unglingageðdeild en nú starfar hann á leikskólanum Barónsborg. Hann heldur því fram í gríni að hann sé „ósköp venjulegur miðaldra gagnkynhneigður karl“ en auðvitað veit hann að hann sker sig úr fjöldanum og hefur í raun alltaf gert. 

Þetta byrjaði allt með bleiku skyrtunni

Snyrtivörur | 15. október 2022

Eiður Hólmsteinn Guðrúnarson byrjaði að ganga í kvenmannsfötum fyrir um …
Eiður Hólmsteinn Guðrúnarson byrjaði að ganga í kvenmannsfötum fyrir um einu og hálfu ári síðan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmsteinn Eiður Guðrúnarson er fimmtugur gagnkynhneigður maður með tvær BA-gráður; aðra í íslensku og hina í sálfræði, en áður en hann fetaði menntaveginn hafði hann unnið ýmis verkamannastörf. Eftir útskrift starfaði hann lengi á Barna- og unglingageðdeild en nú starfar hann á leikskólanum Barónsborg. Hann heldur því fram í gríni að hann sé „ósköp venjulegur miðaldra gagnkynhneigður karl“ en auðvitað veit hann að hann sker sig úr fjöldanum og hefur í raun alltaf gert. 

Hólmsteinn Eiður Guðrúnarson er fimmtugur gagnkynhneigður maður með tvær BA-gráður; aðra í íslensku og hina í sálfræði, en áður en hann fetaði menntaveginn hafði hann unnið ýmis verkamannastörf. Eftir útskrift starfaði hann lengi á Barna- og unglingageðdeild en nú starfar hann á leikskólanum Barónsborg. Hann heldur því fram í gríni að hann sé „ósköp venjulegur miðaldra gagnkynhneigður karl“ en auðvitað veit hann að hann sker sig úr fjöldanum og hefur í raun alltaf gert. 

Ég hitti Hólmstein Eið og Unu Margréti konu hans eitt síðdegið í september á Jómfrúnni en það er mikill eftirlætisstaður þeirra hjóna. Eiður, eins og hann er alltaf kallaður, hélt meira að segja upp á fimmtugsafmælið sitt þar síðasta vor. Þegar ég mætti voru þau sest við borðið, hvort með sitt glasið af eplasafa, enda á leið í matarboð eftir viðtalið til að halda upp á fæðingardag afa Unu og langafa Eiðs: „Hann hefði orðið 140 ára hefði hann lifað en sem betur fer gerði hann það ekki,“ segir hún í gríni.
Hjónin Una Margrét Jónsdóttir og Hólmsteinn Eiður Guðrúnarson.
Hjónin Una Margrét Jónsdóttir og Hólmsteinn Eiður Guðrúnarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er eitthvað varið í þennan

Eitt af því sem einkennir Eið er gríðarleg ástríða fyrir áhugamálum sem hann fær. Hann er týpan sem fer bókstaflega alla leið þegar eitthvað fangar huga hans og nákvæmlega sá eiginleiki í fari hans var fyrst og fremst sá sem heillaði dagskrárgerðarkonuna Unu Margréti Jónsdóttur þegar þau voru kynnt hvort fyrir öðru heima hjá foreldrum hennar árið 1995.

„Á þeim tímapunkti var hann algjörlega með skáldið Davíð Stefánsson á heilanum og þegar við vorum kynnt fyrir hvort öðru með nafni þá ljómaði hann allur, endurtók nafnið mitt „Una!“ Svo fór hann hátt og snjallt með öll erindin í ljóðinu Til Unu eftir Davíð. Þá hugsaði ég með mér að það væri nú eitthvað varið í þennan,“ segir hún og bætir því við að líklegast hefði mörgum konum þótt þessi tuttugu og þriggja ára náungi stórskrítinn en það var akkúrat það hvað hann var sérstakur sem kveikti áhuga hennar.

„Eiður er reyndar frændi minn,“ útskýrir hún. „Við mamma hans vorum þremenningar en ég þekkti Eið samt ekki neitt fyrr en hann kom suður til að leigja hjá foreldrum mínum. Reyndar þekkti ég ýmsa frændur hans og ég er ekki viss um að ég hefði orðið spennt fyrir honum ef ég hefði hitt hann fyrst þegar ég var þrettán og hann sjö ára,“ segir Una sem var 29 ára þegar þau fóru að vera saman. „Mamma var alveg himinsæl þegar hún frétti af sambandinu og ég hef alltaf grínast með það að ég hafi valið mér mann af góðum ættum. Þetta er ekki svo mikið að það þurfi að hafa áhyggjur af því, allt löglegt og svoleiðis,“ segir hún og fær sér sopa af eplasafa.

