Ítrekað flogið til Keflavíkur í meira en 50 hnútum

Veðraskil í janúar 2023 | 24. janúar 2023

Ítrekað flogið til Keflavíkur í meira en 50 hnútum

Ef ekki hefði verið fyrir hálku á akbrautum og flugstæðum á Keflavíkurflugvelli hefði verið hægt að hleypa farþegunum, sem komu með vélum Icelandair á sunnudagsmorguninn, mun fyrr út, að sögn flugrekstrarstjóra félagsins. 

Ítrekað flogið til Keflavíkur í meira en 50 hnútum

Veðraskil í janúar 2023 | 24. janúar 2023

Farþegar í sjö flugvélum sátu fastir um borð í marga …
Farþegar í sjö flugvélum sátu fastir um borð í marga klukkutíma á sunnudeginum. Samsett mynd

Ef ekki hefði verið fyrir hálku á akbrautum og flugstæðum á Keflavíkurflugvelli hefði verið hægt að hleypa farþegunum, sem komu með vélum Icelandair á sunnudagsmorguninn, mun fyrr út, að sögn flugrekstrarstjóra félagsins. 

Ef ekki hefði verið fyrir hálku á akbrautum og flugstæðum á Keflavíkurflugvelli hefði verið hægt að hleypa farþegunum, sem komu með vélum Icelandair á sunnudagsmorguninn, mun fyrr út, að sögn flugrekstrarstjóra félagsins. 

Hann segir breytingu á veðurspám hvað vindstyrk varðar ekki hafa gert útslagið um morguninn. Um níu hundruð farþegar sátu fastir um borð á vellinum í marga klukkutíma. Hann telur að það hafi ekki skrifast á veðurhaminn, heldur hafi það verið hitastigið og óvænt slydda sem fraus.

Isavia hafi gert það að forgangsverkefni að rýma flugbrautir og sjá til þess að þær væru færar til lendingar en að mikil hálka á stæðum á vellinum hafi gert það að verkum að ekki hafi verið hægt að nota stigabíla í stað landgöngubrúa, til að hleypa ferðalöngunum út. 

„Vandinn hins vegar og það sem gerðist sem var ekki fyrirséð nægilega vel, hvorki í spánni né því sem gerðist, var að um nóttina slyddaði og það fraus síðan ofan í bleytuna, sem gerði það að verkum að Isavia náðu ekki að hreinsa bleytuna eða hálkuna af stæðunum. Þannig að vandinn sem við stóðum fyrst og fremst frammi fyrir á sunnudaginn var hálkan á stæðunum. Það var meginvandamálið sem við glímdum við,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair.

„Hefðu stæðin í Keflavík og í kringum byggingarnar verið auð, þá hefðum við getað rýmt allar vélar með stigum, án þess að nota ranann á byggingunni. Starfsfólkið sem var að reyna að fóta sig í kringum vélarnar, tæki og annað, rann til.“

Biðu í allt að 12 klukkustundir

Átta vélar Icelandair frá Norður-Ameríku lentu á Keflavíkurflugvelli um sexleytið á sunnudagsmorguninn. Einungis tókst að hleypa farþegum inn í Leifsstöð úr einni vél en farþegarnir í hinum sjö vélunum þurftu að bíða þangað til síðdegis sama dag til að komast út. Þeir sem biðu lengst sátu í 12 klukkustundir inni í vél. 

Á laugardaginn gaf Veðurstofa Íslands út gula veðurviðvörun fyrir suðvesturhorn landsins sem var í gildi á sunnudaginn. Aðfaranótt sunnudags var sú viðvörun uppfærð í appelsínugula. Veðuraðgerðarstjórn Isavia fundaði með flugfélögunum klukkan hálfsjö á laugardaginn til að upplýsa flugfélög um hvaða áhrif veðrið gæti haft á starfsemi flugfélagsins.

Haukur segir að Icelandair hafi haft tíma til klukkan níu um kvöldið til að taka ákvörðun um hvort flogið yrði frá Norður-Ameríku til Keflavíkur yfir nóttina.

Sáu engar hindranir þegar ákvörðun var tekin

Á laugardagskvöldið var Icelandair með veðurspá til hliðsjónar sem gerði ráð fyrir 32 hnútum í meðalvindstyrk milli klukkan 6 og 8 sunnudagsmorgun, að sögn Hauks. Var því ekki að sjá að neinar hindranir yrðu í vegi starfseminnar í Keflavík.

Það var ekki fyrr en klukkan tvö um nóttina að ný veðurspá er gefin út þar sem í ljós kemur að vindur er of mikill til að hægt sé að nota landgöngubrýr. Að sögn Hauks hefði þó verið hægt að nota stigabíla við þær aðstæður til að hleypa farþegum út. 

„Miðað við upplýsingarnar sem við höfðum þarna þá held ég að við hefðum ekki tekið neina aðra ákvörðun,“ segir Haukur. „Icelandair og önnur flugfélög hafa ítrekað flogið inn og út úr Keflavík í meira en 50 hnútum. Það er ekki hamlandi þáttur varðandi flugstarfsemina.“

Vandamálin komu í ljós þegar klukkutími var til stefnu

Að sögn Hauks kom ekki í ljós að veðuraðstæður hefðu breyst á þann veg sem gæti leitt til þess að erfiðlega gæti gengið að koma fólki frá borði, fyrr en að klukkutími var til lendingar hjá flestum vélum.

Að sögn Hauks mat félagið það sem svo að ekki væri æskilegt að nýta varavellina í þessu tilfelli, þar sem hægt var að lenda á vellinum. 

mbl.is