Leggja til að viðhalda kvótakerfinu

Fiskveiðistjórnunin | 17. janúar 2023

Leggja til að viðhalda kvótakerfinu

Starfshópar í verkefninu „Auðlindin okkar“, sem snýr að stefnumótun í málum fiskveiðiauðlindarinnar, leggja meðal annars til að aflamarkskerfinu verði viðhaldið.

Leggja til að viðhalda kvótakerfinu

Fiskveiðistjórnunin | 17. janúar 2023

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson formaður starfshópsins Aðgengi …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson formaður starfshópsins Aðgengi á kynningarfundi bráðabirgðatillagna. Ljósmynd/Matvælaráðuneytið

Starfshópar í verkefninu „Auðlindin okkar“, sem snýr að stefnumótun í málum fiskveiðiauðlindarinnar, leggja meðal annars til að aflamarkskerfinu verði viðhaldið.

Starfshópar í verkefninu „Auðlindin okkar“, sem snýr að stefnumótun í málum fiskveiðiauðlindarinnar, leggja meðal annars til að aflamarkskerfinu verði viðhaldið.

Einnig leggja þeir til að veiðiskylda verði hert.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatillögum starfshópanna sem birtar hafa verið á vef matvælaráðuneytisins.

Þá er lagt til að unnið verði að því að einfalda og samræma löggjöf á sviði fiskveiðistjórnunar í ein heildarlög og lögfesta í stjórnarskrá ákvæði um fiskveiðiauðlindina sem sameign þjóðarinnar.

Skipaði samráðsnefnd og fjóra starfshópa

Í tengslum við fiskveiðistjórnunarkerfið leggja hóparnir einnig til tilfærslu almenns byggðakvóta, afnám 5,3% kerfisins og nýta afraksturinn til uppbyggingar dreifðra byggða, endurskoðun skel- og rækjubóta sem og línuívilnun. Jafnfram er lagt til að sértækur byggðakvóti verði ráðstafað til byggða þar sem veiðar og vinnsla eiga framtíð fyrir sér auk þess sem tekið verði til skoðunar hvort, hvar og hvernig sé heppilegt að koma á kerfi með svæðisbundnum nýtingarrétti. Auk þess sem skerpt og endurskoðað verði markmið strandveiða.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og fjóra starfshópa þann 31. maí í fyrra sem lið í opnu stefnumótunarferli sem á að mynda heildarstefnu um nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.

Hóparnir hafa nú skilað alls 60 tillögum sem flokkað er í rannsóknir og nýsköpun, verndarsvæði, veiðisvæði og veiðarfæri, umgengni um sjávarauðlindina, orkuskipti í sjávarútvegi, kerfi fiskveiðistjórnunar, nýting gagna, markaðssetning, sala og orðspor, menntun, auðlindagjöld, gagnsæi sjávarútvegsfyrirtækja, starfsumhverfi í sjávarútvegi og löggjöf á sviði fiskveiðistjórnunar.

Markmiðið samstaða

„Markmiðið með verkefninu Auðlindin okkar hefur frá byrjun verið að auka sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem gætt er að umhverfissjónarmiðum, þar sem verðmætin eru hámörkuð og þar sem dreifing verðmætanna er með sem sanngjörnustum hætti. Að auka sátt um sjávarútveg á Íslandi,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þar er jafnframt bent á að starfshóparnir séu hálfnaðir með vinnu sína og að þeir hafi fundað með fjölda fólks, sérfræðingum, hagaðilum og almenningi, aflað fjölþættra gagna og lagt fram tilgátur og rannsóknaspurningar.

„Margar tillagnanna eru skýrar og til þess fallnar að efla samstöðu og skerpa sýn á málaflokkinn meðan aðrar munu kalla á sterk og ólík viðbrögð. Framundan er mikilvægur ferill í því skyni að byggja enn betur undir lokatillögur hópanna sem verður skilað í maí á þessu ári. Áhersla er lögð á að tillögurnar eru í vinnslu og að ekki er um endanlega afurð að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Vinnan hefur gengið samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að lokaniðurstöður verði tilbúnar í vor. Í kjölfarið stendur til að hefja undirbúning að lagafrumvörðum og þau verði lögð fram fullbúin á vorþingi 2024.

mbl.is