Ár er liðið síðan Bára Sif Magnúsdóttir viðskiptafræðingur lagðist undir hnífinn og fór í efnaskiptaaðgerð. Báru fannst erfitt að tala um líkamlegt ástand sitt en er þakklát vinkonum sínum sem tóku af skarið.
Ár er liðið síðan Bára Sif Magnúsdóttir viðskiptafræðingur lagðist undir hnífinn og fór í efnaskiptaaðgerð. Báru fannst erfitt að tala um líkamlegt ástand sitt en er þakklát vinkonum sínum sem tóku af skarið.
Ár er liðið síðan Bára Sif Magnúsdóttir viðskiptafræðingur lagðist undir hnífinn og fór í efnaskiptaaðgerð. Báru fannst erfitt að tala um líkamlegt ástand sitt en er þakklát vinkonum sínum sem tóku af skarið.
„Áður en ég fór í aðgerðina var ég alls ekki á góðum stað líkamlega, ég hef aldrei verið jafn þung og þá,“ segir Bára, sem fór í efnaskiptaaðgerð sem kölluð er míníhjáveita fyrir ári.
„Aðgerðin er ekki beint minni en venjuleg hjáveita en þessi aðferð er eitt af nýrri afbrigðum hjáveituaðgerða. Í henni er gerð ein tenging en í venjulegri hjáveitu tvær. Árangurinn af aðgerðunum er þó svipaður. Ég hafði ekki kynnt mér mikið muninn á öllum tegundum þessara aðgerða áður en ég fór, heldur átti ég viðtalstíma við Aðalstein lækni á Klíníkinni þar sem hann spurði mig nokkurra spurninga og út frá því mælti hann með míníhjáveituaðgerð fyrir mig.“
Hafði eitthvað komið fyrir sem varð til þess að þú fitnaðir eða var þetta bara eitthvað sem gerðist smám saman?
„Svona ekki beint, ég hef ekki oft spáð í þetta og líklega aldrei viðurkennt þetta upphátt en ég var eða er auðvitað bara með matarfíkn og þegar ég til dæmis átti erfiða daga eða tímabil þá leitaði ég í mat eða nammi.“
Tvær vinkonur Báru settust niður með henni fyrir um einu og hálfu ári og töluðu við hana um heilsu hennar. Bára er þakklát vinkonum sínum en segir samtalið hafa tekið á.
„Ég hef aldrei sagt neinum þetta áður en ég man þegar við vorum að fara að hittast þá hugsaði ég: ætli þær séu eitthvað að fara að tala við mig um heilsuna? Það var frekar óvenjulegt að við værum bara að hittast þrjár, við hittumst oftast fleiri í þessum hóp. Ein vinkona mín bauð okkur í kaffi, við spjölluðum fyrst bara um daginn og veginn en svo breyttist umræðan út í hvort ég hefði ekki áhuga á að fara að gera eitthvað í mínum málum þar sem staðan á mér var ekki góð. Önnur þessara sem töluðu við mig er ein af mínum allra bestu vinkonum og hin er mjög góð vinkona mín líka og hún hefur sjálf farið í svona aðgerð. Munurinn á henni er þvílíkur og þess vegna nefndu þær við mig að þetta væri líklega besti möguleikinn fyrir mig.
Staðan á mér var orðin mjög slæm og þegar ég hugsa til baka veit ég að þetta var eini rétti kosturinn fyrir mig. Mér fannst samtalið mjög erfitt en það var mjög þarft. Ég hugsa að ég hafi grátið í einn eða tvo klukkutíma á meðan við vorum að spjalla en það var líka út af væntumþykjunni að þær vildu svo virkilega mikið hjálpa mér. Þær eiga því ansi stóran þátt í því hvað ég er á góðum stað í dag. Besta vinkona mín sagði mér að hana langaði svo að ég myndi ná þessum áfanga áður en ég yrði þrítug, enda getur þetta líka alltaf orðið erfiðara og erfiðara eftir því sem lengra líður,“ segir Bára.
