Refsingar og hótanir virka öfugt á þetta fólk

Valgeir Magnússon | 29. nóvember 2022

Refsingar og hótanir virka öfugt á þetta fólk

„Ég er búinn að vera að velta fyrir mér refsingum og hvort refsingar virka. Heimurinn er fullur af refsingum og við erum því alin upp í skólakerfinu og lífinu sjálfu við það að ef við högum okkur ekki eins og við eigum að gera þá sé okkur refsað. Þannig eigum við að læra af reynslunni og láta af þeirri hegðun,“ segir Valgeir Magnússon markaðsmaður í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Refsingar og hótanir virka öfugt á þetta fólk

Valgeir Magnússon | 29. nóvember 2022

Valgeir Magnússon.
Valgeir Magnússon.

„Ég er búinn að vera að velta fyrir mér refsingum og hvort refsingar virka. Heimurinn er fullur af refsingum og við erum því alin upp í skólakerfinu og lífinu sjálfu við það að ef við högum okkur ekki eins og við eigum að gera þá sé okkur refsað. Þannig eigum við að læra af reynslunni og láta af þeirri hegðun,“ segir Valgeir Magnússon markaðsmaður í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

„Ég er búinn að vera að velta fyrir mér refsingum og hvort refsingar virka. Heimurinn er fullur af refsingum og við erum því alin upp í skólakerfinu og lífinu sjálfu við það að ef við högum okkur ekki eins og við eigum að gera þá sé okkur refsað. Þannig eigum við að læra af reynslunni og láta af þeirri hegðun,“ segir Valgeir Magnússon markaðsmaður í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Fáum punkta fyrir mætingu, í umferðinni, látin sitja eftir, gera armbeygjur, borga sektir, einangruð í skammarkrók, ekki boðið með, tölvan tekin og svo mætti lengi telja.

En hvað gerir þetta fyrir okkur? Bregðast allir eins við refsingunum og breyta, brosa og bæta sig? Nei, það er nefnilega ekki þannig. Sumir eru þannig gerðir að þeir taka hlutina meira inn á sig en aðrir. Taka hlutunum persónulega og refsingin er persónuleg árás á þá. Þessir einstaklingar sýna refsingunni mótþróa og koma sér í sífellt verri stöðu þar til þeir verða algjörlega utanveltu í samfélaginu. Samt höldum við áfram að refsa þeim meira til að þeir læri örugglega af reynslunni.

Nú hef ég engin vísindi fyrir mér í þessu en með reynslunni af stjórnun stórra fyrirtækja, sem foreldri, þjálfari og í hópavinnu með fjölda fólks er maður farinn að þekkja þessi persónueinkenni. Þetta er fólkið sem oft er sagt sjálfu sér verst. En er það þannig? Erum við hin kannski bara vond við þetta fólk, því það er á skjön við okkur?

Mín reynsla er að fólk með þessi karaktereinkenni er oft mikið hæfileikafólk sem sér heiminn oft frá annarri hlið en flestir. Næmt fólk. Oft með áfallasögu. Þróar oft með sér alkóhólisma. Ekki veit ég hvað kemur á undan hinu. Hvað er afleiðing og hvað orsök. En þessu hef ég tekið eftir og eflaust eru til fræði um þetta.

Það eina sem ég veit fyrir víst er að refsingar og hótanir virka öfugt á þetta fólk. Hvorki sá sem refsar né sá sem er refsað nær árangri með þeirri aðferð. Fangelsin eru full af fólki með nákvæmlega þessi einkenni. Byrjuðu í æsku að vera á skjön og var refsað, brugðust illa við og var aftur refsað. Svona verður til vítahringur fólks sem upplifir sig óvelkomið í samfélaginu. Ekki elskað og upplifir sig bara fyrir. Þessu fólki refsum við svo endanlega með því að setja það í öryggisfangelsi á Hólmsheiðinni.

Um daginn hitti ég manneskju sem á einmitt áfallasögu og tók út tímabil í mikilli drykkju og annarri neyslu. Hún var ítrekað tekin undir áhrifum við akstur og hún var á endanum dæmd til fangelsisvistar í 6 mánuði. Eftir dóminn tók hún sig á í lífinu og beið eftir að fara í fangelsið. Breytti um líferni, kláraði stúdentspróf með vinnu og fór svo í háskólanám.

En í maí í fyrra (mörgum árum eftir dóminn) varð inngrip í hennar líf á sama tíma og hún var í miðjum prófum í háskólanum. Fyrningartími á fangelsisdóminn var alveg að renna út svo hún var sótt af lögreglu með engum fyrirvara og stungið í öryggisfangelsið á Hólmsheiði. Ofan á það var hún sett í einangrun í 14 daga. Það úrræði hefur hingað til verið notað sem refsing fyrir fanga sem haga sér mjög illa en í þessu tilfelli var það vegna Covid-reglna. Hún sá því sólarljós í 1 klukkutíma á sólarhring í 14 daga. Hún þurfti svo að dúsa í fangelsi fram til september. Skólaárið ónýtt, leiguskuld vegna íbúðarinnar orðin illyfirstíganleg og vinnan farin.

Þá fékk hún að fara á Vernd þar sem hún hafði útivistartíma frá kl. 8:00 til 20:00. Þar sem hún hefur unnið sem þjónn með skólanum mátti hún ekki vinna við það vegna útivistartímans.

Nú er þessi manneskja að koma aftur út í lífið sem fullgildur samfélagsþegn sem má t.d. fara í leikhús og hitta annað fólk eftir kl. 20:00 á kvöldin og má vinna í veitingageiranum aftur. En hvað kom út úr þessu öllu? Ætli hún hagi sér betur eða er búið að brjóta hana og traust hennar til samfélagsins?

Mun hún sjá tilgang í því að fylgja straumnum eða kemur upp mótþrói og Fuck it-hugsun? Hefði kannski verið betra að bjóða þessari manneskju hjálp á sínum tíma frekar en refsingu? Hefði verið sniðugra að skoða tímann sem hún beið og meta hvort refsingin væri nauðsynleg? Hvað kostaði þetta samfélagið og hana?

Er kannski kominn tími til að hugsa málið upp á nýtt og breyta þessu refsiblæti í eitthvað sem virkar? Er þetta ekki frekar spurning um að hjálpa fólki út í lífið frekar en að refsa því til hlýðni? Ef fólk misstígur sig, eigum við að halda áfram að berja á því eða eigum við að hjálpa því á fætur?

Væri kannski mál til komið að heilbrigðiskerfið liti á t.d. alkóhólisma sem sjúkdóm en léti ekki bara áhugasamtökum um þann hluta kerfisins þar sem bara ákveðið margir megi fá lækningu á ári, sama hversu margir eru veikir. Þar er einmitt líka komið upp refsikerfi til að hægt sé að úthluta þessum fáu plássum til þeirra sem haga sér best. En þeir sem eru veikastir eru einmitt þeir sömu og halda endalaust áfram að fá refsingar. Refsingu fyrir að mæta of seint í meðferð og refsingu fyrir að sjúkdómurinn tekur sig upp aftur. En það er partur af sjúkdómnum. Hér er nefnilega um andlegan sjúkdóm að ræða sem ekki fer í sumarfrí eða er bundinn við kvóta ríkisins. Heldur eru 10% fólks haldin þessum sjúkdómi og við höldum áfram að reyna að refsa fólki til að fá það til að hætta að vera með sjúkdóminn. Það bara virkar ekki.

mbl.is