Bakkar upp femínískar skoðanir með því að nota snyrtivörur og klæðast kjólum

Meðal þeirra áhugamála sem Eiður hefur hellt sér út í eru til dæmis: Una Margrét, pennavinir, sögurnar um Ísfólkið, skáldið Davíð Stefánsson og síðast en ekki síst hinn eini sanni nóbelsverðlaunahafi Halldór heitinn Laxness. „Þetta byrjaði á því að hann fór að lesa bækurnar eftir Laxness, síðan fór hann að safna þeim árituðum og í ýmsum útgáfum og núna á hann sex hundruð bækur eftir hann,“ segir Una og Eiður tekur undir: „Já, það er alltaf bara allt eða ekkert hjá mér. Núna eru það kjólar og snyrtivörur í bland við femínisma.“

Þegar áhuginn á femínisma var að vakna og Eiður keypti sér fyrstu bleiku skyrtuna segir Una kaupin hafa komið sér á óvart. „Áhugi hans á femínisma hafði reyndar aukist hratt á fáeinum árum og ekki leið á löngu þar til ástríða hans fyrir þeim málefnum tók langt fram úr mínum og varð alveg brennandi heit. Hann skrifaði hvern pistilinn á fætur öðrum á Fésbókina til að reyna að kveða niður karlaveldið og stundum voru skoðanir hans svo sterkar að jafnvel ég var ósammála,“ segir hún og Eiður útskýrir að kjólarnir og naglalakkið séu hluti af femínismanum: „Þetta er reyndar svolítið margþætt hjá mér en ég bakka meðal annars femínískar skoðanir mínar upp með því að nota snyrtivörur og fara í kjóla. Það geri ég af hugsjón og gleði og er alsæll með það.“

Þetta byrjaði allt með skærbleikri skyrtu

Upphaf þessa ferðalags rekur Eiður sirka áratug aftur í tímann: „Ég var staddur í verslun Guðsteins á Laugavegi þar sem ég var vanur að kaupa mér bláar skyrtur en þá sá ég allt í einu eina alveg skærbleika, sem mér fannst mjög flott, svo ég hugsaði: „Heyrðu! Förum bara í bleika skyrtu!“ Una, sem var með honum í búðinni, segist hafa brugðist ósjálfrátt við með því að hreyfa mótmælum en það hafði takmörkuð áhrif á eiginmanninn:

„Eiður var alveg ákveðinn. Hann vildi bleiku skyrtuna og þá fór ég að hugsa mig um. Hvað var ég að láta þessar vitlausu óskrifuðu reglur hafa áhrif á mig? Af hverju hugsaði ég að skyrtan væri of bleik, eins og bleikur væri eitthvað sérstaklega kvenlegur litur? Auðvitað mátti Eiður klæðast skærbleikri skyrtu ef hann langaði til þess. Litir eru hvorki kvenlegir né karlmannlegir. Þetta eru bara litir.“

Næsta morgun mætti Eiður í nýju skyrtunni í vinnuna á Barónsborg: „Þar sátu nokkrir fimm og sex ára krakkar saman og allt í einu kallaði ein stelpan: „Hei krakkar! Strákar mega vera í bleiku.“ Mér þótti innilega vænt um þessa yfirlýsingu og var mikið í bleiku skyrtunni í vinnunni. Svo keypti ég mér aðra og notaði hana líka mikið. Síðan líða bara árin og ekkert meira gerist í þessum efnum þar til fyrir svona þremur árum að ég vaknaði einn morguninn og hugsaði með sjálfum mér: „Heyrðu! Mig langar í bleikt naglalakk.“ Svo fór ég beint í að kaupa bleikt naglalakk og byrjaði að æfa mig í að naglalakka mig, sem er erfiðara en maður heldur,“ segir hann og ég tek undir að það þurfi auðvitað nokkuð agaðar fínhreyfingar til verksins. „Akkúrat!“ segir Eiður: „Það þarf svo ótrúlega lítið til að þetta fari út fyrir svo það tók mig alveg smá tíma að æfa mig. Þegar ég var svo búinn að ná tækninni, með aðstoð frá Unu, fór ég að nota naglalakkið og smátt og smátt bættust við alls konar útgáfur af bleiku. Ég vildi hafa það sem bleikast, enda er þetta yfirlýsing hjá mér.“

„Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að karlmenn megi ekki setja á sig naglalakk“

„Næsta skref var að mæta naglalakkaður í vinnuna og viðbrögðin létu sko ekki á sér standa. Ég fékk svona líka falleg hrós frá börnunum, bæði strákum og stelpum, og frá starfsfólkinu. Ég hugsaði: „Þetta er frábært!“ og man hvernig litlu strákarnir, sem voru svona þriggja ára, skoðuðu naglalakkið og hvað þeir voru hrifnir. Og litlu stelpurnar sem voru sjálfar með naglalakk byrjuðu að sýna mér sitt og við fórum að bera litina saman. Þetta var svo skemmtilegt. Áfram leið tíminn og ætli það sé ekki svona ár síðan, um það leyti sem ég opnaði instagramreikninginn minn, að ég vaknaði einn góðan veðurdag og hugsaði: „Heyrðu! Nú er ég kominn í bleika skyrtu og með bleikt naglalakk. Mig langar í varalit!“ Og þá hikstaði nú Una,“ segir hann kankvís. „Eiður er nú aðeins að plata með að ég hafi alltaf stutt hann af fullum krafti. Ég verð að viðurkenna að ég er í eðli mínu mjög vanaföst og gamaldags og á erfitt með breytingar. Þess vegna hef ég hikstað svolítið á því þegar hann kemur með yfirlýsingarnar, en þegar ég hugsa málið átta ég mig á því að ég hef engin rök gegn þessu,“ útskýrir hún. „Það eina sem truflar er bara það að við erum ekki vön þessu. Það eru engin skynsamleg rök fyrir því að karlmenn megi ekki setja á sig naglalakk eða klæðast bleiku. Engin. Jú nema kannski að kvenmannsföt eru reyndar hönnuð með kvenlíkamann í huga, en þar sem konur eru mismunandi að lögun getur sumt alveg gengið fyrir karlmenn. Þegar föt eru annars vegar eigum við bara að spyrja okkur: Líður mér vel í þessu og finnst mér þetta flott?“

Eiður á orðið nokkuð gott úrval af snyrtivörum.
Eiður á orðið nokkuð gott úrval af snyrtivörum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mætti í vinnuna með varalit

Þegar Eiður var kominn upp á lag með naglalakkið leið ekki á löngu þar til okkar maður hugsaði: „Heyrðu! Nú er kominn tími til að prófa varalit.“ Í kjölfarið skellti hann sér í Stellu í Bankastræti og valdi sér eldrauðan lit sem honum fannst bæði hentugur sem yfirlýsing og fallegur. Eftir að hann var búinn að æfa sig heima fór hann með varalitinn í vinnuna, bar hann á sig fyrir framan krakkana og uppskar sama hrósið og gleðina og þegar hann mætti fyrst með naglalakk. „Þá fóru þær í vinnunni að segja mér að ég þyrfti alveg endilega að fara í MAC í Kringlunni þar sem þau væru með svo mikið úrval af litum svo ég fer þangað og kaupi mér brúnan varalit sem ég man ekki nafnið á, en síðan kom Russian Red skömmu síðar. Sá er eiginlega minn uppáhaldsvaralitur,“ segir Eiður um leið og Una grípur orðið: „Ég hugsaði: „Æ, þurftuð þið endilega að segja honum frá þessu með MAC!“ Það liggur við að Eiður sé núna búinn að eyða meiru í snyrtivörur en ég hef gert á allri minni ævi! Það er jú þetta með að hella sér út í áhugamálin,“ segir hún glettin.

„Ég skil að appelsínugulur fari ekki öllum vel, trúðar eru jú oft með svona appelsínugular varir“

„Þegar ég var búinn að prófa alls konar liti var skorað á mig að prófa appelsínugulan varalit en appelsínugulur þykir víst fara flestum illa og ef sá litur myndi fara mér vel þá myndu allir aðrir litir gera það líka. Ég fór beint í Kringluna og keypti lit sem heitir Morange,“ segir Eiður og tekur varalitinn upp úr litlu rauðu veski. Hann skrúfar hann upp og sýnir okkur Unu.

