Tvö ár eru liðin frá því Joe Biden Bandaríkjaforseti var kosinn til að gegna valdamesta embætti veraldar. Um leið lauk embættistíð Donalds Trumps, eftir eitt kjörtímabil. Nú er komið að fyrstu stóru kosningunum í landinu frá þessum tímamótum.
Tvö ár eru liðin frá því Joe Biden Bandaríkjaforseti var kosinn til að gegna valdamesta embætti veraldar. Um leið lauk embættistíð Donalds Trumps, eftir eitt kjörtímabil. Nú er komið að fyrstu stóru kosningunum í landinu frá þessum tímamótum.
Tvö ár eru liðin frá því Joe Biden Bandaríkjaforseti var kosinn til að gegna valdamesta embætti veraldar. Um leið lauk embættistíð Donalds Trumps, eftir eitt kjörtímabil. Nú er komið að fyrstu stóru kosningunum í landinu frá þessum tímamótum.
Kosið verður í dag til alls kyns embætta í bandaríska stjórnkerfinu. Allt frá gjaldkera lítilla sýslna og upp í sæti í öldungadeild þingsins.
Repúblikanar og demókratar munu því sem fyrr berjast til síðasta atkvæðis.
Hér verður reynt að útskýra hvað er í húfi í þessum þingkosningum sem vestanhafs eru yfirleitt kallaðar „midterms“, sem mætti útleggja sem kosningar á miðju kjörtímabili.
Kjósendur í Bandaríkjunum fá annað hvert ár að kjósa til þings. Um leið kjósa þeir í raun um hvort forsetinn muni ná í gegn einhverjum af sínum stefnumálum eða hvort flokkur andstæðinganna nái að koma í veg fyrir að þau verði að veruleika.
Öll 435 þingsæti fulltrúadeildarinnar eru undir hverju sinni, auk um þriðjungs öldungadeildarinnar, en þar er kjörtímabil þingmanna sex ár í stað tveggja í neðri deildinni.
Að þessu sinni er því kosið um 35 sæti í öldungadeildinni.
Auk þess eru á lausu lyklar að 36 ríkisstjórabústöðum, eða í meirihluta þeirra 50 ríkja sem saman mynda Bandaríkin.
Innan ríkjanna sjálfra er enn fremur kosið í ýmis önnur embætti, svo sem stöður ríkisþingmanna, innanríkisráðherra og dómsmálaráðherra.
Yfirleitt er reglan sú að sá flokkur sem heldur um taumana í Hvíta húsinu, þegar kemur að miðkjörtímabilskosningum, tapar fjölda þingsæta þar sem kjósendur reyna að tempra vald ríkjandi forseta.
Að meðaltali hefur tapið numið 26 sætum í fulltrúadeildinni, þegar litið er allt aftur til endaloka heimsstyrjaldarinnar síðari. Að sama skapi hefur ráðandi flokkurinn að jafnaði tapað fjórum sætum í öldungadeildinni.
Kannanir þetta ár hafa að mestu gefið til kynna að sú verði einnig raunin þessu sinni. Stuðningur við Biden hefur mælst í kringum 40% og þar hafa faraldur kórónuveirunnar og sögulega há verðbólga ekki hjálpað til.
Demókratar fylltust þó bjartri von í sumar, eftir gott gengi á löggjafarsviðinu, óvinsæl bönn repúblikana við þungunarrofi og lækkandi verð á gasi.
Kannanir að undanförnu hafa aftur á móti veikt þessar vonir og nú virðist stefna í góðan sigur repúblikana.
Stjórnmálaskýrendur búast við því að repúblikanar muni bæta við sig 15 til 25 sætum í fulltrúadeildinni, en það myndi nægja til að tryggja flokknum völdin þar að nýju.
Erfiðara er að spá fyrir um hvernig öldungadeildin kemur til með að líta út.
Þar má segja að fjöldi þingsæta sé jafn sem stendur, þar sem 50 repúblikanar eiga sæti og 48 demókratar, auk tveggja óháðra þingmanna sem fylkja sér með demókrötum. Varaforsetinn Kamala Harris, úr röðum demókrata, fer þá með oddaatkvæðið þegar atkvæði falla jöfn.
Líklegt þykir að þannig verði staðan áfram. Þó eru taldar meiri líkur á að repúblikanar bæti við sig sæti en að demókratar geri það.
Báðir flokkarnir hafa viðurkennt að rétturinn til þungunarrofs hefur öðrum málum fremur virkað sem byr að baki kjósendum demókrata, eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna skerti þann rétt með ákvörðun sinni í júní.
Úr röðum repúblikana hafa jafnvel heyrst raddir um að banna skuli þungunarrof á alríkisstiginu, eftir fimmtán vikna meðgöngu, nái flokkurinn aftur völdum í þinghúsinu.
Og það þrátt fyrir að 85% Bandaríkjamanna telji að þungunarrof eigi að vera leyfilegt í öllum eða einhverjum tilvikum, samkvæmt könnun Gallup sem gerð hefur verið yfir langt tímabil.
Málaflokkurinn er þó ekki jafn áberandi í umræðunni og í sumar. Nú eru verðbólga, glæpir og málefni innflytjenda ofar á baugi, samkvæmt rannsóknum á þankagangi kjósenda.
Efnahagsmál vega þá einnig þyngra en áhyggjur af kosningarétti fólks og lýðræði, samkvæmt öllum nýjustu könnunum.
Repúblikanar reyna að segja kjósendum að demókratar séu ekki nógu harðir í baráttunni við glæpi, í mörgum helstu barátturíkjunum, og vísa einnig til metfjölda innflytjenda og hárrar verðbólgu, þrátt fyrir lækkandi olíuverð.
Á sama tíma vonast demókratar eftir því að kjósendur hafi í huga að forsetinn náði í gegn löggjöf til að styrkja innlenda framleiðslu, berjast gegn loftslagsbreytingum og minnka kostnað við lyfseðilsskyld lyf.
Rétt eins og Biden er Trump ekki á kjörseðlinum. Tilvist hans heldur þó áfram að vera höfuðverkur fyrir repúblikana, vegna sífellt vaxandi lagaflækja í kringum hann og sömuleiðis þeirra stuðningsyfirlýsinga sem forsetinn fyrrverandi hefur gefið út.
Húsleit alríkislögreglunnar FBI í Mar-a-Lago, frístundahúsi Trumps í Flórída, og þau leyniskjöl hins opinbera sem þar fundust, hafa einna helst sett mark sitt á undanfarna mánuði.
Við það bætast rannsókn á fjármálum Trump-fjölskyldunnar og rannsókn á mögulega glæpsamlegri tilraun hans til að hundsa kosningaúrslitin árið 2020, auk ýmissa ásakana sem tengjast innrás stuðningsmanna hans í þinghúsið í janúar árið 2021.
Allt þetta er talið geta dregið úr vilja kjósenda repúblikana til að mæta á kjörstað.
Trump sjálfur hefur þó ekki haldið sig til hlés. Hann hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við fleiri en 200 frambjóðendur, oftar en ekki fólk sem afneitar úrslitum forsetakosninganna 2020.
Raunar er það svo að meirihluti frambjóðenda Repúblikanaflokksins, sem eru á kjörseðlinum í kosningum til Bandaríkjaþings og í lykilstöður innan ríkjanna sjálfra, hefur annað hvort neitað að viðurkenna eða dregið í efa niðurstöður síðustu forsetakosninga.