Bergljót heklaði fjögurra metra hátt jólatré á Ítalíu

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

Bergljót heklaði fjögurra metra hátt jólatré á Ítalíu

Bergljót Leifsdóttir Mensuali hefur búið í Flórens og nágrenni í 38 ár. Í samstarfi við vistmenn á hjúkrunar- og dvalarheimili í borginni heklaði hún fjögurra metra hátt jólatré. 

Bergljót heklaði fjögurra metra hátt jólatré á Ítalíu

Jóla jóla ... | 24. desember 2022

Bergljót Leifsdóttir Mensuali við jólatréð.
Bergljót Leifsdóttir Mensuali við jólatréð. Ljósmynd/Aðsend

Bergljót Leifsdóttir Mensuali hefur búið í Flórens og nágrenni í 38 ár. Í samstarfi við vistmenn á hjúkrunar- og dvalarheimili í borginni heklaði hún fjögurra metra hátt jólatré. 

Bergljót Leifsdóttir Mensuali hefur búið í Flórens og nágrenni í 38 ár. Í samstarfi við vistmenn á hjúkrunar- og dvalarheimili í borginni heklaði hún fjögurra metra hátt jólatré. 

Eftir stúdentspróf úr máladeild frá Verzló árið 1984 ákvað ég að fara í sex mánuði til Flórens á Ítalíu til að læra ítölsku. Ég heillaðist strax af Flórens og langaði til að læra prjónahönnun en því miður þurfti ég að gefa þann draum upp á bátinn þar sem mér höfðu ekki verið gefnir teiknihæfileikar í vöggugjöf,“ segir Bergljót sem fór í ferðamálanám en sagði síður en svo skilið við handavinnuna.

„Ef það er eitthvað sem ég er þakklát íslensku skólakerfi fyrir þá er það kennsla í hannyrðum og smíði. Ég fæddist 1964 og gekk í Melaskóla og í Hagaskóla. Ég prjónaði fyrstu peysuna á mig átta ára og föt á Barbie-dúkkuna mína. Þegar ég var í 6. bekk í Verzló sat ég fyrir framan skrifstofu skólastjórans, Þorvarðar Elíassonar, og spyr hann mig hvort ég ætli að prjóna mig út úr stúdentsprófi. Þá fékk ég þá hugmynd að bekkurinn, sem var stelpubekkur, ætti að vera hnyklar á dimmissjón,“ segir Bergljót um djúpstæðan prjónaáhugann. Nú hefur hins vegar heklið tekið við.

Bergljót að hekla.
Bergljót að hekla. Ljósmynd/Aðsend

Draumurinn um jólatréð

Bergljót er formaður alþjóðlega góðgerðarfélagsins The American-International League of Florence (AILO). Segja má að Bergljót hafi verið alin upp í góðgerðarstarfsemi en móðir hennar var gjaldkeri Hringsins og föðuramma formaður um tíma.

„Sumarið 2018 hafði starfsfólk hjúkrunar- og dvalarheimilisins Il Gignoro í Flórens samband við mig, en ég sá um samfélagsþjónustu í sjálfboðaliðastarfi fyrir AILO. Þau báðu mig að taka þátt í að skreyta fallega garðinn þeirra með prjónuðum stykkjum, sem vistmenn og þeir sem eru í dagvistun myndu prjóna,“ segir Bergljót sem sagðist ekki hafa neina reynslu af „yarn bombing“ en það er þegar til dæmis tré eða hlutir eru skreyttir eða jafnvel klæddir með handavinnu. Starfsfólkið hafði fulla trú á Bergljótu.

„Ég kom til Íslands um jólin 2018 og sama kvöld og ég lenti fékk ég mynd af hekluðu jólatré frá einni af starfskonunum. Ég skildi strax að hún vildi að við gerðum svona jólatré og ég hugsaði með mér að kannski gætum við gert jólatré með hjálp margra hjúkrunar- og dvalarheimila. Sumarið 2019 vorum við búin að skreyta garðinn með prjónuðum og hekluðum stykkjum en jólatréð hélt áfram að vera fjarlægur draumur. Að vísu hafði kona í bænum Trivento á Suður-Ítalíu, þar sem fyrsta heklaða jólatréð var gert, sent mér vinabeiðni á Facebook,“ segir Bergljót.

Draumurinn um jólatréð lifði en í millitíðinni skall kórónuveiran harkalega á. Í faraldrinum prjónaði hún ásamt nokkrum vinum jólagjafir handa vistmönnum. „Við gerðum okkur fljótt grein fyrir því að við vorum öflugur hannyrðahópur og þá drógum við aftur fram draum okkar um heklaða jólatréð. Ég hafði samband við konuna á Suður-Ítalíu og hún leiðbeindi mér og sagðist hafa fulla trú á að ég gæti gert þetta jólatré að raunveruleika,“ segir Bergljót en í dag eru 42 í hópnum.

