Gæti tekið nokkra daga að fá niðurstöður í Nevada

Kosningar í Bandaríkjunum 2022 | 9. nóvember 2022

Gæti tekið nokkra daga að fá niðurstöður í Nevada

Enn er óvíst hvort repúblikanar eða demókratar muni stjórna bandaríska þinginu næstu tvö árin. Eins og staðan er nú þykja líkur á að repúblikanar muni hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en hnífjafnt er í slagnum um öldungadeildina.

Gæti tekið nokkra daga að fá niðurstöður í Nevada

Kosningar í Bandaríkjunum 2022 | 9. nóvember 2022

Kosið í Las Vegas í Nevada.
Kosið í Las Vegas í Nevada. AFP/Ronda Churchill

Enn er óvíst hvort repúblikanar eða demókratar muni stjórna bandaríska þinginu næstu tvö árin. Eins og staðan er nú þykja líkur á að repúblikanar muni hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en hnífjafnt er í slagnum um öldungadeildina.

Enn er óvíst hvort repúblikanar eða demókratar muni stjórna bandaríska þinginu næstu tvö árin. Eins og staðan er nú þykja líkur á að repúblikanar muni hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en hnífjafnt er í slagnum um öldungadeildina.

Demókratar eru nú með 48 þingsæti og repúblikanar 47. Demókratar þurfa 50 sæti til að halda meirihluta sínum í öldungadeildinni en repúblikanar þurfa 51. Ástæðan er sú að ef sætin skipast jafnt á milli flokka þá hefur demókratinn Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, úrslitaatkvæðið.

Meðal lykilríkja sem hafa áhrif á það hvor flokkurinn fær meirihluta í öldungadeild þingsins er Nevada. 

Eins og staðan er nú hafa 80% atkvæða verið talin. Repúblikaninn Adam Laxalt hefur tæplega 3% forskot á andstæðing sinn, demókratann Catherine Cortez Masto. 

Fram­bjóðandi re­públi­kana í Nevada, Adam Laxalt.
Fram­bjóðandi re­públi­kana í Nevada, Adam Laxalt. AFP/Mario Tama/Getty Images

Yfirmenn kjörstjórnar gera ráð fyrir að niðurstöðurnar verði ekki ljósar fyrr en eftir nokkra daga þar sem um 16 þúsund manns greiddu atkvæði með pósti og því mun taka tíma að telja þá atkvæðaseðla. 

Samkvæmt kosningalögum verða atkvæðin að hafa borist í síðasta lagi fyrir laugardag, ef póststimpill þeirra er frá kjördegi.

Líklega kosið aftur í Georgíu

Þá er enn beðið niðurstöðu í öldungadeildinni í Georgíu-ríki þar sem staðan er nú hnífjöfn. 

Er 96% atkvæða hafa verið talin er demókratinn Rap­hael Warnock með 49,2% atkvæða og repúblikaninn Herschel Wal­ker með 48,7%. 

Því þykir nánast öruggt að kosið verði aftur í ríkinu þar sem að samkvæmt ríkislögum þar þarf frambjóðandi að fá meira en 50 prósent atkvæða. Líklega verða þær kosningar haldnar eftir fjórar vikur. 

Þá er enn beðið niðurstaðna í Arizona og Wisconsin.

Í Arizona leiðir demókratinn Mark Kelly með 51,9% atkvæða er 68% atkvæða hafa verið talin. Í Wisconsin leiðir repúblikaninn Ron Johnson með 50,5% atkvæða er 94% atkvæða hafa verið talin. 

mbl.is