Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu, hleypti af stokkunum forsetaframboði sínu á kosningafundi í borginni Charleston í Suður-Karólínu á þriðjudag.
Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu, hleypti af stokkunum forsetaframboði sínu á kosningafundi í borginni Charleston í Suður-Karólínu á þriðjudag.
Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu, hleypti af stokkunum forsetaframboði sínu á kosningafundi í borginni Charleston í Suður-Karólínu á þriðjudag.
Haley sækist eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári. Hún er önnur til að tilkynna um framboð, en fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur þegar tilkynnt að hann sækist eftir útnefningu flokksins.
Á fundinum fór Haley um víðan völl, talaði um uppruna sinn og uppvöxt sem dóttir innflytjenda, trú sína á Bandaríkjunum og þörfina á því að ný kynslóð mundi leiða landið til framtíðar.
Hún talaði sömuleiðis um þörfina á því að styrkja efnahagslífið, svo að allir íbúar landsins hefðu færi á að blómstra og mikilvægi þess að Bandaríkin myndu á ný verða leiðandi afl í heimi friðs og frelsis.
Haley sagði að til að þessi sýn gæti orðið að veruleika væri nauðsynlegt að breyta um stefnu og skipta um forseta í Hvíta Húsinu.
Nikki Haley skaust upp á stjörnuhiminn bandarískra stjórnmála árið 2010 þegar hún var kjörin ríkisstjóri í Suður-Karólínu, þá 39 ára gömul, en hún varð þá yngsti ríkisstjóri Bandaríkjanna.
Fyrir ríkisstjórakjörið hafði hún verið þingmaður á þingi Suður-Karólínu frá árinu 2004. Hún var fyrsta konan og fyrsta manneskjan af asískum uppruna til að gegna ríkisstjóraembættinu í Suður-Karólínu, en foreldrar Haley fluttust til Bandaríkjanna frá Indlandi.
Nikki Haley var ríkisstjóri í Suður-Karólínu frá 2011 til 2017. Í stjórnartíð sinni lagði hún mikla áherslu á að bæta viðskiptaumhverfi í ríkinu og laða til þess ný fyrirtæki.
Stærsti atburður ríkisstjóratíðar hennar var þegar skotárás var framin í kirkjunni Mother Emanuel AME í Charleston, þar sem níu svartir kirkjugestir voru skotnir til bana af hvítum þjóðernisöfgamanni.
Myndir náðust af árásarmanninum þar sem hann hélt á Suðurríkjafánanum. Í kjölfar þess tilkynnti Haley að fáninn yrði ekki lengur dreginn að húni við þinghús Suður-Karólínu.
Í byrjun árs 2017 sagði Haley svo af sér sem ríkisstjóri í Suður-Karólínu, eftir að þáverandi forseti, Donald Trump, hafði skipað hana fastafulltrúa Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu Þjóðunum.
Í starfi sínu sem fastafulltrúi vakti hún athygli þegar hún ítrekaði að Bandaríkin væru tilbúin að beita hervaldi gegn Norður-Kóreu, ef stjórnvöld landsins létu ekki af kjarnorkutilraunum sínum.
Haley leiddi einnig útgöngu Bandaríkjanna úr mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna og þótti dyggur bandamaður Ísraels innan stofnunarinnar, þá sérstaklega þegar kom að því að styðja landið innan öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna.
Haley gegndi starfi fastafulltrúa til loka árs 2018, en hún var ein af fáum sem þjónuðu í ríkisstjórn Trumps sem yfirgaf stöðu sína á eigin forsendum og í sátt við forsetann fyrrverandi.
Samband Haley við Trump var að mestu gott frá því að hún hóf að starfa í ríkisstjórn hans. Í forvali repúblikana árið 2016 lýsti Haley upphaflega yfir stuðningi við Marco Rubio, öldungadeildarþingmann frá Flórída.
Eftir að hann dró framboð sitt til baka studdi hún framboð Ted Cruz. Eftir að Trump hafði hlotið útnefningu flokksins það ár, sagðist Haley ætla að kjósa hann, þrátt fyrir að hún væri ekki aðdáandi hans. Eftir árásirnar á þingið þann 6. janúar 2021, gagnrýndi Haley forsetann fyrir þáttinn sem hann átti í æsa upp stuðningsmenn sína.
Þrátt fyrir gagnrýnina hét Haley því að hún myndi ekki fara gegn Trump ef hann hygðist sækjast eftir útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar 2024.
Henni hefur þó greinilega snúist hugur, en í myndbandi þar sem hún tilkynnir um framboð sitt, sagði Haley að tími væri kominn á nýja kynslóð leiðtoga innan Repúblikanaflokksins.
Haley mælist ekki hátt í könnunum, þar sem kannað er fylgi við líklega frambjóðendur. Í nýrri könnun frá Morning Consult mælist hún með 3% fylgi. Þar mælast Trump og Ron DeSantis, ríkisstjóri í Flórída efstir. DeSantis hefur þó ekki lýst yfir framboði í forvalinu.