Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að ný þjóðarhöll eigi að vera í eigu ríkis og borgar. Enn er óvíst með hvaða hætti rekstrarfyrirkomulag hallarinnar verður og hvernig hún verður fjármögnuð.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að ný þjóðarhöll eigi að vera í eigu ríkis og borgar. Enn er óvíst með hvaða hætti rekstrarfyrirkomulag hallarinnar verður og hvernig hún verður fjármögnuð.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að ný þjóðarhöll eigi að vera í eigu ríkis og borgar. Enn er óvíst með hvaða hætti rekstrarfyrirkomulag hallarinnar verður og hvernig hún verður fjármögnuð.
„Nú er búið að leggja töluverða vinnu í að greina þörfina og það er alveg ljóst að þörfin er mikil hjá borginni hvað varðar æfingahúsnæði, bæði fyrir íþróttafélög og skóla. Hún er líka mikil hjá sérsamböndunum þegar kemur að afreksstarfi. Þannig að nú finnst mér að við þurfum að byggja á þeirri þarfagreiningu og ná saman um þessa kostnaðarskiptingu. Það er augljóslega krefjandi.“
Þetta segir Katrín spurð hvernig ríkið og Reykjavíkurborg munu deila kostnaði við byggingu nýrrar þjóðarhallar eftir blaðamannafund í dag.
Hún segir það vera skyldu beggja aðila að ná góðri lendingu um málið.
„Þetta er auðvitað verkefni sem mun bæði verða ríki og borg til hagsbóta til lengri tíma litið.“
Á fundinum nefndi Katrín byggingu Hörpu, en hún var mennta- og menningarmálaráðherra er húsið var í byggingu.
„Ég myndi segja að eftir á að hyggja séu allir sammála um að það hafi verið skynsamleg fjárfesting fyrir báða aðila.“
Katrín nefnir að hennar afstaða sé að eignarhaldið eigi að liggja hjá ríkinu og borginni, en enn eftir eigi að ræða hver sjái um rekstrarkostnað.
„Það er að segja hvort það verði mögulega í samstarfi við einhvern einkaaðila eða hvort borgin sé með meiri ábyrgð á rekstrinum en minni. Það er allt eitthvað sem á líka eftir að ræða. Mér finnst hins vegar er að ræða svona mannvirki að það eigi að vera í eigu almennings, þar með ríkis og borgar.“
Hún nefnir að höllin muni ekki einungis nýtast til barna og ungmennastarfs og afreksíþrótta, þó að það sé þungamiðjan, heldur líka sem miðstöð almenningsíþrótta og lýðheilsu.
Framkvæmdir á þjóðarhöllinni eiga að hefjast á næsta ári og stefnt er að verklokum árið 2025.
Ertu bjartsýn á að þessi tímaáætlun gangi upp?
„Þetta er metnaðarfullt eins og við sögðum. Það má í sjálfu sér ekkert út af bregða til þess að þetta gangi upp en þetta er hægt. Um leið erum við að setja pressu á okkur sjálf. Þetta er verkefni sem er búið að vera í umræðu afskaplega lengi, mörg ár. Tilgangur þessa fundar var svolítið að segja hingað erum við komin, þetta er það sem er búið að gera en við erum í miðri á, við erum ekki búin með eitt né neitt,“ segir Katrín og bætir við að viljinn sé að halda öllum sem best upplýstum.
Nú eru miklar hagræðingar hjá borginni, hefurðu einhverjar áhyggjur af því að þetta muni lenda meira á ríkinu fjárhagslega?
„Þörfin er rík, ekki minni hjá borg en ríki. Ég held að það heyri síðan upp á okkur að ná einhverri lendingu í það. Ríkið hefur líka verið að kæla ákveðnar framkvæmdir vegna stöðu efnahagsmála, þannig að við þurfum líka að vera raunsæ með það og erum þá sérstaklega að horfa á árið 2023. Það verður ekki stórt í framkvæmdum í þessu verkefni,“ segir hún og bætir við að ekki sé verið að byggja til næstu ára, heldur áratuga.
„Það má ekki gleyma því, þegar við horfum á allar þær byggingar sem skipta okkur máli, að það hefur verið allskonar efnahagslegt árferði þegar ákveðið var að byggja þær. En þær hafa staðið það af sér og skipt verulegu máli til þess að ná þessum árangri sem við viljum ná.“
Katrín minnist á það að lokum að íþróttafólk hafi lengi kallað eftir nýrri þjóðarhöll og þau eigi það skilið að fá sína ósk uppfyllta.