Kvikmyndatónskáldið Hildur Guðnadóttir kemur til með að semja tónlistina fyrir kvikmyndina Joker: Folie á Deux sem er framhald af kvikmyndinni Joker. Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í fyrri kvikmyndinni sem Todd Phillips leikstýrði og Joaquin Phoenix fór með aðalhlutverk í.
Kvikmyndatónskáldið Hildur Guðnadóttir kemur til með að semja tónlistina fyrir kvikmyndina Joker: Folie á Deux sem er framhald af kvikmyndinni Joker. Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í fyrri kvikmyndinni sem Todd Phillips leikstýrði og Joaquin Phoenix fór með aðalhlutverk í.
Kvikmyndatónskáldið Hildur Guðnadóttir kemur til með að semja tónlistina fyrir kvikmyndina Joker: Folie á Deux sem er framhald af kvikmyndinni Joker. Hildur hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlistina í fyrri kvikmyndinni sem Todd Phillips leikstýrði og Joaquin Phoenix fór með aðalhlutverk í.
Variety greinir frá en Hildur prýðir forsíðu tímaritsins um þessar mundir.
Joker kom út árið 2019 og námu tekjur myndarinnar rúmlega einum milljarði um allan heim. Phillips mun einnig leikstýra framhaldsmyndinni en hann skrifar einnig handritið ásamt Scott Silver. Framleiðsla er hafin og Hildur er byrjuð að semja tónlistina.
Phoenix fer með hlutverk í kvikmyndinni en söngkonan Lady Gaga verður í hlutverki Harley Quinn. Áætlað er að myndin Joker: Folie á Deux komi út á næsta ári.
Í viðtalinu við Variety segist Hildur eiga erfitt með að standa í sviðsljósinu. Í upphafi árs 2020 vann hún hver verðlaunin á fætur öðru, Óskar, Grammy, Emmy og Bafta-verðlaun. „Ég var búin að vera í tónlistarheiminum í 20 ár og öllum var alveg sama,“ sagði Hildur í viðtalinu.
„Það var rosalega mikil breyting fyrir mig að fá svona mikla athygli. Síðan auðvitað, strax eftir Óskarinn kom Covid. Þannig að það var algjör U-beygja líka, frá öllum viðburðunum yfir í að hitta ekki neinn. Og það gerði upplifunina enn súrrealískari. Að vera ein, síðan í kringum allt þetta fólk og svo var ég aftur ein með sjálfri mér,“ sagði Hildur.
Hún sagðist miklu frekar vilja vera í hljóðverinu sínu í Berlín að spila á sellóið sitt, keyra son sinn í skólann eða að elda kvöldmat fyrir fjölskylduna sína. Hildur er búsett í Berlín ásamt eiginmanni sínum, breska tónskáldinu og framleiðandanum Sam Slater, og syni sínum.
Hildur verður að öllum líkindum áberandi á verðlaunahátíðunum sem fram undan eru. Hún var tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir tónlist sína í Women Talking og er á stuttlista fyrir tilnefningu til Óskarsverðlauna.