„Þessi er svolítið á jaðrinum. Þú tekur alveg séns með Morange,“ segi ég með frönskum hreim og Eiður tekur undir: „Merkilegt nokk þá fer hann mér samt bara ágætlega. Ég á til dæmis kjól sem er með gulu mynstri og hann passar mjög vel við hann. Ég skil að appelsínugulur fari ekki öllum vel, trúðar eru jú oft með svona appelsínugular varir, en ég er með þunnar varir svo ég kemst alveg upp með að nota appelsínugulan.“

Una rifjar upp þegar hann bað hana fyrst að hjálpa sér með að ná tökum á að varalita sig: „Þegar ég hófst handa man ég að ég sagði við hann að það væru varla varir þarna til að mála því þær væru svo þunnar. Ég hafði bara ekki tekið eftir því fyrr! Ef hann væri karlmaður með mjög þykkar varir gæti það virkað eins og hálfgerður trúðsmunnur, en einmitt af því hann er með svo fíngerðar varir ber hann þetta bara mjög vel,“ segir hún og ég tek undir með að það sé alveg góð stemning í Morange en um leið dregur Eiður rauðbrúnan varablýant upp úr töskunni sem hann segist alltaf nota áður en hann setur á sig uppáhaldslitinn sinn Russian Red. „Það þarf að skerpa línurnar.“

„Ég er að gera mitt til að reyna að brjóta upp þetta feðraveldi“

Eiður og Una eru meðvituð um sérvisku hvort annars og þau telja bæði að í raun hafi það verið ótrúleg hending að svo miklir sérvitringar fundu hvort annað. Hvorugt þeirra hafi nokkurn tíma búist við að finna lífsförunaut við hæfi en nú hafa þau verið gift í 23 ár og þakka það djúpum og einlægum vinskap sem ríkir á milli þeirra. Þegar ég spyr Eið hvort hann haldi að fólk gæti hugsanlega skrifað það að hann gengur í kvenmannsfötum og málar sig á sérviskuna í honum segist hann vona að svo sé ekki.

„Ég leyfi mér að halda að karlar á mínum aldri séu ekki að skrifa þetta á sérviskuna í mér. Ég hef svo sannarlega eitthvað fram að færa því ég er að gera mitt til að reyna að brjóta upp þetta feðraveldi sem heftir okkur öll með mismunandi hætti. Ég geri það sem ég geri af bæði gleði og hugsjón og ef ég er fyrirmynd fyrir aðra þá finnst mér það alveg frábært.“

Færðu mikil viðbrögð frá karlmönnum líka?

„Já og bara alls konar fólki. Meira að segja unglingsstrákar og menntaskólastrákar senda mér skilaboð og segja: „Takk! Takk fyrir að gera þetta. Þú ert svo mikil fyrirmynd! Áfram þú!“ Aðalhugsunin í þessu hjá mér er auðvitað bara að setja fram spurninguna: Af hverju má ekki gagnkynhneigður karl sem er sáttur við það kyn sem honum var úthlutað setja á sig varalit og fara í kjól?! Hvað er eiginlega slæmt við það? spyr ég. Mig hefur aldrei langað til að vera kona. Ég hef alltaf verið mjög sáttur og aldrei dregið kyn mitt eða kynhneigð í efa. Ég er bara karl með varalit. Svo einfalt er það. Stuðningurinn hefur sannarlega hjálpað til en best þykir mér að hugsa til þess að ég hafi haft jákvæð áhrif á aðra karlmenn, sem hefur langað til að gera það sama, en ekki þorað því.“

Skilaboð frá fimmtuga Eiði til litla Eiðs

Ertu líka að þessu að einhverju leyti til að ögra staðalmyndum?

