Hækjur Guðlaugs á meðal þess sem seldist á uppboði

Hækjur Guðlaugs á meðal þess sem seldist á uppboði

„Við lögðumst í söfnun fyrir landsfund og óskuðum eftir því að allir ráðherrar legðu sitt af mörkum í uppboðið til styrktar Sambands ungra sjálfstæðismanna,“ segir Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS.

Hækjur Guðlaugs á meðal þess sem seldist á uppboði

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2022 | 6. nóvember 2022

Hækjur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar seldust á uppboði SUS í gær.
Hækjur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar seldust á uppboði SUS í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við lögðumst í söfnun fyrir landsfund og óskuðum eftir því að allir ráðherrar legðu sitt af mörkum í uppboðið til styrktar Sambands ungra sjálfstæðismanna,“ segir Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS.

„Við lögðumst í söfnun fyrir landsfund og óskuðum eftir því að allir ráðherrar legðu sitt af mörkum í uppboðið til styrktar Sambands ungra sjálfstæðismanna,“ segir Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS.

Ungir sjálfstæðismenn stóðu fyrir uppboði á hátíðarkvöldverði flokksins í gær þar sem seldir voru ýmsir munir frá öllum ráðherrum flokksins, einnig samverustundir.

Meðal þess sem seldist á uppboðinu voru hækjurnar hans Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sokkar af Bjarna Benediktssyni formanni og lögregluskór Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Sundnámskeið frá Þórdísi Kolbrúnu

Bjarni gaf einnig sitt fyrsta landsfundarskilti, nælu og inneign fyrir afmælisköku frá Bjarna sjálfum. Þá var boðið upp skriðsundsnámskeið frá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanni flokksins.

„Það var mjög vel tekið í þetta og þetta mokseldist allt saman, allt fór út,“ segir Lísbet.

„Við vorum líka með treyjuna hans Geirs H. Haarde, nafnmerkta og óþvegna.“

Treyja Geirs H. Haarde seldist á uppboðinu.
Treyja Geirs H. Haarde seldist á uppboðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá hafi vodka kvöld með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra selst á uppboði sem og kvöldstund með Brynjari Níelssyni, aðstoðarmanni Jóns.

„Jón er mikill vodka áhugamaður og var með sérinnfluttan vodka frá Litháen,“ segir Lísbet.

Fengu dágóða summu

Spurð á hversu mikið hlutirnir seldust vildi Lísbet ekki gefa það upp.

„En þetta var dágóð summa sem við fengum í kassann,“ segir hún, en peningurinn verður nýttur til að styrkja ungliðastarfið í flokknum. Er þetta í fyrsta sinn sem uppboðið er haldið.

Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS.
Lísbet Sigurðardóttir, formaður SUS. Ljósmynd/Aðsend

Þá er einnig annars konar fjáröflun á svæðinu, svo sem sölubás þar sem hægt er að kaupa gjafapappír, boli og fleira.

„Það er mikil eftirvænting hjá mínu fólki og gleði með helgina,“ segir Lísbet að lokum, en síðar í dag kemur meðal annars í ljós hvort Bjarni muni halda sæti sínu sem formaður eða hvort Guðlaugur Þór verði kjörinn nýr formaður flokksins.

mbl.is