Það er nóg að gera hjá Pétri Erni Svavarssyni og fátt annað en námið kemst að hjá honum. Hann stundar meistaranám í söngleikjaflutningi við Konunglegu tónlistarakademíuna í London og er þar eins og blómi í eggi enda löngu búinn að smitast af leiklistar- og tónlistarbakteríunni.
Það er nóg að gera hjá Pétri Erni Svavarssyni og fátt annað en námið kemst að hjá honum. Hann stundar meistaranám í söngleikjaflutningi við Konunglegu tónlistarakademíuna í London og er þar eins og blómi í eggi enda löngu búinn að smitast af leiklistar- og tónlistarbakteríunni.
Það er nóg að gera hjá Pétri Erni Svavarssyni og fátt annað en námið kemst að hjá honum. Hann stundar meistaranám í söngleikjaflutningi við Konunglegu tónlistarakademíuna í London og er þar eins og blómi í eggi enda löngu búinn að smitast af leiklistar- og tónlistarbakteríunni.
„Þetta er svolítið skrítið því ég næ varla að upplifa það að ég búi í Lundúnum, því ég er nær alfarið í skólanum. Ég bý meira að segja í sömu götu og skólinn og fæ því ekki að virða mikið af borginni fyrir mér á leiðinni í tíma,“ segir Pétur og bætir við að hann sakni þess helst að geta ekki reimað á sig góða gönguskó og arkað um holt og hæðir líkt og hann var vanur á æskuslóðunum á Ísafirði. „Það er ekkert sem heitir að komast í náttúruna hér í London nema leggja fyrst á sig tveggja tíma ferðalag út úr borginni.“
Pétur er ekkert venjulegt eintak: hann varð snemma virkur í tónlistarstarfinu á Ísafirði og söng með barnakórum á Vestfjörðum. Aðeins tíu ára gamall fékk hann að spreyta sig á leiksviði og hreppti aðalhlutverkið í uppfærslu Litla leikklúbbsins á sögunni um Emil í Kattholti. Hann sökkti sér ofan í tónlistarnám og brilleraði líka í skóla en Pétur afrekaði það að dúxa frá Menntaskólanum á Ísafirði með hæstu einkunn sem gefin hefur verið við skólann og lauk um svipað leyti framhaldsprófi í píanóleik og miðprófi í klassískum söng.
Haustið 2019 hóf Pétur nám við söngdeild Listaháskólans og lauk þaðan bachelor-gráðu í bæði söng og hljóðfæraleik síðasta vor en við útskrift hlaut hann styrk úr sjóði Halldórs Hansen. Geri aðrir betur.
Pétur valdi þessa leið í lífinu sjálfur og segir að heima fyrir hafi hann bæði fengið stuðning og frelsi til að læra það sem hann langaði. Hann varð ekki dúx fyrir tilviljun heldur einsetti sér að klára stúdentsnámið með glæsibrag og tekur undir með blaðamanni að þar hafi tónlistarnámið mögulega hjálpað enda læri börn það með slíku námi að skipuleggja tíma sinn vel og vinna samviskusamlega.
Það vill stundum gerast þegar ungt fólk ákveður að leggja fyrir sig listnám að aðstandendur þeirra reyna að telja þeim hughvarf. Líf lístamannsins getur jú verið erfitt, atvinnumöguleikarnir takmarkaðir og þó að margir séu kallaðir eru fáir útvaldir í leikhús-, tónlistar- og söngleikjaheiminum. Pétur segist hafa verið laus við slíkan þrýsting og prísar sig sælan að eiga foreldra sem vilja fyrst og fremst að börnin sín geri það sem geri þau hamingjusöm: „Ég var kannski ekki með brjálaða köllun fyrir því að fara í söngleikjanám, en ég vissi samt að ég ætlaði ekki að verða þessi manngerð sem dauðsér kannski eftir því eftir tuttugu ár að hafa ekki a.m.k. reynt,“ segir hann, og bætir við að það hafi einmitt helst verið í náminu í London að varnaðarraddirnar urðu háværari: „Það er ekki falið fyrir nemendunum að mjög harður slagur er framundan og við höfum alveg fengið að heyra það að ef við getum hugsað okkur að gera eitthvað annað þá sé það mögulega skynsamlegasti valkosturinn í stöðunni. Fyrir marga samnemendur mína er samt köllunin svo sterk að það kemur ekki annað til greina en að halda áfram á þessari braut.“
