Enn óljóst hvernig kostnaðurinn skiptist

Þjóðarhöll | 16. janúar 2023

Enn óljóst hvernig kostnaðurinn skiptist

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir enn vera óljóst hvernig kostnaðarskiptingin verði á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins í byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardalnum. 

Enn óljóst hvernig kostnaðurinn skiptist

Þjóðarhöll | 16. janúar 2023

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir enn vera óljóst hvernig kostnaðarskiptingin verði á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins í byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardalnum. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir enn vera óljóst hvernig kostnaðarskiptingin verði á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins í byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardalnum. 

„Það er umræða sem við þurfum að eiga núna við ríkisstjórnina í framhaldinu,“ segir Dagur í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund í hádeginu. 

„Ég hef verið mjög ánægður með samstarfið hingað til og efast ekki um að við getum lent því á einhvern sanngjarnan hátt.“

Hafa lagt til hliðar fé

Hann segir að vitað sé að töluverður kostnaður byggingar nýrrar þjóðarhallar sé vegna þarfa landsliða og stærri viðburða sem sé því ríkismegin. 

„En við vitum líka að mjög mikið af tímunum sem að verða notaðir í húsinu er vegna æfinga Þróttar og Ármanns og notkun nærliggjandi skóla á húsnæðinu. Þannig að það má nálgast þetta úr mismunandi áttum. Ég held að við þurfum að mætast í þessu, annars vegar varðandi stofnkostnaðinn og hins vegar varðandi reksturinn. Þannig að það verði ekki hik á framgangi málsins vegna þess að þeir sem að því standa leggist í áralangar deilur.“

Nú hafa miklar hagræðingar verði kynntar hjá borginni, hefur hún efni á að fara í svona framkvæmd?

„Við höfum sagt það alveg skýrt á undanförnum árum að það þurfi að gera bragabót á aðstöðunni fyrir æfingar barna og unglinga í Laugardalnum vegna þess að núverandi aðstaða er algjörlega sprungin. Það þarf líka að gera úrbætur í íþróttamálum skólanna okkar í dalnum. Þannig að við höfum sett til hliðar ákveðið fé vegna þessara þarfa og teljum að þessi skýrsla framkvæmdanefndar sýni að það er komið mjög vel til móts við þær þarfir í þeim hugmyndum sem fyrir liggja, og kannski gott betur,“ segir Dagur og bætir við að ýmsu sé að hyggja, til dæmis æfingaöryggi. 

Hann bætir þó við að mikilvægt sé að ríkið komi að verkefninu. 

„Umtalsverður hluti kostnaðarins tengist þjóðarleikvangahlutverkinu. Báðir aðilar þurfa að mætast í þessu og ná sameiginlegri niðurstöðu.“

Gamla höllin verður áfram í notkun

Spurður hvert hlutverk gömlu Laugardalshallarinnar verði er nýja höllin verður komin í notkun nefnir Dagur að hún sé endurbætt að stórum hluta og því muni hún nýtast áfram sem íþróttahús. 

Hann segir að íþróttafélögin Þróttur og Ármann muni njóta góðs af báðum höllunum.

„Við höfum séð það af þessum fyrstu greiningum að miðað við þarfir félaganna þá hefði sérstaka húsið sem var ráðgert fyrir Þrótt og Ármann mætt þörfunum verr heldur en með tilkomu þjóðarhallarinnar. Í raun var það hús sem ráðgert var þegar sprungið miðað við þær kröfur og óskir sem félögin hafa sett fram um æfingatíma,“ segir Dagur. 

Hann segir að verið sé að kortleggja þörf íþróttafélaganna enn nánar með framkvæmdanefndinni svo hægt sé að tryggja æfingaöryggi hjá félögunum. 

„Það sem hefur verið gallinn undanfarin ár í Laugardalshöllinni – eins ágæt og hún er – er að þegar viðburðir hafa tekið þar yfir þá hefur ekkert annað komið í staðin. En núna með þessum miklu fleiri völlum og auknum sveigjanleika þá teljum við að þessum sjónarmiðum megi mæta.“

Gætu þurft að endurnýja búningsklefa á næstu árum 

Spurður hvort það þurfi ekki frekari endurbætur á gömlu höllinni minnist Dagur á að henni hafi verið lokað á meðan heimsfaraldrinum stóð til þess að takast á við heilmikið vatnstjón. 

„Í kjölfarið voru öll gólf endurnýjuð, líka lýsing og hljóðkerfi. Þannig að hún er þegar búin að fara í gegnum nokkrar endurbætur. Það getur verið að það þurfi að taka búningsklefa og bakrýmin aðeins á næstu árum en salurinn sjálfur er býsna góður, eins og þeir sem voru viðstaddir bikarúrslitin um helgina urðu vitni að,“ segir borgarstjórinn að lokum. 

mbl.is