Jólatréð er fallegt á að líta.
Jólatréð er fallegt á að líta. Ljósmynd/Aðsend

„Dvalarheimilið stofnaði facebooksíðuna „La Combriccola delle Sferruzzatrici“, sem þýðir Prjónahópurinn. Mér var sagt að við þyrftum 3.400 10x10 sentímetra stykki til að gera þetta jólatré, sem er fjórir metrar að hæð. Í nóvember 2021 vorum við með 5.200 stykki í höndunum. Það tók okkur sex mánuði að prjóna og hekla stykkin og tvo daga að setja þau á málmgrind. Ég fékk leiðsögn í gegnum síma frá Trivento um hvernig ég ætti að setja þetta á hænsnanetið sem er utan um grindina,“ segir Bergljót.

Ítalir skreyta jólatrén sín 8. desember og það var því við hæfi að 8. desember í fyrra var kveikt á fyrsta heklaða trénu í Flórens. „Við hugsuðum þetta sem farandjólatré, það er að það fari í lán á önnur dvalarheimili.

Bergljót er stórhuga og alls ekki hætt að hekla. „Hinn 11. og 12. nóvember 2023 munum við „teppaleggja“ sama torg með hekluðum og prjónuðum stykkjum. Verða teppi sem samanstanda af fjórum 50x50 sentímetra stykkjum seld og ágóðinn rennur til samtaka í Flórens sem aðstoða fórnarlömb ofbeldis. Heimasíðan er Vivavittoria.it og munum við heita Viva Vittoria Firenze. Við erum búin að hekla um 200 stykki og það er nú þegar byrjað að hvísla því að mér hvort ég ætli ekki að skipuleggja líka Viva Vittoria Reykjavík í nánustu framtíð. Það má því segja að þrátt fyrir að ég hafi ekki farið út í prjónahönnun sé ég að láta þann draum rætast með því að vera í fremstu víglínu í svona stórum hannyrðaverkefnum.“

Er fædd jólabarn

„Ég fæddist 27. desember, mamma fæddist á jóladag og móðursystir mín og tvær frænkur á annan í jólum svo jólin voru heldur betur hátíð í minni æsku. Náttúrlega fylgdi því mikið jólastress og hef ég því ekki verið mikið fyrir að stressa mig fyrir jólin. Við skreytum gluggana með óróum frá Georg Jensen. Dóttir mín setti jólasokk út í gluggann og komu alla hennar barnæsku íslensku jólasveinarnir á hverri nóttu. Hún er 25 ára í dag og keypti ég mikið jólaskraut á jólamarkaðnum, þar sem tréð verður í ár, og setti það í jólasokkinn. Við eigum gervijólatré og skreytir dóttirin það með jólaskrautinu sem við höfum safnað. Þarna er meira að segja skraut frá Arabísku furstadæmunum, Bretlandi og náttúrlega Íslandi,“ segir Bergljót.

Íslenskar uppskriftir eru meðal þess sem er lykilatriði á aðventunni hjá Bergljótu á Ítalíu.

„Fyrir jólabasarinn hjá AILO árin 2017 og 2018 bökuðum við mæðgurnar piparkökur eftir uppskrift frá Ísafirði, bjuggum til 15 lítra af jólaglöggi og 10 lítra af heitu súkkulaði. Við vorum orðnar þekktar í Flórens fyrir jólaglöggina og piparkökurnar, en núna þarf veitingaleyfi til að selja og framreiða,“ segir Bergljót, sem bakar nú bara fyrir sig og sína nánustu.

Margar hendur vinna létt verk, sérstaklega með góðu skipulagi.
Margar hendur vinna létt verk, sérstaklega með góðu skipulagi. Ljósmynd/Aðsend

„Oftast baka ég jólaköku eftir uppskrift móðursystur minnar 8. desember. Á Þorláksmessu elda ég íslenskan saltfisk, sem ég kaupi í Flórens, en á aðfangadag hef ég svínakjöt og elda það eftir íslenskri uppskrift. Í eftirrétt hef ég þeyttan rjóma, súkkulaðibita og muldar makkarónur, en þetta er uppskrift frá móðursystur minni. Við bökum piparkökur og sörur en við förum oftast til Siena fyrir jól og kaupum kökur sem tengjast jólunum þar.“

Ítalskar jólahefðir eru öðruvísi en þær íslensku og eru þær líka hluti af jólunum hjá Bergljótu. „Á jóladag erum við með föðurfjölskyldu mannsins míns og er setið til borðs í tvær klukkustundir. Yfirleitt borðum við forrétt, sem er hráskinka, spægipylsa, snittubrauð með kjúklingalifrarpaté, lasagne, lambakjöt og í eftirrétt eru þurrkaðar fíkjur með hnetum inni í, panettone, sem er ítalska jólakakan, og bakkelsið frá Siena,“ segir Bergljót.

mbl.is