„Ég var ekki búin að prófa marga kúra, ég átti frekar erfitt með að koma mér af stað og fannst tilhugsunin erfið um að fara að breyta um lífsstíl. Í ársbyrjun 2021 hafði ég reyndar hugsað sjálf um hvað mig langaði að vera á mínum besta stað líkamlega og andlega þegar ég yrði þrítug, sem ég varð núna í ágúst síðastliðnum. Ég tók þó aldrei af skarið því mér þótti það erfitt. Það mætti því næstum segja að vinkonur mínar hafi fengið hugboð þegar þær ákváðu að tala við mig um þetta því þær vissu ekki hvað ég hafði verið að hugsa því ég gat aldrei rætt þetta við neinn. Mér fannst það erfitt og vildi það ekki sjálf, ég lokaði alltaf á umræðuna ef þetta barst í tal.“
Bára segir að umræða um líkamsvirðingu og að elska líkama sinn hafi komið upp í samtalinu.
„Málið er bara að þetta getur líka verið lífshættulegt og það þarf að hugsa um hvað er réttast fyrir mann upp á heilsuna að gera,“ segir Bára og þess vegna ákvað hún að það væri rétt fyrir sig að breyta um lífsstíl.
„Ég hef alltaf verið frekar hress, jákvæð og lífsglöð en fann það eftir aðgerðina hvað þetta breyttist mikið. Ég fann mikinn mun á mér hvað andlega hliðin fór töluvert upp á við,“ segir Bára þegar hún er spurð út í andlegu hliðina. Það kom henni á óvart hvað sjálfsmyndin breyttist í kjölfar þess að hún grenntist.
„Ég er auðvitað orðin léttari á mér og þar af leiðandi verður líka svo miklu auðveldara að gera marga hluti og það bætir svo mikið sjálfstraustið. Sjálfsmynd mín var kannski ekkert beint byggð á útlitinu en það hefur áhrif og ég hugsaði oft: hvað ætli þessum finnist um mig? Ég spáði í það í búðinni hvort fólk væri að hugsa um hvað væri í innkaupakörfunni hjá mér og væri jafnvel að dæma mig fyrir hvað væri í henni, hvort sem það var hollt eða óhollt. Nú spái ég ekki í svona hluti. Ég er svo miklu meira ég sjálf.“
„Hinn 6. október var akkúrat ár síðan ég fór í aðgerðina og núna hef ég lést um tæp 60 kíló. Þetta er auðvitað aðgerðinni að mestu að þakka en mataræðið leikur samt stórt hlutverk í þessu líka. Eftir aðgerð eru matarskammtarnir oft frekar litlir því það er auðvitað búið að minnka magann svo mikið en svo er líka erfiðara að borða kolvetna- og fituríkan mat. Ég finn vel fyrir því hvað það er erfitt, ég get það alveg af og til en ég sæki líka bara orðið minna í það af því að það fer ekki vel í mig. Aðgerðin er nefnilega engin töfralausn, það er svo margt sem hefur áhrif og þess vegna þarf maður að vera tilbúinn og með hausinn á réttum stað svo þetta gangi vel.“
Ertu búin að ná markmiðum þínum?
„Ég setti mér engin þannig séð markmið í byrjun, ég vildi bara komast á betri stað. Mér finnst þetta snúast um að fara inn í þetta verkefni með rétt hugarfar og að hausinn sé á réttum stað. Kílóamissirinn gerir þetta svo auðvitað skemmtilegra; að sjá þau fjúka, fólk fer að taka eftir því og hrósa manni fyrir hvað gengur vel. Markmið mitt var því kannski bara í raun að verða besta útgáfan af sjálfri mér, komast á betri líkamlegan stað og þá auðvitað fylgdi andlega heilsan með og að lifa heilbrigðari lífsstíl. Í þessu verkefni skiptir hugarfarið langmestu máli og ég held að þetta gangi aldrei 100% upp nema hausinn sé á réttum stað,“ segir Bára.