Viðvörunarkerfið „hefði átt að vera komið upp“

Reynisfjara | 7. nóvember 2022

Viðvörunarkerfið „hefði átt að vera komið upp“

Nýtt viðvörunarkerfi hefur enn ekki litið dagsins ljós í Reynisfjöru en vonir stóðu til að það yrði komið upp í sumar.

Viðvörunarkerfið „hefði átt að vera komið upp“

Reynisfjara | 7. nóvember 2022

Ferðamenn forða sér undan öldunni í Reynisfjöru.
Ferðamenn forða sér undan öldunni í Reynisfjöru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýtt viðvörunarkerfi hefur enn ekki litið dagsins ljós í Reynisfjöru en vonir stóðu til að það yrði komið upp í sumar.

Nýtt viðvörunarkerfi hefur enn ekki litið dagsins ljós í Reynisfjöru en vonir stóðu til að það yrði komið upp í sumar.

„Þetta hefði átt að vera komið upp fyrir svolitlu síðan. Þetta tekur ótrúlegan tíma en það eru margir þræðir sem þarf að huga að,“ segir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi. „Þetta dregst því miður, sem er mjög bagalegt, en það er verið að vinna í þessu.“

Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru í júní síðastliðnum.
Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru í júní síðastliðnum. Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Viðvörunarkerfið á að vara við þeirri hættu sem getur skapast í Reynisfjöru, en þar hafa orðið banaslys þegar stórar öldur hafa hrifið fólk með sér á haf út. Erlendur ferðamaður lést þar í júní síðastliðnum.

Beðið eftir að hönnun ljúki 

Búið er að grafa niður undirstöður og setja niður staura þar sem setja á upp skilti. Eitt þeirra verður með viðvörunarljósum. Verið er að bíða eftir að lokið verði við lokahönnun skiltanna og kveðst Björn Ingi binda miklar vonir við að verkefninu ljúki núna í vikunni.

Mikil vinna hefur hefur verið lögð í hönnunina og textann á skiltunum og koma nokkuð margir að verkefninu, að sögn Björns Inga. Um er að ræða samstarfsverkefni á milli landeigenda, Ferðamálastofu, lögreglunnar á Suðurlandi, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og skiltafyrirtækis.

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. mbl.is/RAX

Hann tekur fram að búið sé að ganga frá flutningi á merki fyrir boðun, en viðvörunarljósin stýrast af ölduspákerfi Vegagerðarinnar. Senda þarf merki til ljósanema sem svo stýrir því hvaða ljós logar hverju sinni.

Spurður hvort einhver hafi verið í hættu í Reynisfjöru að undanförnu segir Björn Ingi engar slíkar tilkynningar hafa borist. Hann reiknar þó með meiri hættu á svæðinu núna þegar veturinn er genginn í garð með auknum öldugangi og brimi og segir því brýnt að skiltin verði sett upp sem allra fyrst.

mbl.is