Rannveig Borg rithöfundur og lögfræðingur var stödd á Íslandi á dögunum vegna útkomu bókar sinnar Tálsýnar. Í fyrra kom Fíkn, sem var hennar fyrsta skáldsaga, út.
Rannveig Borg rithöfundur og lögfræðingur var stödd á Íslandi á dögunum vegna útkomu bókar sinnar Tálsýnar. Í fyrra kom Fíkn, sem var hennar fyrsta skáldsaga, út.
Rannveig Borg rithöfundur og lögfræðingur var stödd á Íslandi á dögunum vegna útkomu bókar sinnar Tálsýnar. Í fyrra kom Fíkn, sem var hennar fyrsta skáldsaga, út.
Ertu byrjuð að undirbúa jólin?
„Ég er byrjuð að kaupa jólabækur og farin að undirbúa aðventudagatal fyrir son minn. Mér finnst skemmtilegt að hann fái eina litla gjöf á dag í desember. Ég fer síðan að skreyta og setja jólatréð upp mjög snemma.“
Hvernig eru nóvember og desember í lífi rithöfundarins?
„Ég kom beint til Íslands úr fríi í Afríku í byrjun mánaðar til að kynna nýju bókina Tálsýn og vann frá Íslandi á sama tíma. Á næstu vikum langar mig mest að njóta samverunnar og aðventunnar með syni mínum. Ég þarf þó eitthvað að ferðast vegna vinnu og klára vonandi enn einn kúrsinn í alþjóðlegri fíknifræði í desember. Svo stefni ég líka á að fara með syni mínum í okkar árlegu gönguskíðaferð rétt fyrir jól. Það má því segja að næstu vikur verði annasamar.
Ertu með annan fótinn á Íslandi í jólabókavertíðinni eða fylgist þú með frá Sviss?
„Ég reyni að vera sem mest í Sviss – það er svo margt sem við getum gert með tækninni í dag. Mögulega kem ég heim rétt fyrir jól.“
Hvernig varð Tálsýn til? Varstu með þessa bók í kollinum þegar þú skrifaðir Fíkn?
„Tálsýn varð til þegar ég var að klára Fíkn. Þá byrjaði hún að skrifa sig sjálf í höfðinu á mér. Mig langaði að skrifa um konu sem væri hátt sett í alþjóðlegu stórfyrirtæki. Mig langaði líka að halda áfram að fjalla um fíknitengd málefni út frá öðru sjónarhorni, koma inn á tölvuleikjafíkn og átröskunarsjúkdóma til dæmis. Ég fékk hugmynd að fléttu í tengslum við fréttatengda atburði og þá varð ekki aftur snúið. Ég fór á flug og úr varð Tálsýn sem er að einhverju leyti spennusaga líka.“
Hvernig lífi lifir þú?
„Ég er yfirleitt með marga bolta á lofti. Mér tekst stundum að afkasta mjög miklu á stuttum tíma en því fylgir oft mikið stress. Ég er í fullri vinnu, hef verið að taka kúrsa á masterstigi í alþjóðlegri fíknifræði, skrifa bækur og sinni stráknum mínum eins vel og ég get. Þess á milli stunda ég jóga, útiveru og hugsa vel um mig. Ég tel mér trú um að það vegi upp á móti álaginu. Ég á síðan góða að og fæ hjálp heima fyrir sem er auðvitað gulls ígildi.
Með aldrinum hef ég áttað mig á mikilvægi þess að gera sem mest af því sem veitir mér ánægju. Ég kann að meta áhugaverð og einlæg samskipti og hef minni þolinmæði fyrir neikvæðni og óheiðarleika. Mig langar að líf mitt sé spennandi og hafi tilgang.“
Ertu a- eða b-manneskja?
„Einu sinni hélt ég að ég væri b-manneskja. Ég hef verið a-manneskja frá því ég varð ólétt fyrir tæpum þrettán árum. Á þessu heimili er það að sofa út að sofa til níu sem gerist mjög sjaldan, oftast erum við komin á fætur milli sex og sjö á morgnana.“
Ertu dugleg að láta drauma þína rætast?
„Ég er mjög dugleg í því. Eins og ég hef sagt í viðtölum þá átti ég við átröskun að stríða sem unglingur. Ég held að sú reynsla hafi breytt mér. Það fylgir því óendanlegt frelsi að vera laus frá höftum stjórnleysis, líka kraftur og viljastyrkur að hafa sigrast á þessu. Ég læt mjög fátt stoppa mig í því að lifa mína drauma.“
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum?