„Já, auðvitað er þetta ákveðin yfirlýsing hjá mér. Það er ástæða fyrir því að ég valdi mér bleikasta varalitinn af öllum bleikum og þann rauðasta af öllum rauðum. Með því er ég að segja að ég megi auðvitað bara gera þetta líka. Mér finnst þetta bæði fallegt og skemmtilegt,“ svarar Eiður og rifjar upp hvernig hann horfði aðdáunaraugum á mömmu sína þegar hún var að hafa sig til áður en hún fór eitthvað fínt út þegar hann var lítill. „Ég horfði dáleiddur á hana mála sig og máta kjóla en það fór ekki lengra því ég hugsaði að svona væri ekkert fyrir litla stráka. Ég hugsaði aftur það sama þegar ég dáðist að skólasystrum mínum í menntaskóla en að punta mig svona sjálfur? Ekki fyrir mitt litla líf! Tvítugur Eiður hefði aldrei málað sig og farið í kjól en núna er ég orðinn fimmtugur og hef nákvæmlega engu að tapa. Og þetta er ekki bara ögrun því fimmtugi Eiður er líka að sýna litla Eiði, unglings-Eiði og tvítuga og þrítuga Eiði að þetta sé bara allt í lagi. Þetta má,“ segir hann og ég segi honum að þetta finnist mér falleg hugsun og hann svarar að kannski sannist það á því að hann hefur ekki fengið eina neikvæða athugasemd frá því hann byrjaði sína vegferð.

Neikvæð viðhorf sem mótast snemma

Mér hefur alltaf þótt svo skrítið hvernig það virðist almennt viðurkennt að hið kvenlega sé eitthvað síðra en hið karlmannlega. Karl sem vinnur á leikskóla, eða sem förðunar- eða snyrtifræðingur, uppsker ekki sömu aðdáun og kona sem vinnur við að stýra flugvél eða múra veggi. Hin svokallaða karlmennska virðist upphafin en áhugamál og störf sem konur sækja í þykja ekki nógu fín. Finnst ykkur ekki eitthvað bogið við þessi viðhorf?

„Jú, svo sannarlega! Það er allt í lagi að kona sé karlmannleg en þegar karlmaður fer að ganga í því sem kallað hefur verið kvenmannsföt verður viðhorfið allt annað. Og það er merkilegt hvað börn verða fljótt vör við þessi viðhorf, að það sé lítilsvirðandi fyrir strák að gera eitthvað kvenlegt eða vera kvenlegur.“ – „Segðu okkur frá þessu með brúðuhúsið í afmælisveislunni sem þú fórst í þegar þú varst lítill,“ segir Una og snýr sér að Eiði.

„Já, þetta voru systkini. Strákurinn átti afmæli en það voru bæði stelpur og strákar í veislunni. Stelpan átti stórt brúðuhús en strákurinn, sem var svona tveimur árum eldri, fékk kappakstursbraut í afmælisgjöf. Strákarnir voru allir að skoða og leika sér með kappakstursbrautina meðan stelpurnar léku sér með brúðuhúsið. Ég man hvað mig langaði miklu, miklu meira að leika mér með stelpunum, enda alveg heillaður af þessu fína húsi, en ég þorði það bara ekki fyrir mitt litla líf. Svo sannaðist það stuttu síðar. Stelpurnar komu að skoða kappakstursbrautina og enginn hafði neitt út á það að setja en þegar einn af strákunum fór inn til stelpunnar að leika sér með brúðuhúsið fékk hann þvílíkt yfir sig af skömmum og háðsglósum. Þetta er alveg hræðilegt hvað þessi viðhorf mótast snemma.“

Og núna ert þú að vinna á leikskóla. Kannski ertu bara að „skila skömminni“ með því að skella á þig varalit?

„Já! Það má bara alveg segja það!“

Allt fór í uppnám þegar Eiður grenntist

Þegar þetta er skrifað á Eiður eina átta kjóla í fataskápnum sínum en það var skömmu eftir fimmtugsafmælið hans fyrr á árinu sem hann keypti sér sinn fyrsta kjól í Stellu í Bankastræti. Það gerði hann með gjafabréfi sem hann hafði fengið í afmælisgjöf og inneignin dugði sirka fyrir einum kjól. Þá fékk hann einnig gjafabréf í Kjólum og konfekti, sem og eitthvað af snyrtivörum og aðrar góðar gjafir. Hann segist ekki klæðast kjólum alla daga og hann er yfirleitt í buxum innan undir því enn er ekki runninn upp sá dagur að hann hugsi: „Heyrðu! Nú fer ég og kaupi mér sokkabuxur!“ Una segist ekki jafn hrifin af öllum kjólunum hans Eiðs, og satt að segja finnst henni sumir bara hálfpúkalegir. Það skipti þó ekki máli því þetta séu hans kjólar og hann ráði sínum eigin fatastíl. Eiður útskýrir að stíllinn hans sé enn í þróun enda verði ekki aftur snúið úr þessu.

