Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist aldrei hafa sagt að flugvél Isavia geti leyst vél Landhelgisgæslunnar af hólmi, eftir að sala þeirrar síðarnefndu hefur gengið í gegn. Samtal sé hafið um aðra vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist aldrei hafa sagt að flugvél Isavia geti leyst vél Landhelgisgæslunnar af hólmi, eftir að sala þeirrar síðarnefndu hefur gengið í gegn. Samtal sé hafið um aðra vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist aldrei hafa sagt að flugvél Isavia geti leyst vél Landhelgisgæslunnar af hólmi, eftir að sala þeirrar síðarnefndu hefur gengið í gegn. Samtal sé hafið um aðra vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila.
Greint var frá því í gær að rekstri eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, yrði hætt á árinu í hagræðingarskyni og að undirbúa ætti söluferli hennar.
Rætt var um þessa ákvörðun dómsmálaráðherra í upphafi þingfundar í dag, undir liðnum fundarstjórn forseta. Meðal þeirra sem tóku til máls voru Helga Vala Helgadóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar.
Rósa vísaði meðal annars í ræður dómsmálaráðherra í þinginu í gær þar sem hann sagði að viðræður væru hafnar við Isavia um samstarf varðandi notkun á flugvél Isavia við leit og björgun og það væri hagkvæmari lausn. Rósa sagði lausnina þó alls ekki hagkvæmari þar sem til þess að Isavia myndi bjóða fram þennan kost þyrfti að fara út tækjakaup og þjálfun á þeirri vél, með tilheyrandi gríðarmiklum kostnaði.
Jón vísaði því á bug að hafa sagt að vél Isavia gæti komið í stað eftirlitsvélar Landhelgisgæslunnar.
„Aftur vil ég nefna það að það er mikilvægt að halda sannleikanum til haga hér í ræðustól. Ég hef aldrei, hvorki í ræðu né riti, á fundum, hvort sem er hér í þinginu eða á nefndarfundum, talað um það að vél Isavia geti leyst þessa vél af hólmi. Við höfum hafið samtali við Isavia að það komi til önnur vél sem geti sinnt verkefnum fyrir báða aðila. Það hefur ekkert með þessa vél að gera sem Isavia rekur í dag. akkúrat ekki neitt,“ sagði Jón.
Í samtali við mbl.is í gær minntist hann þó einnig á að til stæði að samnýta flugvél Isavia sem einnig væri í eigu ríkisins og væri lítið notuð. Isavia hefði tekið vel í það erindi dómsmálaráðuneytisins.
„Við höfum hafið samtal um mögulega samnýtingu á þessum vélum og mögulega sameiginlegan rekstur í framtíðinni. Það er í jákvæðu samtali á milli okkar og þeirra,“ sagði Jón í samtali við mbl.is í gær og og bætti við að stjórnvöldum hafi þótt þetta skynsamlegasta ráðstöfunin á þessu stigi, eftir að hafa átt samtal við Landhelgisgæsluna.
Helga Vala, kallaði eftir afstöðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í málinu og spurði hvort hún hefði viðrað áhyggjur sínar af því að selja ætti þetta mikilvæga öryggistæki.
Sagði hún það „sveltistefnu ríkisstjórnarinnar“ um að kenna að almanna- og þjóðaröryggi væri stefnt í hættu og að fiskveðieftirlit yrði í skötulíki. „Það verður að grípa í handbremsuna núna áður en hæstvirtur dómsmálaráðherra verður okkar að meira tjóni.“
Kom hún jafnframt með tillögur til að koma til móts við rekstrarvanda Landhelgisgæslunnar, meðal annars með því að falla frá opnunargjaldi sem Gæslan þarf að greiða í hvert skipti sem þyrlan þarf taka á loft á Reykjavíkurflugvelli utan hefðbundins opnunartíma og að fella niður álögur á olíu sem Gæslan þarf að greiða ríkinu.
Jón sagðist taka þessum hugmyndum fagnandi, það gæti hjálpað í rekstarerfiðleikum að fella niður gjöld.
„Það yrði enginn ánægðari heldur en ég ef greitt yrði fyrir auknu rekstarfjármagni með einum eða öðrum hætti svo að til þessar ráðstöfunar þyrfti ekki að koma núna. Þó ég telji að það sé hægt að leita að hagkvæmari rekstri Landhelgisgæslunnar eins og annarra stofnana þegar til lengri tíma er litið.“