Ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón gærdagurinn hafði í för með sér fyrir Icelandair.
Ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón gærdagurinn hafði í för með sér fyrir Icelandair.
Ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón gærdagurinn hafði í för með sér fyrir Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir að verið sé að meta skemmdir sem urðu á vél sem snerist á vellinum og rakst utan í landinngang. Þá hlýst einhver kostnaður af langvarandi dvöl farþega í flugvélum á Keflavíkurflugvelli, en bóka þurfti hótel og nýtt flug fyrir hluta þeirra.
„Við erum að reka flugfélag við erfiðar aðstæður og við gerum alltaf ráð fyrir í okkar áætlunum að það falli einhver kostnaður til út af veðri og truflunum sem að af því hlýst en hvert tjónið varð í gær, það liggur ekki fyrir,“ segir Bogi í samtali við mbl.is.
Snemma á laugardaginn gaf Veðurstofa Íslands út gula veðurviðvörun fyrir suðvesturhorn landsins sunnudaginn. Hún var síðar uppfærð í appelsínugula. Veðuraðgerðastjórn Isavia fundaði með flugfélögum klukkan hálfsjö á laugardagskvöldið þar sem farið var yfir möguleg áhrif af veðrinu á starfsemi flugvallarins.
Átta flugvélar Icelandair frá Norður-Ameríku lentu um sexleytið í gærmorgun á Keflavíkurflugvelli. Eins og komið hefur fram tókst ekki að ferja flesta farþegana úr vélunum fyrr en síðdegis og höfðu sumir þá beðið í 12 klukkustundir áður en þeir komust loks inn í Leifsstöð.
„Við viljum vera búin undir krefjandi aðstæður, og við erum það, en okkar fókus er fyrst og fremst á öryggið, og að það fari eins vel um okkar farþega og viðskiptavini eins og hægt er. Þau atriði eru alltaf númer eitt tvö og þrjú.
Þrátt fyrir að mjög margir farþegar okkar hafi lent í mjög óþægilegri lífsreynslu í gær, að dúsa í flugvélum á jörðu niðri í hávaðaroki og miklum hristingi, að þá heilt yfir gekk þetta slysalaust fyrir sig sem betur fer.“ segir Bogi.
Er félagið að einhverju leyti bótaskylt?
„Við endurbókum farþega þannig að þeir komist á leiðarenda og bendum náttúrlega okkar farþegum á þær reglur sem gilda um svona tafir og þess háttar.“
Myndskeið náðist af flugvél Icelandair snúast í hálkunni á flugvellinum með þeim afleiðingum að hún rakst utan í landinngang. Enginn var um borð í vélinni þegar óhappið átti sér stað.
„Okkar fólk er bara að meta tjónið á vélinni. Það urðu einhverjar skemmdir og það er verið að meta hversu miklar skemmdir urðu og hvað það tekur langan tíma að koma vélinni aftur í rekstrarhæft ástand,“ segir Bogi, spurður út í það atvik.