„Ég heillast af kvenlegum, vönduðum og sígildum fötum. Mikið af því sem ég klæðist hef ég notað árum saman. Ég var til dæmis dugleg að kaupa föt á meðan ég bjó í London frá 2007 til 2008. Ég er enn að nota skó og dragtir frá þeim tíma. Mér finnst gaman að bæta við fallegum fylgihlutum eins og beltum og höttum. Dags daglega líður mér best í aðsniðnum gallabuxum, rúllukragapeysu, háum stígvélum og í fallegri yfirhöfn.“
Tekurðu áhættu í lífinu?
„Það fer eftir því hvernig við skilgreinum áhættu. Ég myndi ekki vilja koma mér eða mínum í hættu, aftur á móti finnst mér gaman að takast á við erfið, krefjandi og spennandi verkefni. Ég flutti ein til Parísar þar sem ég lærði lögfræði á frönsku, opnaði seinna útibú í London fyrir íslenska lögmannsstofu og flutti ein til Sviss með níu mánaða gamalt barn. Fyrir einhvern er þetta djarft eða áhætta, vissulega hafa sum verkefni verið krefjandi en fyrst og fremst gefandi. Ég á gott líf og góða að – víða.“
Hvernig ræktar þú vini þína og fólkið í kringum þig?
„Sonur minn er enn ungur og ég læt hann ganga fyrir. Fyrir aðra er ég til staðar eins og ég get, en eins og með lífið getur það verið kaflaskipt. Enda eru vinir mínir og fjölskylda út um allan heim. Fjarlægð getur þó ekki skemmt sönn og einlæg tengsl.“
Hver er besta bók sem þú hefur lesið?
„Þær eru mjög margar, í gegnum tíðina hafa þessar bækur til dæmis hreyft við mér: Ástin á tímum kólerunnar; Emma Bovary og Svar við bréfi Helgu. Og mér finnst reyndar nýja bókin hennar Opruh Winfrey frábær; „What happened to you“.“
Uppáhaldshlutur/húsgagn?
„Jógadýnan á svölunum.“
Hver er besta bíómynd allra tíma?
„Það er engin ein en þýsku myndirnar Gegen die Wand og Leben der Anderen fannst mér mjög góðar, einnig Notebook og Shawshank Redemption til dæmis.“
Uppáhaldssmáforrit?
„Flest samskipti hjá mér fara fram í gegnum whatsapp.“
Hver er fyrirmynd þín í lífinu?
„Mér finnst Jane Fonda frábær. Þorir að segja hvað henni finnst og var að berjast við átröskun á yngri árum. Svona konur gefa mér kraft til að tala um mína reynslu. Svo finnst mér Andrew D. Huberman mesti töffarinn. Hann er með hlaðvarpið Huberman Lab. Ég dáist almennt að fólki sem þorir að fylgja eigin sannfæringu, er hugrakkt, heiðarlegt og einlægt eins og forsetahjónin okkar til dæmis.“
Hvað gerir þú til þess að rækta þig?
„Ég stunda jóga, fer út í náttúruna, hitti vini og áhugavert fólk, fer í nudd, sem er vanmetnasta heilsuræktin, og les góða bók.“
Hefur þú gert eitthvað sem þú sérð eftir?
„Ég hef gert mistök, fullt af þeim, en það er hluti af lífinu og að vera manneskja. Hvernig er hægt að lifa lífinu án þess að gera mistök? Eftirsjá skilar engu jákvæðu, alltaf lærir maður. Mín mistök eru þó ekkert í líkingu við það sem sögupersónur mínar í Fíkn og Tálsýn hafa gengið í gegnum.“
Hverju myndirðu breyta í lífi þínu ef þú gætir?
„Mig langar að einfalda líf mitt, helst komast upp á lagið með bíllausan lífsstíl og að hafa minna dót í kringum mig. Mig langar að finna leið til að hjálpa þeim sem eru að berjast við stjórnleysi á einn eða annan hátt. Áhugaverður lífsförunautur væri vissulega bónus.“
Hvað var það besta við 2022?
„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ár enda stórafmælisár. Ég hef ferðast mikið með syni mínum bæði um fallega landið okkar Ísland og ég lét gamlan draum rætast og fór í safaríferð til Tansaníu og Keníu. Og gaf út aðra bók. Ætli það besta hafi ekki verið að fá ferðafrelsið aftur.“