Hér er á ferðinni ein galnasta samsetning sögunnar að því virðist en þið eigið sannarlega gott í vændum. Hér er meistari María Gomez á Paz.is á ferðinni með dýrindis andalæri sem hún ber fram á vöfflu.
Hér er á ferðinni ein galnasta samsetning sögunnar að því virðist en þið eigið sannarlega gott í vændum. Hér er meistari María Gomez á Paz.is á ferðinni með dýrindis andalæri sem hún ber fram á vöfflu.
Andalæri á vöfflu með hrásalati og hoisin sósu
María mælir með að við framkvæmum í þessari röð: 1. Vöffludeig, 2. Öndina í ofninn, 3. Hrásalat meðan öndinn er í ofninum, 4. Baka vöfflurnar þegar 5 mín eru eftir af öndinni í ofninum.
Vöffludeig
- 250 g hveiti
- 50 g grófur hrásykur frá Dan sukker (mikilvægt að nota þennan til að gera þær stökkar)
- 150 g bráðið smjör
- 10-12 g þurrger
- 1 egg
- 1/2 tsk. fínt borðsalt
- 210 g volg mjólk
- Meiri hrásykur frá Dan sukker til að sáldra yfir deigið í járninu eða jafnvel perlusykur ef þið eigið (útskýri seinna)
Öndin
- 1 dós af andalærum
- Salt og pipar
- Tilbúin Hoisin sósa úr búð
- 1/2 dl hlynsíróp
Hrásalatið
- 1/4 partur af hvítkálshaus
- 3 meðalstórar gulrætur
- 1 gult epli
- 1 dl majónes en ég nota alltaf frá Heinz í svona sósur en það er bara laaaanbest og svo silkimjúkt
- 1 stk. þroskað avókadó eða um 120 gr
- 2 marin hvítlauksrif
- 1 msk. nýkreystur appelsínusafi
- salt og pipar
Klettasalat til að setja svo ofan á vöffluna
Vöffludeig
- Setjið öll þurrefni saman í skál og hrærið með skeið eða sleif (setja líka þurrgerið hér með)
- Bætið næst við volgri mjólkinni og egginu
- Hrærið vel saman með sleif og setjið svo bráðið smjörið út í og hrærið þar til það er komið vel inn í deigið, en deigið er ekki eins og hefðbundið fljótandi vöffludeig heldur meira eins og þunnt brauðdeig og þannig á það að vera
- Breiðið stykki yfir skálina og setjið á volgan stað og leyfið deiginu að hefast meðan önd og hrásalat er útbúið
Öndin
- Hitið ofninn á 190-200 °C undir og yfirhita án blásturs
- Gott er að láta heitt vatn renna í smátíma á lokaða dósina áður en lærin eru tekin úr henni
- Opnið dósina varlega og ef þið hafið látið heitt vatn renna á dósina ætti fitan að vera orðin fljótandi og þá er gott að taka lærin bara beint upp úr og setja í eldfast mót, ef fitan er enn þykk og óbráðin þá skola ég ögn lærin undir volgu vatni til að ná sem mest af fitunni af þeim áður en ég set þau í mótið
- Saltið og piprið létt og pennslið létt með Hoisin sósu
- Bakið í ofninum í 25-30 mín en lærin er fullelduð fyrir svo hér er í raun bara verið að hita þau upp og ná fram stökkri húð, gott er að hafa þau á grilli síðustu 2-3 mínúturnar
Hrásalatið
- Setjið ávókado, majónes og appelsínusafa ásamt hvítlauksrifum saman í blandara og maukið þar til verður að kekkjalausri silkimjúkri sósu
- Skerið hvítkálið í örþunnar ræmur, mér finnst best að skera það með hníf en það má líka rífa það í rifjárni
- Flysjið gulrætur og skrælið eplið og skerið bæði gulrætur og epli í þunnar lengjur með flysjara
- Setjið næst majónessósuna í skál og grænmetið ásamt eplinu út í og hrærið vel saman og saltið ögn og piprið, kælið meðan andalærin eru í ofninum
Samsetning
- Þegar fimm mínútur eru eftir af lærunum í ofnum bakið þá vöfflurnar í belgísku vöfflujárni (stráið smá perlusykri eða hrásykri yfir hverja vöfflu áður en þið lokið járninu) og passið að baka þær nógu lengi svo þær verði stökkar og setjið á grind
- Hrærið 1,5 dl af Hoisinsósu saman við 0,5 dl af hlynsírópi, hrærið vel saman og hitið í örbylgjuofni í 30-40 sekúndur
- Rífið andalærin niður með gaffli
- Setjið svo á heita vöffluna hrásalat neðst, andalæri ofan á og dreifið svo heitri Hoisin/hlynsíróp sósunni yfir lærin og toppið með klettasalati