Gaman er að segja frá því að Pétur er ekki eini Íslendingurinn sem stundar núna mastersnám í söngleikjaflutningi við Tónlistarakademíuna. Ari Ólafsson, sem söng fyrir Ísland í Eurovision-keppninni 2018, er bekkjarbróðir hans og segir Pétur lyginni líkast að í aðeins 38 manna hópi sé að finna tvo Íslendinga. „Ekki nóg með það heldur sýna tölur skólans að Ísland er í fjórða sæti yfir þau lönd sem sent hafa flesta nemendur til náms við söngleikjadeildina.“
Dagurinn hjá Pétri hefst klukkan átta og hann er kominn í skólann klukkan níu. „Fram til hálftvö snýst námið um ýmiss konar hreyfingu og framkomu, s.s. danstíma, leiklistartíma, spuna, raddþjálfun eða pilates-æfingar,“ útskýrir hann og bætir við að erlendu nemendurnir við listaakademíuna hafi fengið sérstaka framburðarþjálfun. „Eftir hádegishlé taka við þrír og hálfur tími af verkefnavinnu, s.s. uppsetningu á leiksýningu, eða að við sitjum „masterclass“ t.d. í söng. Deginum er yfirleitt lokið um klukkan sjö á kvöldin en stundum tekur meira við og á tímabili voru t.d. haldnir tímar í söngleikjasögu á kvöldin fram til hálftíu.“
Kemur ekki að sök þó að Pétri gefist lítill tími utan skóladagsins til að stunda einhvers konar félagslif enda eru kennslustundirnar líflegar og skemmtilegar. „Ef eitthvað er þá held ég að megi segja um söngleikja-krakka almennt að þau geta stundum verið aðeins of lífleg,“ segir hann glettinn og bætir við að það séu forréttindi að verja skóladeginum með svona hæfileikaríkum hópi fólks.
Fyrir utan það að fá mjög vandaða og stranga þjálfum í öllu sem viðkemur söngleikjahaldi fá nemendur Tónlistarkademíunnar tækifæri til að mynda tengsl í geiranum. Veitir ekki af enda getur verið erfitt að fá fyrsta tækifærið á sviði í London. „Akademían er mjög sterk að þessu leyti og reynir að tengja okkur við öll stærstu nöfnin í söngleikjageiranum. Bara á þessari önn höfum við t.d. fengið að syngja fyrir Adam Guettel, höfund Light in the Piazza, og sjálfan Claude-Michel Schönberg, höfund Vesalinganna. Á föstudag eru síðan haldir danstímar með fólki frá West End sem kennir okkur dansrútínur sem eru notaðar í prufum fyrir þá söngleiki sem eru á fjölunum um þessar mundir,“ segir Pétur. „Næsta stóra verkefnið verður sýning fyrir umboðsmenn þar sem hver og einn nemandi fær tveggja mínútna gat til að sýna hvað í honum býr með fullskipaðri hljómsveit. Umboðsmenn og leiklistarráðunautar (e. casting directors) fylgjast með og að þessum viðburði loknum eru yfirleitt flestir fljótlega komnir með sinn eigin umboðsmann. Þriðja og síðasta önnin í náminu felst í uppsetningu á söngleik og eru dæmi þess að nemendur hafi þá þegar náð að bóka sig inn í stórar sýningar á West End og fá það metið í staðinn fyrir nemendauppfærsluna.“
Dvölin hefur annars gengið tiltölulega áfallalaust fyrir sig. Að vísu varð Pétur fyrir því óhappi fljótlega eftir komuna til Lundúna að símanum hans var stolið og þar með missti hann íslenska símkortið. „Vandinn var ekki bara sá að þurfa að fá sent nýtt símkort, heldur missti ég með þessu íslensku rafrænu skilríkin, og ekki hægt að virkja þau öðruvísi en í eigin persónu á Íslandi. Sé ég því fram á að vera án rafrænna skilríkja á meðan ég verð hérna úti.“
Það er ekkert fararsnið á Pétri, og þó að hann sakni vestfirsku náttúrunnar, og sundlauganna, þá vonast hann til að skjóta rótum í hringiðunni í Lundúnaborg og sjá hvað setur. Vonar hann að Brexit flæki ekki framtíðaráætlanirnar enda orðið ögn erfiðara fyrir Íslendinga að fá dvalarleyfi í Bretlandi: „Það sem dvölin hérna hefur kennt mér öðru fremur er hvað það er ótrúlega margt sem ég á eftir ólært, og að það er mikil vinna framundan.“