Þau hjónin passa ekki í sömu kjólastærðirnar og það myndi ekki ganga fyrir hann að grenna sig til að fá kjólana hennar Unu lánaða, því síðast þegar hann grennti sig varð allt vitlaust. „Vinir og ættingjar fengu miklar áhyggjur af því hvort Eiður væri orðinn eitthvað veikur en hann var ekkert veikur. Það eina sem hann gerði var að breyta aðeins mataræðinu sínu og við það grenntist hann og breyttist í útliti. Fólk virtist bara ekki þola þessa breytingu. Svo miklar urðu athugasemdirnar og áhyggjurnar að hann fór meira að segja til læknis til að láta athuga málið en það var bara ekkert að honum. Í raun er það mjög áhugavert að hugsa út í muninn á viðbrögðunum. Þegar hann grenntist brugðust allir ókvæða við, en þegar hann byrjaði að mála sig og klæðast kjólum fékk hann einungis hrós. Nema kannski frá mömmu. Hún er 89 ára og leist ekki alveg á þetta fyrst, en hún er svona aðeins byrjuð að jafna sig,“ segir Una og bætir við að sín fyrstu viðbrögð hafi verið að stíga skref til baka. „Já, ég var bara: „Ekki ætlarðu að fara að ganga í kjól líka!?“ En alveg eins og þegar hann keypti bleiku skyrtuna, naglalakkið og varalitinn þá áttaði ég mig á að það var auðvitað ekkert skynsamlegt eða rökrétt sem mælti gegn þessu.“

Varstu lengi búinn að hugsa um að þig langaði til að klæðast kjólum?

„Nei ekki beint. Ég hafði reyndar mátað kjól í Kolaportinu fyrir einu og hálfu ári og þá komst ég að því að þetta getur verið smá vesen að koma sér í kjóla. Sá sem ég mátaði var aðeins of þröngur og ég eiginlega bara festist í honum svo Una þurfti að hjálpa mér að komast úr honum. Svo þegar ég var laus þá svona, púff, hengdi ég hann upp á herðatré og ákvað að ég þyrfti góðan tíma til að jafna mig. Rúmu ári eða tveimur síðar rann dagurinn upp og ég fann að ég var tilbúinn.“

„Frelsisvindar blása“

Nú eru liðin um tvö og hálft ár frá því Eiður hóf sína vegferð sem gagnkynhneigður karl með varalit og ferðin heldur áfram. „Ég á tvær augnskuggapallettur og eye-liner sem mig langar að prófa næst. Ég hef þegar fengið smá kennslu frá samstarfskonu en ég finn að mig vantar förðunarnámskeið eða frekari leiðbeiningar með þetta. Ég þori ekki sjálfur að fara bara eitthvað að mála mig þó ég sé búinn að kaupa mér burstasett og allt.“

„Þarftu ekki bara að eiga góðan hreinsi og láta svo vaða fyrir framan spegilinn? Það má alltaf æfa sig og þrífa farðann af,“ spyr ég og um leið spyr Una hann hvort rétta stundin þurfi ekki bara að koma eins og í fyrri skiptin: „Jú, ég vakna örugglega einn daginn og hugsa: „Heyrðu! Best að fara að nota þessa augnskugga,“ svarar Eiður og að endingu rifjar hann upp daginn sem hann gekk í fyrsta kjólnum sínum niður Laugaveginn.

„Þetta var góðviðrisdagur, notalegur vindur og kjólinn flaksaðist fallega til. Ég upplifði svo mikið hugrekki og frelsi að ég hálfpartinn hrópaði á Unu í einskærri gleði hvað mér þætti þetta frábært,“ segir hann. „Þetta var alveg frábært,“ segir hún. „Hann var svo innilega ánægður að hann hrópaði: „Þetta er dásamlegur dagur! Hvílíkir frelsisvindar!“ Ég man bara varla eftir því að hafa séð hann jafn glaðan.“

mbl.is